29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

57. mál, jarðhiti

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Það var aðeins aths. við eitt eða tvö orð, sem fram hafa komið, sem ég gjarnan vildi koma að.

Ég lagði áherzlu á það, að ef brtt. á þskj. 247 yrði samþ., þá mundi skapast hættulegt fordæmi um að láta l. verka aftur fyrir sig, þegar greiddir væru styrkir úr ríkissjóði. Hv. þm. Barð. hefur talið sig finna fordæmi fyrir, að þetta hafi verið gert á Alþingi nýlega og ég hafi m. a. veitt slíku fylgi mitt. Hv. 6. þm. Reykv. hefur nú tekið þetta upp sem aðalröksemd sína fyrir till. á þskj. 247.

Ég vil segja hv. þm. Barð., að hér er um algeran misskilning að ræða. Þar hefur ekki verið gefið fordæmi á einn eða annan hátt. Í sambandi við afgr. hafnarl. og styrk til hafnargerða hefur lengi verið fylgt föstum reglum um hlutfall milli framlags frá ríkinu annars vegar og hafnarsjóðs hins vegar. Þetta hafði gilt lengi, þegar veittur var sá styrkur, sem hann ræddi um, sem sé til Húsavíkurhafnar. Þegar sá styrkur var veittur, þá var, eftir því sem ég man bezt, mannvirki, sem höfnin hafði látið gera. tekið sem framlag af hendi hafnarsjóðs. Þetta hefur verið gert víðar en í Húsavík, t. d. var það gert í Keflavík, þegar hafnarl. þar voru samþ. Þetta er því algerlega ósambærilegt, sem hv. þm. Barð. fer hér með og afsannar ekkert það, sem ég lagði megináherzluna á, að þegar tekin er upp ný regla, að styrkja bæjar- eða sveitarfélög til mannvirkjagerðar eftir ákveðnu hlutfalli úr ríkissjóði, þá sé hættulegt að láta það verka aftur fyrir sig, því að þá eru engin takmörk fyrir, hvar það getur lent. Mér virðist því ekki hægt að leggja út í slíka löggjöf.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. Str. Þegar þetta frv. var athugað í allshn., voru allir sammála um, að frv. ætti að ná fram að ganga. Var enginn ágreiningur um það í n., og fulltrúi Framsfl. lagði ekki síður áherzlu á það en við hinir, að hér væri gott mál og því nauðsynlegt að tryggja því framgang í þinginu. Hv. þm. Str. virðist nú hafa snúizt gegn einu meginatriði frv., sem sé því, að ríkissjóður styrki jarðboranir að hálfu leyti. Byggir hann það á því, að jarðboranir hjá nokkrum sveitarfélögum hér á landi hafa reynzt það arðvænlegar, að ástæðulaust sé að styrkja þær. Í því sambandi nefndi hann tvö eða þrjú sveitarfélög, Hafnarfjörð, Húsavík og eitthvert það þriðja. Ég vil benda honum á, að í frv. eru ákvæði um, að kostnaður við boranir, sem framkvæmdar eru af bæjar- og sveitarfélögum, á að greiðast að hálfu úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárl. Og ef svo skyldi standa á einhvers staðar, að talið væri stórkostlegt gróðafyrirtæki að koma þar upp hitaveitu, þá er þeim, sem vilja ekki veita styrk til slíks fyrirtækis, í lófa lagið að greiða atkv. móti slíkri fjárveitingu og spyrna við framgangi hennar. Það er því með öllu tilefnislaust hjá hv. þm. Str., þegar hann vill bregða fæti fyrir frv., vegna þess að hann telur, að örfá sveitarfélög muni hagnast stórkostlega á að koma upp hjá sér hitaveitu, því að það er mjög ósanngjarnt að láta öll önnur bæjarfélög gjalda þess, að sérstakar ástæður kunna að vera fyrir hendi á örfáum stöðum.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram hér. Ég vildi aðeins undirstrika það, sem ég áður sagði, að allshn. var sammála um, að þetta mál væri svo gott, að nauðsynlegt væri að greiða fyrir, að það næði fram að ganga. Ég vænti því þess, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að bregða fæti fyrir málið með beinni andstöðu eða með því að bera fram háskasamlegar brtt., takist ekki, en frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir frá n.