07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

27. mál, fjárlög 1944

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Fjvn. hefur flutt nokkrar brtt. við fjárlfrv., á þskj. 474, og vil ég gera nokkra grein fyrir þeim helztu. Fyrsta till. er um það að hækka framlag til byggingar póst- og símahúss á Akureyri úr 200 þús. í 350 þús. kr. Það er talið, að ef þessi viðbót fáist, þá muni vera hægt að taka þetta hús í notkun ári fyrr en ella mundi verða. Önnur brtt. er um hækkun á tekjum af áfengis- og tóbakseinkasölunni. Er lagt til, að tekjur áfengisverzlunarinnar verði hækkaðar um 5 millj. og 300 þús. kr., en tekjur tóbakseinkasölunnar um 2 millj. og 900 þús. kr. Er þetta vegna þeirrar breyt., sem gerð var á söluverði á vörum þessara verzlana nú í haust. Eins og skýrt var frá við 2. umr. fjárlfrv., hafði fjvn. þá ekki tekið með í till. sínar væntanlega hækkun á tekjum þessara verzlana vegna verðhækkunarinnar.

Næst eru tvær brtt. við 12. gr. Sú fyrri er um framlag til læknisvitjanasjóðs samkv. l., 10 þús. kr. sem alveg vantar í frv. Hin brtt. við þessa grein er um sjúkrastyrk til Guðmundar Péturssonar nuddlæknis, 1500 kr.

Næst eru tvær brtt. við 13. gr. Sú fyrri um hækkun á framlagi til rekstrarkostnaðar vitanna úr 150 þús. í 200 þús. kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fjvn. fékk, verður að telja, að sú upphæð, sem nú er í frv., 150 þús., muni ekki nægja til að greiða rekstrarkostnað vitanna, og er því þessi hækkunartill. fram borin. Hin brtt. við þessa grein er um fjárframlag til brimbrjótsins í Bolungavík, 25 þús. kr. Fregnir hafa um það borizt, að nokkrar skemmdir hafi orðið á þessu mannvirki, og er það ekkert nýtt í sögunni. Það hefur oft komið fyrir áður. Nefndin taldi ekki annað fært en leggja til, að veitt verði nokkur upphæð til þessa mannvirkis, til þess að gera við skemmdirnar.

Þá eru nokkrar brtt. við 14. gr. Fyrsta brtt. er aðeins orðabreyting. Í 9. brtt. er lagt til, að fjárframlag til endurbóta íbúðarhúsa á prestssetrum hækki úr 70 þús. í 80 þús. krónur. Fjvn. gerir engar till. um það, hvernig fénu skuli varið, það á að ákveðast af ráðuneytinu, því að n. lítur svo á, að það hafi betri ástæður til að vita, hvar þörfin er mest á hverjum tíma, og nýtur ráðuneytið þar aðstoðar biskups og annarra, sem hafa kirkjumálin með höndum. 11. brtt. er um námsstyrk til Skúla Jenssonar. Þessi námsmaður fékk fyrir allmörgum árum lömunarveiki og er svo illa farinn af völdum hennar, að hann getur ekki gengið og ekkert komizt nema í vagni. Þrátt fyrir þungbær veikindi hefur þessi maður brotizt áfram til stúdentsprófs og hefur nú innritazt í háskólann. Hann mun hafa lokið gagnfræðaprófi 1942 og ári síðar stúdentsprófi. Verður það að teljast mikið afrek, þótt viðkomandi væri heill heilsu, og sérstaklega í frásögur færandi, þar sem hér á í hlut maður, sem hefur orðið svona hart leikinn af veikindum. Nefndin telur rétt, að þessi piltur fái þá viðurkenningu, sem hér um ræðir.

Næsta till. er að hækka framlag til framkvæmda á sundskyldu í barnaskólum úr 45 þús. kr. í 60 þús. Er talið, að fyrri upphæðin muni reynast ónóg.

Þá er nokkur breyting á framlagi til húsmæðrakennaraskólans. Í frv. er nú, til frádráttar gjöldum skólans, talið fæðisgjald, 18 þús. kr. Það er of hátt, og er brtt. n. um að lækka það um kr. 12 þús., þannig að t stað 41 þús., sem er í frv., komi kr. 53 þús.

Við 15. gr. flytur n. brtt. um, að þar komi nýr liður, til fjörefnarannsókna 50 þús. kr.

Næsta brtt. er við 16. gr. Við A. 7 bætist nýr liður, framlag til kaupa á jarðborum og hlutum í þá og til jarðhitarannsókna, eftir tili. rannsóknaráðs, kr. 50 þús.

Næst er till. um hækkun framlags til sandgræðslu. Nefndin gerir engar till. um, hvernig þeirri viðbót skuli varið frekar en því fé, sem fyrir er í frv.

17. brtt. n. er um hækkun á styrk til Loðdýraræktarfélags Íslands, úr 3000 í 6000 krónur. Næst er brtt. við 18. gr. Er lagt til að eftirlaun til nokkurra uppgjafapresta hækki um 300 kr. til hvers, auk nokkurrar annarrar hækkunar á einstökum liðum, sem fyrir eru. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um brtt. við þessa grein.

Loks flytur nefndin brtt. við 22. gr. um að bæta þar inn í 15 liðum. Þær brtt. skýra sig sjálfar, og er því ekki þörf að fjölyrða um þær. Þó vil ég víkja nokkrum orðum að tillögum n. Vil ég geta þess, að nokkur ágreiningur hefur orðið um þær sumar, þó að meiri hluti n. standi að þeim. Í 7. lið er gert ráð fyrir, að greiða Ferðafélagi Íslands 20000 kr. til leiðbeiningastarfsemi, og var ágreiningur um það í n. 10. liður í þessum till. er um að verja í samráði við landlækni allt að 50000 kr. til þess að greiða fyrir því, að læknar fáist til þeirra læknishéraða, sem erfiðast er að fá lækna til að gegna. Munu erfiðleikarnir m. a. stafa af því, að læknar telji kjörin lakari þar en hægt er að fá annars staðar, vegna fámennis þeirra héraða. 13. liður till. er um að heimila ríkisstjórninni að láta byggja við geðveikra hælið á Kleppi eða taka hús á leigu fyrir þá sjúklinga, sem þurfa á hælisvist þar að halda. Það er flestum kunnugt, að ekki er hægt að fá rúm á Kleppi fyrir svipað því alla þá sjúklinga, sem þess þarfnast. Mikil vandræði eru fyrir einstök bæjar- og sveitarfélög, sem þurfa að sjá fyrir þessum sjúklingum, og þarf að bæta úr þeim vandræðum hið allra fyrsta. Hæstv. ríkisstjórn mun hafa ætlað að bæta úr þessu með viðbyggingu á Kleppi, en mér er tjáð, að það hafi strandað á því, að ekki hafi verið unnt að fá byggingarefni. Ef til vill mætti fá hús á leigu, hér eða annars staðar, þar til úr rætist.

Næsta till. er um að verja nauðsynlegu fé til að fullgera herbergi í þjóðleikhúsinu fyrir þjóðminjasafnið og til flutnings þess þangað og niðurröðun. Húsnæði það, sem það hefur og hefur haft að undanförnu, er mjög ófullnægjandi, og þarf að bæta úr því hið bráðasta.

Síðasta brtt. er um að heimila ríkisstj. að veita úr framkvæmdasjóði ríkisins allt að 5 millj. kr. til byggingar fiskiskipa. Gerir n. ráð fyrir, að Alþ. muni innan skamms setja reglur um það, hvernig fé þessu skuli varið.

Ég vil geta þess, að enn er að vænta brtt. frá fjvn., en þær eru fáar, og af því að þeim hefur ekki verið útbýtt, mun ég ekki gera þær að umræðuefni. En ég vil geta þess, að ein er um verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur þessa árs, til þess að bændur fái það verð, sem samkomulag varð um í 6 manna nefndinni á síðastliðnu sumri fyrir afurðir sínar, og verður gerð nánari grein fyrir brtt., þegar hún liggur fyrir til umr. Það er sýnilegt, að ef till. n. ná fram að ganga, verður ekki afgangur á sjóðsyfirliti frumvarpsins, en á rekstraryfirliti mun verða nokkur afgangur, og mun láta nærri, að inn- og útborganir á sjóðsyfirliti standist á. Það er því auðsætt, að ef á að halda áfram að leggja fram fé til þess að koma í veg fyrir hækkun á verðlagi innanlands, þarf ríkissjóður að fá nýja tekjustofna. Frv. um verðlækkunarskatt var fellt í Ed. Sá meiri hl., sem að því stóð, hefur ekki gert ákveðnar tillögur um tekjuöflun í staðinn. Ef til vill hefur það vakað fyrir þeim meiri hl. að hætta að leggja fram fé í því skyni að halda dýrtíðinni á svipuðu stigi og hún nú er á. En það er fyrirsjáanlegt, að hún hlýtur að hækka, ef ekkert verður að gert.

Einstakir þm. hafa lagt fram nokkrar brtt. við frv., en þar sem þeir hafa ekki enn gert grein fyrir þeim, mun ég ekki ræða þær að sinni, en ef til vill geri ég það síðar, er flm. hafa mælt fyrir þeim.