29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þó að ég hafi orðið var við, að í hugum margra hv. þm. er hér um svo mikið nauðsynjamál að ræða fyrir berklavarnirnar í landinu, þá er af öðrum ástæðum mikil fyrirstaða gegn því, að slíkt lagaákvæði fáist fram, sem hér liggur fyrir. Það hefur þess vegna verið talið heppilegt og hyggilegt, að gildi þessara l. yrði ákveðið um stuttan tíma, þ. e., að fyrir fram væri ákveðið, að þau giltu ekki nema stuttan tíma, eins og til að undirstrika það, að hér sé um undantekningu að ræða, sem gerð sé í þessu mikla vandamáli þjóðarinnar. Enn fremur er það, að á þeim stutta tíma, sem um er að ræða, yrði fengin reynsla fyrir því, hvort þetta frv., ef að l. verður, yrði sú lyftistöng fyrir vinnuhæli berklasjúklinga, sem til er ætlazt. Ég hef því leyft mér að skrifa upp og bið um, að borin verði upp til atkv. brtt. við 2. gr. frv., sem takmarki gildi l. þannig, að ákvæði þeirra gildi til ársloka 1944. Orðalag gr. yrði þá þannig: Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til ársloka 1944.

Ég vil vona, að með þessari miklu takmörkun á gildi l. fallist hv. þd. á að láta þetta frv. fara til hv. Ed. Og þrátt fyrir það að menn hafi ýmislegt við það að athuga, að þetta spor sé stigið, þá hygg ég, að þegar þetta er undirstrikað á þennan hátt, að þessi löggjöf skuli gilda aðeins um stuttan tíma, þá megi þess vegna segja, að þessi l. séu sett nokkuð til reynslu á því, hvort þetta verður mikil hjálp til þess að koma vinnuhælinu á stofn. Ég er sannfærður um það, að þetta verður lyftistöng til þess. En vinnuhæli berklasjúklinga er þjóðarnauðsyn. — Vil ég svo leyfa mér að leggja fram þessa skriflegu brtt.