11.12.1943
Efri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

84. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þetta mál hefur fengið meiri undirbúning en mörg önnur. Frv. er um breyting l. frá 1936. Við framkvæmd virtust koma fram á l. ýmsir agnúar, sem laga þyrfti. Það varð að ráði fyrir næstliðið búnaðarþing að fá athugula menn til þess að undirbúa umbætur á l., og var það gert, málið síðan lagt fyrir búnaðarþingið og athugað þar í n. Kom það frá n. og var samþ. á þinginu nærri því eins og það er hér borið fram. Í Nd., þar sem frv. var síðan flutt, var það samþ. án nokkurra verulegra efnisbreytinga. Landbn. Ed. hefur athugað frv. og ekki fundið ástæðu til að breyta því, heldur leggjum við 4 nm., sem á fundi vorum, til að frv. verði samþ. óbreytt.

Með þessu frv. eru gerðar töluverðar breyt. á l. frá 1936, þótt ekki séu meiri en svo, að þær vekja yfirleitt ekki ágreining. Sérstaklega er þar meir skilgreint milli erfðaábúðar og óðalsréttar, en því var um of blandað saman í fyrri l. Þá koma hér ýmis ákvæði, sem létta heldur fyrir mönnum að taka óðalsrétt á jörðum, erfðafjárskattur af þeim fellur niður, og opinberir styrkir til þeirra verða ekki sérgreint fylgifé. Réttur er veittur til að gera að ættarjörðum þær jarðir, sem hafa verið setnar af sömu ætt öld eða meira, en því fylgja ýmis réttindi, og er greitt fyrir, að menn geti náð á þeim eignarhaldi á hagkvæman hátt, ef þeir eru annarra landsetar. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja meir um málið. Þm. er það vel kunnugt.