10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

152. mál, alþýðutryggingar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera langorður um þetta mál, sem hér liggur fyrir. En við tveir nm., ég og hv. þm. Seyðf. (LJóh), gerðum nokkurn fyrirvara í nál. okkar um það, að þó að við viðurkenndum, að hér væri um að ræða gott mál, sem í höfuðatriðum væri nauðsynlegt, að næði fram að ganga, þá töldum við, að undirbúningur málsins og reyndar þingleg meðferð mundi nú naumast vera með þeim hætti, sem viðhlítandi væri um svo stórt mál, en beygðum okkur þó, vegna þess að við vissum, að málið hafði fengið allrækilega meðferð í mþn. En við áskildum okkur með þeim fyrirvara, sem við gerðum, rétt til þess að bera fram brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Og í nál. tökum við fram, að við lýsum óánægju okkar yfir skipun þeirrar mþn., sem um málið hefur fjallað. En sú n. er þannig skipuð, að Sjálfstfl., sem er stærsti þingflokkurinn og stærsti stjórnmálaflokkurinn meðal þjóðarinnar, hefur ekki átt þar neinn fulltrúa, sem hefur borið sig saman við flokkinn, haft samráð við hann eða skoðað sig sem fulltrúa flokksins í þessari n. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. sagði að vísu, að þetta væri ekki sérstakt um Sjálfstfl., af því að ráðh. sá, sem n. hefði skipað, sem var næstsíðasti félmrh., hefði skipað menn í n. þannig, að hann hefði ekki valið mennina eftir stjórnmálaflokkum, þó að nm. séu í stjórnmálaflokkum, og sé einn nm. í Sjálfstfl. Það er rétt, að einn nm. telur sig meðal sjálfstæðismanna, og ég er hreykinn af því að telja hann í okkar flokki. En þessi nm. hefur lýst yfir því við mig og leyft mér að hafa það eftir sér, að hann hafi ekki skoðað sig sem fulltrúa Sjálfstfl. í n. og hafi þess vegna ekki haft neitt samráð við okkur um undirbúning málsins, heldur skoðað sig sem eingöngu sérfræðing í n. Og ég hygg líka, að hann sé færasti tryggingamálasérfræðingur landsins, þ. e. Brynjólfur Stefánsson.

Varðandi aðra menn í n. má segja, að þeir séu ekki valdir vegna stjórnmálaskoðana. En menn eru í n. eins og t. d. 3. landsk. (HG) og nokkru nær mér hér hv. 5. þm. Reykv. (BrB). Það er vitað, að annar þessara manna hefur verið beinlínis formaður í sínum stjórnmálaflokki, þó að hann deili nú þeirri tign með öðrum ágætum manni, og hinn, hv. 3. landsk., hefur ekki minni áhrif í sínum flokki, m. a. með tilliti til tryggingamála, heldur en þó að hann væri formaður flokksins, þannig að það má telja hann valdamesta manninn í flokknum í þeim málum, sem hann lætur sig miklu skipta. Báðir þessir menn eru forustumenn í sínum flokki. Og þegar þeir starfa í mþn. og komast þar að niðurstöðum, þá er það af öllum almenningi vitað, að þeir eru þar fyrst og fremst sem fulltrúar sinna flokka, a. m. k. mundi verða talið, að flokkarnir væru meira eða minna bundnir af niðurstöðum þeirra. Og hvað sem því líður, þá er ólík aðstaða fyrir flokka þeirra að fylgjast með því, sem fram fer í n. sem þessari, og að hafa áhrif á það heldur en fyrir þann flokk, sem þarna á engan mann, sem telur sig sérstaklega vera fulltrúa flokksins og hefur lýst því beinlínis yfir, að hann hafi talið sér rangt að bera sig saman við flokk sinn, vegna þess að hann taldi sig vera skipaðan í n. vegna sérfræðiþekkingar sinnar, en ekki af öðru. Um Jens Hólmgeirsson, sem er fulltrúi Framsfl. í n. og hefur af þeim flokki verið skipaður í margar trúnaðarstöður, hefur mér verið sagt, að hann hafi verið skipaður í n. á eftir, þegar búið var að skipa í n., vegna þess að Framsfl. hafi ekki talið sig eiga sérstakan fulltrúa í n. eins og hún var fyrst skipuð, og var þó einn maður í n., Eggert P. Briem, sem hefur til skamms tíma verið talinn tilheyra Framsfl. Um Kristinn Björnsson lækni, sem er einn nm., er það að segja, að hann mun — eins og Brynjólfur Stefánsson — hafa talið sig vera skipaðan í n., eins og vitanlega er, vegna sérþekkingar sinnar. Sjálfstfl. hefur því haft versta aðstöðu til þess að fylgjast með störfum í þessari n., um það verður ekki deilt, og getur hann því ekki borið ábyrgð á störfum þessarar mikilvægu n.

Nú efast ég ekki um það, að verk n. sé vel af hendi leyst í höfuðatriðum, og gerir það að verkum, að ég og hv. þm. Seyðf. mælum með því, að málið nái fram að ganga, þó að við séum óánægðir með meðferð málsins í mþn.

En ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem er einnig hæstv. félmrh., og geri ég það í nafni Sjálfstfl., um það, hvort hann muni ekki skipa beinan fulltrúa Sjálfstfl. í þessa n. Það er vitað, að þessi n. á miklum störfum eftir að gegna. Það hafa komið fram till. um gerbreyt. á elli- og örorkutryggingunum og gerbreyt. á atvinnuleysistryggingunum líka. Hvor tveggja eru þetta mjög vandasöm og viðkvæm mál, sem satt að segja er ákaflega ólíklegt, að nái fram að ganga á Alþ. nema með einhverjum pólitískum samtökum. Hvort það þykir heppilegt fyrir fram að útiloka Sjálfstfl. frá því að taka þátt í undirbúningi þessara mála, er ekki mitt að dæma um, heldur hæstv. ríkisstj., sem þessa n. skipar, og þá e. t. v. sameinaðs þings, ef málið væri undir það borið, ef svo ólíklega færi, að hæstv. félmrh. gæfi nú ekki hér eða bráðlega yfirlýsingu, sem við teldum viðhlítandi í þessu efni. En hinu get ég lýst yfir, eftir að ég hef borið mig saman við Brynjólf Stefánsson og heyrt, hvaða álit hann hefur um afstöðu sína í n., að við sjálfstæðismenn munum telja okkur alveg óbundna um allt, sem fram hefur komið í n., nema við fáum fulltrúa í n., sem starfar þar í fullu samráði við flokksstjórn Sjálfstfl., eða þá mann. sem er eins nátengdur flokknum og t. d. hv. 5. þm. Reykv. er sínum flokki. Þetta getur haft mjög mikla þýðingu varðandi allan undirbúning málsins, ef ætlunin er að njóta um þann undirbúning samstarfs Sjálfstfl.

En varðandi frv. vil ég taka fram, að ég tel þær höfuðbreyt., sem í því eru gerðar, nauðsynlegar og til mikilla bóta. Það má efalaust deila um það, hvort atvinnurekendur hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir þeim þungu iðgjöldum, sem leggja verður á þá til þess að halda slysatryggingunum uppi. Hitt er ljóst, að ef koma á slysatryggingunum í sæmilegt samræmi, þá þarf breyt. að gera svipaðar og þær, sem hér liggja fyrir till. um. Og úr því að við erum með alþýðutryggingar á annað borð, tel ég fyrir mitt leyti nauðsynlegt, að þær séu í því horfi og með þeim hætti, að þær geti komið að gagni, en séu ekki þannig, að þær séu aðeins annað nafn á sveitarstyrk og veittar eftir sömu reglum og sveitarstyrkur er veittur, eins og t. d. ellilífeyrir er nú, eða þá svo gersamlega ófullnægjandi, eins og slysatryggingarnar eru núna. Þess vegna hef ég og hv. meðnm. minn í n., hv. þm. Seyðf., fallizt á þessar breyt., þó að okkur mislíki mjög þau vinnubrögð, sem hér hafa átt sér stað, og teljum, að þau vinnubrögð séu því óheppilegri vegna þess, hve seint frv. kom fram á þinginu og eftir að hér var fram kominn svo mikill fjöldi mála, að erfitt hefur verið að kynna sér til hlítar jafnstórt og yfirgripsmikið mál sem þetta. En við viljum ekki láta málið gjalda miður heppilegra vinnubragða, heldur mælum með því, að frv. nái fram að ganga.

Ég skal ekki blanda mér í umr. um einstakar breyt., sem gerðar eru hér till. um. Ég vil aðeins geta um það, að ég mun við 3. umr. bera fram brtt., annaðhvort einn eða með öðrum. Mér skilst, að allar líkur séu á því, að meiri hl. heilbr.- og félmn. muni geta fallizt á, að skipun tryggingaráðs verði breytt, þannig að það verði kosið allt í sameinuðu þingi með hlutfallskosningu. Það er eðlilegra en að láta þetta vera komið undir fjórum stærstu þingflokkunum, því að sumir af þeim geta orðið svo litlir, að eðlilegt sé að taka tillit til þess. Og svo geta orðið fimm flokkar í þinginu, þannig að sá flokkur, sem nú telur sig einn af fjórum þingfl., getur orðið sá fimmti litli, — svo mjög getur þetta breytzt. Það er rétt að hafa þetta venjulega hlutfallskosningu, til þess að ekki þurfi að fara um þetta eins og rannsóknaráð ríkisins, að það þurfi skyndilega að breyta l. til þess að þeir, sem ætla að ná sér niðri á öðrum, verði ekki fyrir sínu eigin höggi. Það er betra að tryggja fyrir fram sanngirni í þessu efni en að koma á eftir og biðja um leiðréttingu.