08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 7. þm. Reykv. (SK) fyrir till., sem hann hefur borið fram á þskj. 599 í þá átt, að heimilað sé að lækka greiðslur ríkissjóðs um 30% að undanskildum þeim, sem lögboðnar eru annars staðar en á fjárl., ef sýnilegt sé, að ríkisstj. skorti fé til útgjalda. Ég er þakklátur fyrir þessa till., þótt hún væri felld á síðasta þingi, og vænti þess, að þm. sé nú að verða nauðsyn þessa nógu ljós og ljái till. atkv. Samt sem áður vil ég taka fram, að ég tel hverri ríkisstjórn bera skylda og réttur til að skera niður greiðslur, sem ekki eru lögboðnar utan fjárl., ef tekjur hrökkva ekki til greiðslna.

Sami hv. þm. hefur á fundi utan þings gert samanburð á kostnaði við verðlagseftirlit og kostnaði við stjórnarráðið og talið til hins fyrrnefnda kostnaðar yfir 1,3 millj. kr. samanborið við 1,1 millj. til stjórnarráðsins. En þessi 1,3 millj. kostnaður er sameiginlega við verðlagseftirlitið, viðskiptaráð, skömmtunarskrifstofu, innkaupaskrifstofu hér í Rvík og innkaupastofnun í New York. Talsverður hluti af kostnaðinum er fyrir innkaup og aðra fyrirgreiðslu fyrir vörum frá Ameríku og greiðist af innflytjendum. Það, sem þá er eftir, skiptist nokkurn veginn í jafna hluta milli viðskiptaráðs, verðlagseftirlits og skömmtunarskrifstofu. Þetta vildi ég, að kæmi fram, því að orð þm. um þetta hafa leitt til villandi og rangra ummæla hjá öðrum.

Ég hef borið fram á þskj. 517, 44 brtt. við 22. gr. fjárl., um að láta ráðherra þeim, er fer með utanríkismál, í té leigulausa íbúð eða ella 3 þús. kr. húsaleigu á árinu, svo sem í fjárl. hefur verið undanfarin ár. Liðurinn hefur fallið niður af vangá, og tel ég rétt og sjálfsagt að leiðrétta það, meðan ríkið launar svo ráðherrum sínum, að þeim er ekki fært að gegna embættinu nema komast í skuldir eða lifa af fyrri eignum, ef þeir eiga. Ætla ég, að þm. samþ. till.

Ég gat þess við 2. umr., að ég teldi áætlun fjvn. á verðtollinum of háa, hún áætlar 30 milljónir kr. Ég hélt því fram, að ekki væri hægt að leggja verðtoll 1942 til grundvallar né verðtolli þessa árs, sem n. áætlaði, að verða mundi 40 millj. Ég hygg, að nú sé það að koma í ljós, því að verðtollur þ. á. jan.-nóv. er 29078 þús. kr., og þó að desember ætti eftir að verða jafnhár hæsta mánuði ársins, verður tollurinn ekki meira en 32–33 millj. kr. Innflutningurinn hagar sér nú allt öðruvísi en áður. Ástæðan til þess, hve desember varð hár í fyrra, var, að þá lágu hér á hafnarbakkanum kynstrin öll af vörum, sem komu þá fyrst til tolls. Mikið af þeim kom frá Englandi og hár tollur af þeim. Þetta er gerbreytt. Verðtollsvörur fara minnkandi og munu fara hraðminnkandi næsta ár. Þess vegna verð ég að láta í ljós mjög ákveðið, að ég tel, að þessi næststærsti liður fjárl. hvíli nú á mjög veikum grundvelli. Ég skal engu ákveðnu spá um það, hver tollurinn reynist, en ég er hér um bil viss um, að hann verður langt undir 30 millj. kr. Ég tel, að fyrst og fremst af þessari ástæðu sé veikur grundvöllur undir fjárl., með þeirri afgreiðslu, sem nú eru horfur á. Tekjur umfram gjöld eru áætlaðar 2212 þús. kr. Nú hefur bætzt víð tekjumegin 8,2 millj., áætlaðar auknar tekjur af tóbaki og áfengi. Það verða 10,4 millj. í áætlaðan tekjuafgang. En samkv. till. fjvn. á þskj. 474 hefur mér talizt til, auk brtt. við 18. gr., sem ég sleppi úr, að n. leggi til að auka útgjöld um 390 þús., enn fremur eru á 22. gr. um 3 millj. kr. viðbætur frá n. og á þskj. 604 brtt. um 10 millj. kr. verðuppbætur. Ef þessar brtt. verða samþ., og ástæða er til að búast við því, hækka till. fjvn. gjöldin um 13390 þús. eða 1,4 millj. kr. móti þeim 10,4 millj., sem áðan var getið. Það þýðir allt að 3 millj. kr. greiðsluhalla á fjárl. Þær 3 millj., sem á 22. gr. á að heimila, eru til framkvæmda, sem ætlazt er til, að ekki séu stöðvaðar, svo að þær verður að telja til gjalda eigi síður en annað. Þá eru brtt., sem nema 15 millj. hækkunum frá einstökum þm., og ef að vanda lætur, verður nokkuð af þeim samþ., þó að sérhver samþ. brtt. verði til að auka greiðsluhalla frv. Jafnvel án brtt. við 22. gr. skilur fjvn. við frv. með greiðsluhalla. Þá er ótalið framlag til hafnarbótasjóðs, en það verða 2,3 millj. á árinu. Til hjálpar- og viðreisnarstofnunarinnar verður að leggja nokkrar milljónir. Af því, sem þegar hefur verið samþ. á 22. gr. og kemur þegar til framkvæmda, mætti benda á nokkrar allstórar upphæðir. Afgreiðsla fjárl. sýnist því komin í fullkomið öngþveiti, nema þm. stingi við fótum og forði því, að fjárl. verði afgreidd með stórfelldum tekjuhalla.

Margt hefur verið um það rætt hér á þingi og annars staðar, hvernig farið hefur um dýrtíðarráðstafanir og uppbótargreiðsur, og lengra umtal væri að bera í bakkafullan lækinn. En brtt. fjvn. um 10 millj. til verðlagsuppbóta gefur mér tilefni til að minnast á þetta. Eins og þm. er kunnugt, hefur ríkisstj. leitazt við að halda dýrtíðinni í skefjum, að vísu með fjárframlögum. Hún þóttist hafa fundið leið til fjáröflunar í því skyni með verðhækkun á tóbaki og áfengi. Áætlanir hennar um það virðast munu standast. En þá kom fjvn. og óskaði að ráðstafa þessum tekjum á annan veg. Mér skilst nú líklegt, að þessi till. verði samþ. En þá er þinginu nokkur vandi á höndum að sjá fyrir fé til þess að standast þær greiðslur og til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Það væri napurt, ef tekjustofnum ríkisins yrði öllum ráðstafað án þess, að stjórnin fengi fé til brýnna dýrtíðarráðstafana. Ég get ekki búizt við, að stjórnin verði ginnkeypt fyrir að framkvæma fjárlögin, ef henni er ekki séð fyrir neinum möguleikum til þess að verjast verðbólgunni.

Ýmsir þm. hafa gert sér tíðrætt um það, að stjórnin hafi ekki leyst dýrtíðarmálin. Mér finnst sú ásökun koma úr hörðustu átt frá málsvörum og blöðum þeirra flokka, sem engu samkomulagi geta náð um lausn þeirra mála. Hvernig á ríkisstj. að geta þetta án fulltingis þingsins? Þingið hefur valdið, hún getur ekkert framkvæmt í trássi við það. Sumum þm. og síðast hv. þm. Barð. (GJ) virðist ekki óljúft að minnast á meðferð þingsins á dýrtíðarfrv. ríkisstj. s.l. vor, hvernig því hafi verið sundrað og umbylt, en stjórnin hafi sætt sig við það og stritazt við að sitja. Honum ætti að vera kunnugt um, hvers vegna hún sat, — ekki sat hún vegna sín né vegna þingsins, heldur til þess að þjóðinni yrði ekki bakað meira öngþveiti en orðið var. Ég geri ráð fyrir, að allir viðurkenni, að svo var. Aðra stjórn var ekki unnt að mynda, eins og á stóð.

Sundurlyndið er nóg á sviði stjórnmálanna, þótt það yrði ekki þess valdandi, að fjárl. yrðu þannig afgreidd, að stefnt væri beint í óefni. Það mundi koma harðar niður á þjóðinni en nokkuð annað, ef áfram á að haldast jafnmikið los og verið hefur á afgreiðslu fjárl. Það hlýtur að enda með greiðsluþroti ríkissjóðs og það áður en langt um líður. Þess vegna vil ég beina því til þm., að þessi fjárlög verði ekki afgreidd með tekjuhalla. Hjá því er enn hægt að sneiða og hjá þeim vansa að komast.