06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti: Það er sjálfsagt, að fulltrúar Íslands erlendis, hvort sem þeir eru þar að staðaldri eða sendir í sérstökum erindum, fari með umboð sitt í samræmi við vilja ríkisstj. og Alþ., þegar hann liggur fyrir. En hins vegar er það öllum ljóst, að það getur þráfaldlega komið fyrir, að slíkir fulltrúar þurfi að taka ákvarðanir það fljótt, að engin tök séu á að bera sig saman við ríkisstj. eða Alþ., og þá verða þeir að gera það, sem þeim í þeim tilfellum sýnist vera réttast og bezt.

Um það, hvort ríkisstjórnin vilji flytja þetta mál hér á Alþ. til umr., skal ég athuga, og árangur af þeim athugunum mun koma innan skamms.

Um það, hvort ástæða sé að líta svo á, að með þeirri afstöðu, sem fulltrúi Íslands hefur tekið í þessu máli, sé Ísland að skilja við Norðurlönd, þá finnst mér þar of djúpt tekið í árinni hjá hv. 2. þm. Reykv. Það er ekki hægt að búast við, að fulltrúar Norðurlanda fylgist allir að í máli, sem fulltrúi einhvers þess lands ber fram í einhverju máli einhvers staðar. Það getur verið fullur vilji hjá Norðurlandaþjóðunum til þess að standa saman um að halda við sambandi sín á milli og um að vinna saman, þó að í einstökum atriðum kunni þær að greina á um meðferð mála. Þess vegna finnst mér fyrir mitt leyti rangt að komast að þeirri niðurstöðu, að þessi meðferð á þessu einstaka atriði á þessari ráðstefnu, sem hér er talað um, bendi til þess, að Ísland sé að hverfa frá sambandinu við Norðurlönd á nokkurn hátt. Mér finnst ekki leyfilegt að draga þá ályktun af þessari afstöðu fulltrúa Íslands á þessari ráðstefnu.