11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti: Ég hef fengið þær upplýsingar frá riturum hæstaréttar, að hæstv. dómsmrh. hafi setið sem dómari í hæstarétti í þrem málum og dæmt sem dómari, eftir að hann tók við störfum sínum sem dómsmálaráðherra.

Ég er ekki að segja þetta eða vekja athygli á því vegna þess, að ég efist um hans góðu dómarahæfileika, en ég álít samt, að Alþingi beri að athuga málið, ef framkvæmdavaldið, sem er í höndum dómsmálarh., tekur sæti í hæstarétti. Eins og menn vita, er í stjskr. ákveðið, að dómsvald og framkvæmdarvald skuli vera aðskilið, og þá má segja, að dómari í hæstarétti megi ekki fara með framkvæmdavaldið. Þetta er miðað við þá, sem skipaðir eru, en ég álít, að það nái einnig til annarra dómara, þannig að sá maður, sem fer með framkvæmdavaldið, hefur ekki leyfi til þess að skipa sjálfan sig sem dómara.

En jafnvel þó hægt sé að sleppa stjskr., þá er þó í l. nr. 112 frá 1935 svo að orði kveðið, að forfallist dómari í hæstarétti, þá skuli dómsmálaráðherra skipa í hans stað, eftir ábendingu dómsins, prófessor við lagadeild háskólans í fyrsta lagi, hæstaréttarmálaflutningsmann í öðru lagi eða héraðsdómara í þriðja lagi.

Þó að þessi dómsmrh. hafi áður verið dómari í hæstarétti, uppfyllir hann ekki þessi skilyrði, og mér finnst það ekki rétt, að dómsmrh. skipi sjálfan sig sem dómara í hæstarétti, og það verða þá að vera aðrir kvalificeraðir dómarar til staðar. Ef þetta væri þannig, væri t. d. engar skorður við því, að meiri hl. hæstaréttar væri skipaður framkvæmdastjórum fyrirtækja. Forsrh. væri líka kvalificeraður til að vera í hæstarétti, en ef 2 menn af 3 væru skipaðir af ríkisstj., hvernig væri þá komið hæstarétti? Fyrir nokkru leyfði Alþ. sér að taka sér í hendur ákæruvaldið með því að fyrirskipa sakamálsrannsókn á ákveðna borgara, og svo kemur ríkisstj. og skipar sig í dómarasæti. Ég efast ekki um, að núverandi dómsmrh. er hæfur til að dæma mál, en principsins vegna nær þetta engri átt. Ef ekki hefðu þurft að vera kvalificationirnar samkv. l. frá 1935, gat hv. þm. S.-Þ. á sínum tíma skipað sjálfan sig, án þess að hafa lagaþekkingu. Mig langar til að vita, hvort hæstv. dómsmrh. getur gefið okkur þá skýring á þessu máli, sem sannfærir okkur um, að þetta hafi verið nauðsynlegt.