08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég skal vera fáorður. Í seinni ræðu hv. frsm. meiri hl. kom ekkert nýtt fram. Það er kunnugt, að bæjarráð hefur gert till. um sætagjaldið, en þó að það sé hækkað, er það svo, að þeir, sem reka bíóin, vilja tryggja sér ákveðinn hagnað.

Hv. þm. talaði um opinbert eftirlit, en margir, sem um þessi mál tala, hafa ekki orðið varir við þetta, svo að það er ekki mikið leggjandi upp úr því.

Þá er vert að athuga það, að bæði bíóhúsin eru gömul og í öðru tilfellinu hafa núverandi eigendur ekki byggt húsið, heldur keypt það fyrir verð, sem full ástæða er til að ætla, að búið sé að vinna upp með hagnaði. Hér er um gömul hús að ræða, og ég óttast ekki, að þau verði svo fjarska dýr af hálfu óhlutdrægrar matsnefndar.

Um það, að verið sé að fremja eitthvert ódæði og jafnvel brot á stjórnarskránni, svo að enginn sé óhultur í landinu, er ákaflega veigalítið að halda fram, a. m. k. á meðan Alþ. er ekki skipað verri mönnum en nú er.

Hv. þm. kom svo að tilhögun þessara mála á Norðurlöndum og fór alveg rétt með, að svo miklu leyti sem við höfum upplýsingar um það. Ég veit, að nokkrir bæir í Noregi og eins Oslo ráku bíóin fyrir stríð, en við höfum ekki löggjöfina um það. Það er rétt, að þeirri stefnu hefur ekki verið fylgt fram í Svíþjóð og Danmörku, enda höfum við Íslendingar í mörgum tilfellum gengið lengra í því að takmarka athafnafrelsi manna en Norðurlönd hafa talið sér nauðsynlegt. Og flokkur hv. frsm. meiri hl. hefur verið með í því, og það hefur verið ein höfuðádeila Sjálfstfl. á Alþfl. og Framsfl., hve þeir hafa viljað ganga langt.

Að síðustu nefndi hv. þm., að það væri hæpið fyrir meiri hl. að þvinga þetta fram, því að framkvæmdarvaldið væri ekki í hans höndum. Ég er á öðru máli. Mér dettur ekki í hug að væna framkvæmdarvald bæjarins um, að það geri ekki skyldu sína.