17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1891)

70. mál, kvikmyndasýningar

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Ég ætla að segja örfá orð af hálfu meiri hl. allshn. Eins og þm. sjá, hefur meiri hl. flutt brtt. við frv. og þær brtt., sem fram hafa komið. Það er þá fyrst brtt. við brtt. hv. þm. Hafnf. á þskj. 391 a, um að leyfi samkv. 1. gr. megi því aðeins veita, að meiri hl. bæjarstj. samþ. Það ber ekkert á milli efnislega, en okkur þykir fara betur á, að brtt. sé orðuð eins og við leggjum til. Við getum fallizt á, að rétt sé, að meiri hl. bæjar- og sveitarstjórna ráði, hvort leyfi skuli veitt eða ekki. Aðrar brtt. hv. þm. getum við ekki fallizt á.

Þá flytur meiri hl. n. brtt. við 2. lið brtt. hv. 2. þm. S.-M. á þskj. 405. Um fyrri brtt. á sama þskj. er það að segja, að hún ætti að vera óþörf, því að ég hygg, að það geti ekki valdið ágreiningi, að bæjar- og sveitarstjórnir hafi fulla heimild til þess, hvenær sem þær vilja, að setja á stofn kvikmyndahús. En ef mönnum þykir betra að taka það fram, má það svo sem, þó að óþarft sé. Þær þurfa bara að uppfylla þau almennu skilyrði, sem þarf til þess að starfrækja slíkt hús. Það er hálf undarlegt að heyra því skotið inn af tveimur þm., að þetta sé ekki svona. Ég skal lesa greinina, með leyfi hæstv. forseta: „Nú vill bæjarstjórn eða sveitar reka kvikmyndahús fyrir hönd bæjar eða sveitar i bænum eða sveitinni, og skal það heimilt, ef fullnægt er skilyrðum laga þessara, eftir því sem við á.“ Almenn skilyrði eru húsakynni, varnir við brunahættu, hollustuhættir o. s. frv. En með brtt. hv. 2. þm. S.-M. er tekinn af allur vafi, ef mönnum finnst hann nokkur vera, og fyrst menn langar til að skilja þetta öðruvísi en það er sett fram, er sjálfsagt að samþ. hana.

Aðra brtt. hv. 2. þm. S.-M. getur meiri hl. ekki fallizt á. Samkv. brtt. hans eiga bæjar- og sveitarstjórnir að geta ákveðið aðgöngueyri upp á sitt eindæmi og sýningargjald, þ. e. það gjald, sem leyfishafi verður að greiða til bæjarstj., án íhlutunar. M. ö. o. yrðu bæjar- og sveitarstj. mjög einráðar um þessi atriði, og framkvæmdin gæti orðið sú, að sá, sem leyfi hefur, gæti ekki haldið starfseminni áfram. En þá er hreinna að hafa enga heimild til starfseminnar. Það yrði hægt að skapa þau kjör, sem ekki væri hægt að rísa undir. Ég vona, að hv. 2. þm. S.-M. sjái við nánari íhugun, að þetta er rétt, en hitt er sjálfsagt, að báðir aðilar geti borið sitt mál fram og að einhver úrskurði, ef um ágreining er að ræða. Ég ætla, að brtt. meiri hl. allshn. tryggi það með umorðun á 2. málsgr. Bæjarstj. getur gert till. um gjaldið, en báðir aðilar geta leitað til ráðh., sem úrskurðar. Þetta er miklu hyggilegri og betri afgreiðsla en ef annar hvor aðili ræður alveg. Samkv. frv. frá 2. umr. var ætlunin, að þeir, sem reksturinn hafa, greiddu slíkt gjald, en skýlaus skylda var það ekki. Nú höfum við orðað 3. og 4. málsgr. svo, að þetta er nú skylda, en ráðh. úrskurðar, ef um ágreining er að ræða.

Enn fremur berum við fram brtt. við 9. gr., um, að þeir, sem áður hafa fengið heimild til starfrækslu kvikmyndahúsa, verði að greiða gjald af sætum eða seldum aðgöngumiðum samkv. ákvæðum 3. gr. Nú leikur nokkur vafi á, hvort bíó þyrftu að greiða nokkurt gjald. Það hefur ekki beinlínis stoð í l. En okkur lízt langeðlilegast, að sú skylda sé lögð þeim á herðar eins og öðrum. Ég vænti, að hv. d. geti fallizt á það.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að brtt. hv. þm. Hafnf. Hann lét í ljós óánægju yfir því, hvernig tekizt hafi til um afgreiðslu málsins og afstöðu framsóknarmanna. Ég skil ekki, hvað hv. þm. þykir undarlegt við það, þó að framsóknarmenn vilji ekki hneppa alla starfsemi í landinu í einokunarfjötra. Við höfum látið í ljós, að við teldum rétt, að bæirnir starfræki kvikmyndahús, enda er þeim það frjálst, hvenær sem þeir vilja, en framsóknarmenn vilja enga algera einokun og að engum öðrum sé heimil starfsemin, og við getum vel verið þekktir fyrir að taka okkur Svía til fyrirmyndar í þessu eins og svo mörgu öðru.

Hv. þm. Hafnf. leggur til, að leyfi til starfrækslu kvikmyndahúss skuli ekki veitt nema til 10 ára í senn og ekki endurnýjað nema til 10 ára. Þetta gæti gilt um þá, sem hér eftir fengju leyfi. Öðru máli er að gegna um þá, sem hafa fengið slíkt leyfi áður og lagt mikið í kostnað. Það kann að vera, að það sé ekki talið gera neitt til, þó að þrengt sé að þeim, sem halda uppi starfsemi í þjóðfélaginu, en ég lít ekki svo á. Tíu ár eru enginn tími, ef lagt hefur verið í mikinn kostnað, og fáir mundu verða til að ganga að þeim kjörum, svo að þetta er kannske ráðið til að setja mönnum alveg stólinn fyrir dyrnar. Þetta er mjög óréttlátt, og er furðulegt, að slík till. skuli koma frá greindum og sanngjörnum þm., sem í öðru orðinu talar um kvikmyndir sem menningartæki, en vill svo búa svo um hnútana, að ekki geti orðið nein mynd á sýningunum.

Ég mun láta þetta nægja. Alþ. ætti ekki að láta það henda sig að gera þessa löggjöf svo úr garði, að hún standist ekki fyrir dómstólum. Ákvæði l. mega ekki koma í bága við leyfi, sem áður hafa verið veitt, og er því mjög varhugavert að samþ. síðustu brtt. hv. þm. Hafnf. um, að þeim, sem áður hafa fengið leyfi óskarað, skuli nú allt í einu skammtað þetta 10 ára tímabil.