08.09.1943
Sameinað þing: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Við umr. þær, er fóru fram í vor um frv. til fjárlaga 1944, gat ég þess, að frv. það, sem þá var lagt fram, var lagt fyrir Alþingi eingöngu til þess að fullnægja bókstaf stjórnarskrárinnar. En hún mælir svo fyrir, að fjárlagafrumvarp skuli lagt fram í byrjun hvers reglulegs þings. Í vetur var ógerlegt að leggja fram nýtt frv., sem nokkra stoð hefði í veruleikanum, og var því nær eingöngu um að ræða endurprentun á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár.

Nú er lagt fram nýtt frv., sem byggist á ýtarlegum athugunum á útgjöldum ríkisins og áætlun um tekjurnar í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur á þessu ári. Fyrra frumvarpið hefur því verið tekið aftur. En við þetta skapast það fátíða fyrirbrigði, að tvisvar þarf að útvarpa fyrstu umræðu um fjárlög sama árs.

Við umræðuna í vor gerði ég grein fyrir afkomu liðins árs, eins og venjulegt er. Ég mun því ekki endurtaka neitt af því að þessu sinni, en ég mun hins vegar gera grein fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir, greina að nokkru frá afkomu ríkissjóðs fyrra helming þessa árs og dýrtíðarráðstöfunum eins og þær verða til 15. september.

Hver sá, sem á að fjalla um og semja fjárlög, hlýtur að reka sig fljótlega á þá staðreynd, að miklir örðugleikar eru á því að áætla tekjur og gjöld ríkisins með nokkru öryggi heilu ári fyrir fram, ekki sízt þegar flest er á hverfanda hveli, eins og nú er. Fjárlög eiga að leggjast fyrir Alþingi 15. febrúar ár hvert, fyrir fjárhagsárið, sem hefst 320 dögum síðar. Eins og nú er högum háttað, má telja þetta ógerlegt, ef fjárlögin eiga ekki að verða því nær hrein endurprentun af fjárlögum undangengins árs. Ég tel þess vegna, að það ætti að athugast gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt og skynsamlegt að breyta fjárhagsári ríkisins þannig, að það sé frá 1. júlí til 30. júní, í stað þess að nú er fylgt almanaksárinu. Auk þess sem Alþingi gæti þá gengið frá samningu fjárlaga aðeins 2–3 mánuðum áður en fjárhagsárið hefst, mundi þetta hafa í för með sér, að hvert reglulegt þing ætti að geta fengið prentaðan og endurskoðaðan ríkisreikning næsta árs á undan, eða 7½ mánuði eftir að árinu lýkur, í stað þess að nú fær þingið reikningana 1–2 árum síðar. — Ég mun ræða þetta mál nánar síðar.

Eins og tekið er fram í grg. frv., hafa verið gerðar á því nokkrar formbreytingar, sem ég tel, að nauðsynlegar séu. Er hér sérstaklega um að ræða færslu ýmissa gjaldaliða frv. milli greina, þar sem telja má, að liðirnir eigi betur heima. Enn fremur hafa liðir innan hverrar greinar verið flokkaðir nokkuð á annan veg en áður, til þess að færa þá til betra efnislegs samræmis. Vænti ég, að háttv. þingmönnum finnist, að með breyt. þessum sé heldur stefnt til bóta.

Þá kem ég að tekjubálki frumvarpsins. Tekju- og eignarskattur, ásamt stríðsgróðaskatti, eru áætlaðir 25 millj. króna. Er það 2 millj. hærra en í fjárlögum þessa árs. Samkv. bráðabirgðaathugun á tekjum ríkisins á þessu ári af tekju-, eignar- og stríðsgróðaskatti er líklegt, að þær verði samtals um 29 millj. kr. Er það 6 millj. umfram áætlun.

Þrátt fyrir þessa hagstæðu útkomu og þrátt fyrir það, að mjög sæmilega lítur út með afkomu í landinu á þessu ári, hef ég talið óverjandi að áætla skattatekjurnar hærra en 25 millj. á næsta ári. Þessar tölur geta aldrei orðið annað en ágizkun, og jafnan má búast við, að komið geti skyndilegar breytingar, sem kollvarpa öllum slíkum áætlunum.

Tekjur af vörumagnstolli eru áætlaðar 5 millj. kr. Er það 1 millj. kr. lægra en í fjárlögum þessa árs.

Verðtollur er áætlaður 23 millj., og er það 1½ millj. hærra en á þessu ári. Þegar saman eru lagðir þessir tollar, má segja, að áætlunin sé því nær hin sama bæði árin.

Tolltekjurnar til júníloka þessa árs, eða fyrir fyrra helming ársins, hafa verið þannig, að það svarar til þess, að tolltekjurnar væru um 42 millj. yfir árið með sama framhaldi, á móti áætlun í fjárlögum 27½ millj.

Þótt útlit sé fyrir, að þessir tollar fari talsvert fram úr áætlun á þessu ári, þá teldi ég það mjög óvarlega farið, ef tolltekjur næsta árs væru áætlaðar í samræmi við það.

Ástæða er til að ætla, að innflutningur þessa árs verði ekki minni að krónutali en í fyrra. En undir innflutningnum er það að sjálfsögðu komið, hversu miklar tolltekjurnar verða. Ef ófriðurinn yrði til lykta leiddur á miðju næsta ári, mundi innflutningurinn að krónutali minnka talsvert mikið. Byggist það fyrst og fremst á því, að farmgjöld og tryggingar mundu lækka mikið, en eins og kunnugt er, er verðtollur tekinn af þessum gjöldum. Ýmsar aðrar ástæður geta og valdið samdrætti í innflutningnum, og því væru það lítil búhyggindi að styðjast á fremsta hlunn í þessu efni, með því að áætla tekjurnar hærri og binda sér síðan bagga með auknum útgjöldum í samræmi við það.

Um aðra tekjuliði er það að segja, að þeir eru mjög svipaðir því, sem er í núverandi fjárlögum, enda hefur reynslan sýnt, að greiddar tekjur fara mjög nærri áætluninni.

Tekjur af ríkisstofnunum eru á næsta ári áætlaðar 7.194.622 kr., og er það um 700 þús. kr. lægra en á þessu ári. Stafar það af því, að rekstrarhagnaður landssímans er áætlaður minni en áður. Munar það um 850 þús. kr. Og þegar þess er gætt, að eignabreytingar landssímans á næsta ári nema 1430 þús. kr., þá verður ríkissjóður að leggja þessari stofnun til um eina milljón króna til ráðstafana, sem telja mætti, að landssíminn ætti með venjulegum hætti að geta staðið straum af. Ríkissjóður getur að mínu áliti ekki haldið áfram slíku framlagi til þessarar stofnunar, sem að réttu lagi ætti að geta gefið ríkinu álitlegar tekjur, auk þess sem hún greiddi fyrir eigin framkvæmdir, svo fremi að þær séu ekki mjög óvenjulegar.

Ég kem þá að gjaldabálki frumvarpsins. Gjöldin eru áætluð samtals 67174 þús. kr., og eru þá meðtalin útgjöld á sjóðsyfirliti. Þetta er því hæsta fjárlagafrumvarp, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Heildarútgjöldin í síðustu fjárlögum nema 65 millj. 406 þús. kr.

Þetta eru háar tölur, og mönnum kemur að sjálfsögðu fyrst til hugar, hvort öll þessi útgjöld séu nauðsynleg. Ekki er þess að dyljast, að sumt mætti nema burtu, en meginhluti útgjaldanna er til stofnana, fyrirtækja og framkvæmda, sem ríkið verður að standa straum af, þau eru annaðhvort sem þættir, er ekki verður án verið í framkvæmdastjórn þjóðfélagsins, eða sem liðir bundnir við fjárlögin með sérstakri löggjöf. Þessi útgjöld eru tekin samkv. áætlunum viðkomandi stofnana og fyrirtækja. Slíkar áætlanir er venjulega erfitt fyrir fjármálaráðuneytið að gagnrýna, ef þær fara ekki með óvenjulegum hætti fram úr fyrri áætlunum, sem haldizt hafa með nokkrum breytingum frá ári til árs. Mér er ljóst, að margt mætti betur fara í rekstri ríkisins yfirleitt, en því verður ekki kippt í lag, svo að gagni komi, nema með gagngerðri athugun á hverri stofnun og hverju fyrirtæki ríkisins. Slíka athugun þyrfti að gera á öllum rekstri; hvort sem um er að ræða vinnuaðferðir og starfslið í ráðuneytunum eða skipaútgerð, járnsmíði og verzlunarrekstur ríkisins. Um þetta hefur, að ég hygg, verið rætt hér á Alþingi ekki alls fyrir löngu, en slík athugun hefur ekki komizt í framkvæmd. Ríkisstjórnin hefur þetta mál til athugunar.

En til þess að gefa hv. þingmönnum svo skýra hugmynd um rekstur ríkisins sem hægt er, eins og sakir standa, verður útbýtt næstu daga fjölrituðum fylgiskjölum með fjárlagafrumvarpinu, og sýna þau starfsmannaskrár og sundurliðaðan kostnað hinna ýmsu stofnana, fyrirtækja og framkvæmda.

Eins og ég sagði áðan, eru flestir liðir fjárlaganna lítt hreyfanlegir, og miklum sparnaði verður ekki við komið nema með gagngerðum athugunum og harðhentum ráðstöfunum. Á vorn mælikvarða er ríkisbúskapurinn orðinn mikið bákn, og þess verður vel að gæta, að þjóðinni sé ekki reistur hurðarásinn um öxl. Þegar auðvelt er að afla fjár, eins og nú er, er hætta á því, að ekki sé gætt sparsemi svo sem skyldi og þess vegna vaxi kostnaður við ýmsar greinir ríkisstarfrækslunnar. Síðar, þegar tekjurnar þverra, getur reynzt erfitt að færa gjöldin til baka.

Samanburður á ýmsum greinum gjaldanna nú við síðustu fjárlög er ekki auðveldur, vegna þess að í frumv. eru aukauppbætur og verðlagsuppbætur færðar við hvern þann lið, sem slíkar uppbætur tekur, en í fjárlögum þessa árs eru þessar uppbætur færðar í einu lagi á 19. gr. Breytingar eru þó ekki miklar, en ég skal gera nokkra grein fyrir þeim helztu.

Í 12. gr. hefur liðurinn til viðbótar húsnæði við ríkisspítalana verið hækkaður talsvert, eða upp í 800 þús. kr. Þörfin fyrir viðbótarhúsnæði fyrir þessa spítala er orðin mjög brýn, og verður að leitast við að bæta úr henni á þann hátt, sem heppilegast þykir. Enn þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um, hvernig fé þessu verði bezt varið til að bæta úr þörfinni, en gerð verður grein fyrir því síðar.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að vekja athygli á því, að rekstrarhalli ríkisspítalanna fjögurra, landsspítalans, Klepps, Vífilsstaða og Kristness, er áætlaður að nema nálega tveimur milljónum króna á næsta ári. Þetta er mikill halli, og virðist mér sjálfsagt, að tekið sé til athugunar, hvort gerlegt þykir að gera á því nokkrar breytingar.

Að því er 13. gr. snertir mun því verða haldið fram af sumum, að lækkað sé framlag til verklegra framkvæmda, sökum þess að frumvarpið gerir ráð fyrir 1800 þús. kr. til nýrra þjóðvega í stað 3600 þús. kr. í núverandi fjárlögum. Og auk þess mun verða bent á, að til brúargerða er ætlað 250 þús. kr. í stað 1146 þús. kr.

Því var haldið fram á þinginu í vetur af sumum þingmönnum, að nauðsynlegt væri, að ríkið héldi uppi miklum verklegum framkvæmdum með byggingu brúa og nýrra akvega. Ég vakti hins vegar athygli á, að líklegt væri, að mikil atvinna yrði í landinu og vafasamt, hvort hægt yrði að fullnægja eftirspurn um vinnuafl. Miklar verklegar framkvæmdir af hálfu ríkisins væru því ekki nauðsynlegar til að halda uppi atvinnu, en gætu á hinn bóginn orðið til þess að keppa við atvinnuvegina um vinnuaflið.

Þetta hefur reynzt svo. Nokkrar helztu fjárveitingar til nýrra akvega verða ekki notaðar á þessu ári, vegna erfiðleika á að fá nauðsynlegan vinnukraft. Efnisskortur hefur og háð brúarsmíði. En samkv. því loforði, sem ég gaf á Alþingi í vetur við umræðu fjárlaganna, hefur verið lagt fyrir vegamálastjóra að leggja til hliðar það fé, sem veitt hefur verið til nýrra akvega og brúa, en ekki hefur verið notað á þessu ári, til þess að hægt sé til þess að taka síðar til þeirra framkvæmda, sem fjárlögin gera ráð fyrir.

Með þetta fyrir augum hefur verið lækkað framlagið til nýrra akvega. En hins vegar hefur þótt nauðsyn bera til að hækka viðhald og endurbætur vega um 1200 þús. kr. Þegar um verklegar framkvæmdir er talað, þá er að vísu ekki mikill munur á því, hvort um nýbyggingu eða viðhald er að ræða.

Þegar rætt er um lagningu nýrra akvega, verða menn að minnast þess; að hver nýr vegarspotti heimtar viðhald og endurbætur, þegar hann hefur verið lagður. Þótt landsmenn hafi enn mikla þörf fyrir nýja akvegi á ýmsum slóðum, verður sú forsjá að fylgja þeim framkvæmdum, að ríkissjóður fái staðið undir viðhaldinu, því að annars er vegagerðin unnin fyrir gíg.

Nú er akvegakerfi landsins um 5000 kílómetrar, enda hefur það vaxið óðfluga síðustu árin. Viðhaldið hefur og farið vaxandi ár frá ári, og á þessu ári er talið, að það muni nema um 9 milljónum króna. Af því mun ríkissjóður fá endurgreitt um helminginn. Er af þessu ljóst, að nokkur ástæða er til að stinga við fótum og gera sér grein fyrir, hvert stefnir í þessum málum og hvort vér fáum risið undir viðhaldi vegakerfisins, ef framhaldið á vegalagningunni verður með þeim hætti, sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Hins vegar mætti hugsa sér, að með þessi mál yrði farið með nokkuð öðrum hætti eftir stríð og þau tekin upp á nýjum grundvelli með enn meiri stórhug. — Um það eru engar deilur, að vegi ber að leggja um landið, svo að akfært verði um allar sveitir og samgöngur greiðar milli allra landshluta. Búast má við, að sú krafa verði enn háværari í framtíðinni en hún hefur verið til þessa. Og það verður heimtað, að vegirnir séu góðir og vegagerðin varanleg. Það verður því að líkindum eitt af stórmálum næstu ára að koma vegakerfi landsins í það horf, sem nú tíðkast í öðrum menningarlöndum. En þangað til slíkt verður tekið til umræðu, verðum vér að líta á málið eins og það horfir við nú.

Í frv. er tekin aðeins lítil fjárhæð til hafnargerða og ekkert til bryggjugerða og lendingarbóta. Engar tillögur hafa ráðuneytinu borizt í þessu efni, og því hafa fjárveitingar í því skyni ekki verið teknar í frv.

Í 16. gr. hefur verið tekinn upp nýr liður, 2 millj. króna framlag til áburðarverksmiðju. Ríkisstjórnin telur byggingu áburðarverksmiðju svo mikið nauðsynjamál, að hún taldi rétt að flýta fyrir málinu á þennan hátt. Er gert ráð fyrir, að þetta fé verði lagt til hliðar og geymt á sérstakan hátt, þar til heppilegt þykir að hefjast handa um bygginguna. Um ráðstöfun á þessu fé og því, sem síðar kann að verða lagt fram, verður að sjálfsögðu ákveðið með sérstökum lögum.

Í 17. gr. hefur verið tekinn upp sérstakur liður, sem er 100 þús. kr. fjárveiting til kvenfélagasambands Íslands. Jafnframt eru niður felldar nokkrar smáfjárhæðir til ýmissa kvenfélaga á landinu. Ríkisstj. hefur verið skýrt svo frá, að flest eða öll kvenfélög landsins hafi myndað með sér samband það, er ég nefndi, í því skyni sérstaklega að beita sér fyrir húsmæðrafræðslu, heimilisiðnaði og garðyrkju. Starfsemi kvenfélaga víðsvegar um land hefur verið mjög í brotum vegna fjárskorts og samtakaleysis. Nú virðist vera bætt úr því síðarnefnda með kvenfélagasambandi Íslands, en hætt er við, að starfsemin verði framvegis í molum, nema ríkið rétti því hjálparhönd fjárhagslega. Talið er, að þessi fjárveiting sé nægileg til þess, að kvenfélögin geti hafið starfsemi með skipulegum hætti um land allt, og tel ég þessu fé vel varið, ef það getur orðið til þess, að íslenzkar konur fái vakið öfluga hreyfingu og víðtæka starfsemi til eflingar húsmæðrafræðslu, heimilisiðnaði og garðyrkju í landinu.

Ég hef þá nefnt þær breytingar, sem nokkru máli skipta í gjaldabálki frumvarpsins. En ég vil gjarnan minnast á 22. gr. frv., sem felur í sér heimild handa ríkisstj. til ýmissa ráðstafana. Í þessa grein hafa oft verið settar heimildir um stórar fjárgreiðslur, sem líklegt var eða vitanlegt, að notaðar mundu verða á fjárhagsárinu. Þegar svo stendur á, er réttara, að slíkar fjárhæðir komi í gjaldabálk fjárl., því að annars sýna fjárlögin í rauninni villandi niðurstöðu. Ég hef því látið stytta þessa grein eftir því, sem tök voru á. Enn fremur hafa verið numdar úr henni heimildir til ýmissa stofnana um eftirlaun. Þessar sömu heimildir hafa staðið ár eftir ár í fjárlögum, en það virðist eðlilegast, að slíkar heimildir séu gefnar í eitt skipti fyrir öll með sérstökum lögum. Hefur þessi kostur verið valinn, og sérstakt frumvarp hefur verið lagt fram um þetta efni.

Ég skal þá gera stutta grein fyrir afkomu fyrri hluta þessa árs samkv. því bráðabirgðayfirliti, sem fyrir liggur.

Samkv. bráðabirgðaathugun er líklegt, að skattar verði á þessu ári sem hér segir:

1.

Tekju- og eignarskattur

22

millj.

kr.

2.

Stríðsgróðaskattur (hluti ríkissj.)

7

3.

Verðlækkunarskattur

6,7

Áætlun tekju-, eignar- og stríðsgróðaskatts á fjárlögum þessa árs er, eins og áður er sagt, 23 millj. kr. Má því gera ráð fyrir, að skattarnir fari um 6 millj. kr. fram úr áætlun. Verðlækkunarskattinum var ráðstafað með sérstökum lögum, eins og kunnugt er, en búast má við, að á skorti allt að 1½ millj., að hann hrökkvi fyrir þeim greiðslum, sem dýrtíðarlögin gera ráð fyrir. En í þeim er ákveðið að verja skattinum til verðlækkunar á afurðum og til alþýðutrygginga (3 millj.).

Tollar hafa til þessa farið allmikið fram úr áætlun. Til 1. júlí hafa aðflutningstolltekjur verið þannig:

1.

Vörumagnstollur

5154000.00

2.

Verðtollur

16257612.00

Samtals kr.

21411612.00

Áætlunin fyrir allt árið er 27½ millj. kr. Vörumagnstollurinn fyrstu sex mánuði ársins er því nær nákvæmlega eins og hann var fyrstu sex mánuðina í fyrra. Hins vegar er verðtollurinn um 3 millj. kr. hærri en hann var á sama tíma í fyrra. Um það er erfitt að segja, hvort tolltekjurnar verði eins miklar það, sem eftir er ársins. Ýmislegt getur valdið því, að úr þeim dragi. En eftir því, sem séð verður nú, er ekki ástæða til að ætla annað en að tolltekjur fari allverulega fram úr áætlun á þessu ári.

Gjöldin greinast þannig í heild til 1. júlí:

1.

Samkvæmt fjárlögum

25944583.00

2.

Samkvæmt sérstökum lögum

975138.00

3.

Samkvæmt heimildum í 22. gr.

414337.00

4.

Samkvæmt þingsályktunum

366498.00

5.

Væntanleg fjáraukalög

356204.00

Samtals

28056760.00

Á sama tíma eru tekjurnar samtals 27707541.00 Það er ákveðin stefna stjórnarinnar að halda öllum greiðslum ríkisins innan þeirra marka, sem fjárlög eða önnur lög setja, eftir því sem framast er kostur. En þess er ekki að dyljast, að á tímum sem þeim, er nú standa yfir, geta greiðslur orðið nauðsynlegar til hluta, sem fjárlög gera ekki ráð fyrir.

Þótt það bráðabirgðauppgjör, sem fyrir liggur, sýni að ýmsu leyti hagstæða útkomu, er enn of snemmt að fullyrða nokkuð um heildarafkomu ársins. Stór hluti af tekjum ríkissjóðs innheimtist ekki fyrr en síðari hluta ársins, og enn hvíla á ríkinu miklar fjárhagslegar skuldbindingar, sem eftir er að greiða af hendi.

Í sambandi við þetta þykir mér rétt að skýra frá, að samkvæmt þingsályktun 30. marz var hagstofunni falið að reikna út þjóðartekjurnar árin 1936 til 1941. Skýrsla um þetta hefur mér nú borizt í hendur, og sýnir hún, að heildartekjur þjóðarinnar hafa verið sem hér segir:

1936

108050

þús.

1937

117706

1938

119566

1939

128519

1940

210468

1941

345076

Skýrsla þessi sundurliðuð mun verða lögð fram í þinginu bráðlega.

Eftir er þá að minnast á einn útgjaldalið ríkissjóðs, sem ekki er í fjárlögum, og það eru ráðstafanir vegna dýrtíðar.

Ríkisstjórnin ákvað í desember síðastliðnum að lækka verð á kjöti á innlendum markaði samkv. heimild í lögum nr. 98 9. júlí 1941 um 1 kr. hvert kíló. Útgjöld ríkissjóðs vegna þessarar ráðstöfunar hafa verið sem hér segir:

Janúar

283

þús.

kr.

Febrúar

290

Marz

273

Apríl

315

Samtals

1161

þús.

kr.

Á sama tíma var lækkað verð á smjöri með framlagi úr ríkissjóði, og eru útgjöldin fyrir það talin þannig janúar-apríl (4 mán.):

Rjómabússmjör

51713 kíló á 7/65

kr.

395604.00

Heimaunnið smjör

33981 - - 5/30

180099.00

Samtals

kr.

575703.00

Frá þessu dregst hagnaður af erlendu smjöri, sem þegar hefur verið flutt til landsins,

áætlað — 293000.00

eftir kr. 282703.00

Alls hefur verið flutt inn 95 tonn af erlendu smjöri. Helmingur þess, eða það, sem fyrst kom, varð dýrara í innkaupi en gert hafði verið ráð fyrir. Síðasta sendingin, sem kom frá Suður-Ameríku, kostar hér á staðnum með öllum kostnaði, en að frádregnum tolli, um 7.50 hvert kíló. Hagnaðurinn af því, eins og stendur nú, er um 4.20 á kíló, sem varið er til að lækka útsöluverð innlenda smjörsins.

Gert er ráð fyrir að flytja inn meira smjör, og tel ég, að ríkissjóður þurfi ekki mikil útgjöld að hafa vegna verðlækkunar á smjöri, sérstaklega þegar þess er gætt, að framleiðslan innanlands er nú talin mjög lítil. Samkvæmt dýrtíðarlögunum frá síðasta þingi (13. apríl) var heimilað að lækka verð á kjöti og mjólk á innlendum markaði gegn framlagi úr ríkissjóði. Þessi heimild var notuð á þann hátt, að greitt var af kindakjöti 1.60 á kíló, og er kjötmagnið samtals 1643 tonn frá 1. maí til 15. sept. og fjárhæðin 2628 þús. Við þetta bætist ærkjöt og nautakjöt,

áætlað ........ 193

Samtals kr. 2821 þús.

Af mjólk voru fyrst greiddir 35 aurar af hverjum lítra, er lækkaði svo í júlí niður í 25 aura vegna þess að framleiðendur áttu að taka á sínar herðar það, sem svaraði vísitölulækkuninni, en það reyndist 10 aurar á lítra. Á tímabilinu 1. maí til 15. sept. er talið, að útgjöld ríkissjóðs vegna lækkunar á mjólkurverðinu nemi um 2200 þús. kr.

Eru þá útgjöld ríkissjóðs samtals vegna framangreindra ráðstafana um 5 milljónir króna til 15. sept. Undir þessum ráðstöfunum á verðlækkunarskatturinn að standa, eins og áður er getið.

Sú vísitölulækkun, sem orðið hefur vegna framangreindrar verðlækkunar, hefur að líkindum sparað ríkissjóði útgjöld, er nema um 1½ milljón króna til 15. sept.

Bein útgjöld ríkissjóðs vegna dýrtíðarlaganna frá 13. apríl verða því:

Verðlækkun á innlendum afurðum 5 millj. kr.

Til alþýðutrygginga 3 — —

Á móti þessum 8 millj. fær ríkissj. 6,7 — — í verðlækkunarskatt.

Ég hef þá í stórum dráttum gert grein fyrir frv. því, sem fyrir liggur, fyrir afkomu ríkissjóðs fyrri helming þessa ás og fyrir þeim gjöldum, sem dýrtíðarráðstafanirnar hafa haft í för með sér.

Þótt afkoma ríkissjóðs virðist vera mjög sæmileg eins og sakir standa, eru allar áætlanir fram í tímann byggðar á sandi, meðan þjóðin hefur ekkert fast undir fótum í dýrtíðarmálunum. Sú óvissa, sem nú liggur eins og móða yfir öllum atvinnurekstri þjóðarinnar, torveldar allar framkvæmdir, dregur úr viljanum til starfa, örvar eyðslusemi og gerir menn tómláta um framtíðina. Þjóðin þarfnast fjárhagslegs öryggis til að geta starfað, og hún verður að fá það.

Það er og annað og meira í húfi en sparifé landsmanna, sem þeir hafa dregið saman á áratugum og nú er hið lifandi blóð atvinnurekstrarins í landinu. Í húfi er einnig það, sem mikill hluti þjóðarinnar þarf að bíta og brenna, af þeirri einföldu ástæðu, að verðbólga, sem engar skorður eru settar, mundi stöðva alla útflutningsframleiðslu landsins. Til þessa má ekki koma, ef nokkur kostur er að fyrirbyggja það.

Nú er gerlegt að setja skorður við frekari vexti verðbólgunnar og þar með tryggja þann atvinnurekstur í landinu, sem starfað getur með núverandi verðlagi.

Ég efast um, að til sé nokkur maður í þessu landi, sem vildi taka á sig þá ábyrgð, eins og sakir standa, að opna nú flóðgáttir dýrtíðarinnar, meðan nokkur von er um að halda öldunni í skefjum.

Áætlun sú á tekjum og gjöldum ríkissjóðs fyrir árið 1944, sem hér liggur fyrir, er að miklu leyti háð þeim ákvörðunum, sem teknar verða í dýrtíðarmálunum fyrir 15. september.