21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2014)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Háttv. hlustendur. Hv. þm. G.-K. hefur lýst yfir því, að flokkur hans standi einhuga með þáltill. ríkisstj., og hann bætti því við, að Sjálfstfl. fagnaði því, að hún hefði komið fram. Hv. 1. þm. Eyf. hefur og gefið svipaðar yfirlýsingar f. h. Framsfl., svo að ljóst er, að framgangur málsins er tryggður.

Það er því ekki um að sakast við hæstv. ríkisstj., þó að hún hafi borið frv. þetta fram. Það er gert á ábyrgð Sjálfstfl. og Framsfl. Ég get gefið þá yfirlýsingu f. h. Sósfl., að hann er og einhuga í málinu, — einhuga gegn þingfrestun. Við álítum, að þetta þing hverfi frá óloknum málum, ef því verður frestað í dag, málum, sem ljúka mætti á skömmum tíma.

Það eru ömurleg eftirmæli, sem þetta lengsta þing, það lengsta, sem háð hefur verið á Íslandi, hefur fengið í blöðum, á strætum og gatnamótum og hér í þingsölunum. Það þarf ekki annað en minna á orð hv. þm. G.-K., að það sé bezt fyrir þingið og virðingu þess, að það hætti störfum sem fyrst. Það kveður við sama tóninn og annars staðar, að þingið hafi haldið svo á málum, að því sé lítil sæmd að, og að virðing þessarar elztu og virðulegustu stofnunar þjóðarinnar sé fokin út í veður og vind.

Við skulum nú skyggnast eftir orsökum þessara eftirmæla, og eins og endranær, þegar leita á að orsökum í stjórnmálalífinu, er þess fyrst að gæta, að ísl. þjóðfélagið er stéttaþjóðfélag. Það er stéttaþjóðfélag í þeirri merkingu, að hagsmunir launþega og smáframleiðenda annars vegar og hagsmunir örfárra manna, sem eiga hin mikilvirku framleiðslutæki þjóðarinnar og ráða yfir meginhlutanum af fjármagni hennar, hinsvegar, heyja sífellda og þrotlausa baráttu. Það má ekki gleyma því, að Alþ. er einn sá vettvangur, þar sem hagsmunir þessara stétta rekast á, og einmitt þar er háður hinn mikilvægasti þáttur stéttabaráttunnar.

Hvernig hefur baráttan verið háð á þessum vettvangi þess? Það er skammt af að segja, að auðmenn Íslands hafa ráðið lögum og lofum á Alþ. Þrír flokkar gengu fyrir nokkrum árum í þríheilagt bandalag um að framkvæma þá þjóðstjórnarstefnu, sem í reyndinni var stefna hinna fáu Íslendinga, sem ráða yfir meginhluta fjármagnsins og framleiðslutækjanna, sem alþýða þessa lands hefur skapað. Spor þessa þríheilaga bandalags eru gengislækkun, gerðardómsl., höggorms- og bandormsfrumvörp. Allt er þetta löggjafarstarf gegn ísl. alþýðu. Frá Alþ. hefur . hún fengið þrælalög og önnur skemmtileg verk. Ég sé, að hv. þm., Haraldur Guðmundsson, hristir höfuðið. Það er von, að hann hristi höfuðið, þar sem það hefur hent hann og flokk hans að ganga í þjónustu þessara skemmtilegu afla.

Svo kemur hið lengsta þing í sögu Íslands, sem hlotið hefur ömurlegustu eftirmælin. Hvað veldur? Það var lagt fram frv. frá ríkisstj., sem talið var, að ætti að leysa dýrtíðarmálin, og hvað sneri þar að hinni vinnandi alþýðu? Fyrst og fremst launaskerðing. Það var lagt til, að almenningur fengi laun sín bætt aðeins með 80% vísitölu. Enn var höggvið í sama knérunn, enn var stefnt út á sömu braut, gegn alþýðunni. Það hófst andstaða á móti þessu innan sala Alþ., um þetta mál var barizt og deilt. Stjórnin hörfaði frá einni víglínunni til annarrar. Það var fallið frá þessum 80%, en talað um að ákveða, að frá maíbyrjun skyldi vísitalan verða 220 stig, hvað svo sem hún kynni að reynast reikningslega. Þannig átti að lögbinda kaupið og svipta launþega þeim hlunnindum, sem þeir hafa af því, þegar verðlag fer að lækka, að greitt sé eftir vísitölunni eftir á. Enn var barizt á mörgum fundum, og svo fóru leikar, að það tókst að þurrka burt allt það úr þessu frumvarpi, sem stefnt var gegn launþegunum. Tími þrælalaganna var liðinn. En til að ná þessum árangri varð að sleppa ákvæðum um skatta, sem voru í þess upphaflegu mynd, enda voru mörg af þeim ákvæðum svo úr garði gerð, að þau voru aðeins til málamynda, eins og t. d. till. um eignar-aukaskatt.

Þetta langa þing setti engin gerðardómsl., engin höggormsl., engin þrælal. Engin árás var samþykkt gegn íslenzkri alþýðu. Sókn auðvaldsins var stöðvuð. Það voru verkalýðssamtökin undir forustu Alþýðusambandsins og þm. sósíalista, oftast í góðri samvinnu við þm. Alþfl., sem stöðvuðu þessa sókn. Slíkt þing hlýtur að sjálfsögðu ömurleg eftirmæli hjá hinum ráðandi stéttum, þingið, sem í fyrsta sinn stöðvar sóknina á hendur ísl. alþýðu. Þegar því þið, alþýðumenn, takið undir rógmælgina um Alþingi, gangið þið á hönd andstæðingum ykkar, því að nú er þingið ekki lengur tæki í höndum auðvaldsins í eins ríkum mæli og áður var.

Svo kemur nýja þingið, og nú á að fresta því. Og hvers vegna? Ef einhver hefur efazt um ástæðuna, hættir hann því áreiðanlega, er hann hefur hlustað á ræðu hv. þm. G.-K., Ólafs Thors. Hann talaði um sjúklega ástríðu vinstri flokkanna til að leggja á skatta. Hann talaði um það alvarlega spor, sem stigið væri með eignaraukaskattinum, og lýsti yfir því, að það þætti enginn ósómi að svíkja skatt og að nú ætti að seilast í vasa, þar sem einhver eyrir kynni að hafa smogið gegnum nálarauga skattal., með réttu eða röngu. Það er sem sé verið að fresta þinginu til þess að ný skattal. nái ekki fram að ganga.

Andstæðingar íslenzka auðvaldsins voru í varnarstöðu á hinu nýlokna þingi, en í byrjun þessa þings var vígstaðan svo breytt, að þeir höfðu aðstöðu til að hefja sókn.

(BSt: Það var hægt að vera búinn að afgreiða þessi skattamál á síðasta þingi, ef kommúnistarnir hefðu ekki svikið). Það hefur verið flutt frv. um eignaraukaskatt í Ed., og hv. þm. Str. batt það fastmælum við flm. úr öðrum flokki, að það skyldi ná fram að ganga á þessu nýja þingi. Hv. 1. þm. Eyf. og aðrir framsóknarmenn ættu sem minnst að tala um loforð og svik, þeir, sem ganga hér um salina með hlaðin bök af brigðmælgi.

Það voru líka önnur skattamál fyrir þessu þ. Hv. 1. þm. Eyf. fór um þau nokkrum orðum og lýsti bréfaskiptum milli Framsfl. og Sósfl., en gat þess, að síðasta bréf sósíalista ætlaði hann ekki að lesa, það væru bara vífilengjur. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér þetta vífilengjubréf. Það hljóðar svo:

„Vér höfum sent yður frv. um breyt. á skattal., sem fela í sér m. a. þau ákvæði um afnám varasjóðshlunninda, sem er tilgangur og aðalatriði frv. þess, er þér senduð oss í dag. Vér óskum eftir svari yðar, hvort þér vilduð flytja þetta frv. ásamt þm. úr Sósfl. eða heita því stuðningi, sem vænta má, að tryggi framgang þess eða að minnsta kosti aðalatriði þess, áður en þingi verður frestað. Þessu hafið þér enn ekki svarað, en vér væntum þess, að þér getið svarað því nú þegar, að hve miklu leyti megi vænta aðstoðar yðar, því að þar sem tíminn er naumur, hefur flokkurinn ákveðið að leggja frv. fram í dag. Samkv. þeim yfirlýsingum, sem flokkarnir hafa gefið, virðist öruggt, að þingmeirihluti sé bæði fyrir frv. um eignaraukaskatt og aðalatriðum þeirra breyt. á skattal., sem hér um ræðir, og ætti að vera hægt að afgreiða þessi mál á örskömmum tíma, ef þessi meiri hl. er samhentur um að hraða meðferð á þeim“.

Þetta eru vífilengjurnar. Við höfum lagt fram frv., sem ég fullyrði, að framsóknarmenn eru okkur í meginatriðum sammála um. Þeir eru okkur sammála um, að varasjóðshlunnindi hlutafélaganna verði niður felld, að allt skattfrjálst fé, sem útgerðin fær, þ. e. a. s. 33% af hreinum tekjum, renni í nýbyggingarsjóð og tryggt verði, að þessu fé verði ekki varið til neins annars en auka og endurbæta fiskiflotann, meðal annars með því að undanskilja nýbyggingarsjóðina gjaldþrotameðferð. Þetta var eina atriðið sem hv. þm. Eyf. fann að frv., og sagði, að það væri brot á stjórnarskránni, að þessi skattfrjálsi hluti gengi ekki inn í taprekstur útgerðarinnar, heldur yrði eign hlutaðeigandi bæjarfélags.

Í fyrsta lagi er þetta tal um stjórnarskrárbrot staðlausir stafir, og í öðru lagi var þess getið við Framsfl., að vel gæti komið til mála að ræða um niðurfellingu eða breyt. á þessu atriði, ef hann vildi styðja málið. Ég skal ekki fara út í að ræða nánar um þetta frv. Ég læt nægja að endurtaka það, að Sósfl., Alþfl. og meginhluti Framsfl. eru sammála um efni þess.

En af hverju er þá hlaupið frá málinu? Það er verið að berjast um það, hvort tekjur stórgróðamannanna á árinu 1942 skuli njóta skattfrelsis að verulegu leyti eða ekki. Það er að vonum, þó að hv. þm. G.-K., meðeigandi í stærsta atvinnufyrirtæki landsins, haldi því fram, að hér sé farið út á hættulegar brautir. En af hverju heykist Framsfl.? Það er ekki langt síðan hann kaus sér formann með 12 atkv. af 29, og það er sagt, að aðeins 5 hafi kosið hann með glöðu geði. Þessi maður er Jónas Jónsson, og það er hann, sem lengi hefur haft forustuna fyrir hvers konar afturhaldi í íslenzku þjóðlífi. Framsfl., sem innan sinna vébanda á fjölda frjálslyndra manna, lýtur forustu hans. Hann er fimmta herdeild Ólafs Thors og annarra íslenzkra auðmanna innan raða Framsfl. Svo kemur þessi virðulega Framsókn með grátstafinn í kverkunum yfir því, að ekki hafi tekizt að mynda vinstri stjórn, mennirnir, sem enn eru undir forustu afturhaldssamasta mannsins á Íslandi, jafnt á sviði menningarmála sem atvinnumála, mennirnir, sem láta hann hafa sig til að samþykkja frestun Alþingis til þess eins að hlífa stórgróðamönnunum. Og svo tala þeir með fjálgleik um óheiðarleg vinnubrögð annarra flokka.

Ég ætla að lokum aðeins að segja það, að ég vil, að alþýða manna geri sér ljóst, að hér á Alþ. er stéttabaráttan háð og að á langa þinginu kom það í fyrsta sinn fyrir; að framsókn afturhaldsins var stöðvuð. Þingið var athafnalítið, það er satt. En látið ekki blekkjast til að standa með andstæðingum ykkar í að óvirða Alþingi.

Það hefur komið fyrir, því miður, að í sumum löndum hefur þingræðið ekki verið nema nafnið tómt, þar hafa þingin orðið að leiksoppi auðstéttanna, þau hafa hætt að vera vettvangur stéttabaráttunnar.

Slíkt má ekki henda hér í okkar þjóðfélagi, hinum vinnandi stéttum ber að standa gegn því. Samtök þeirra innan Alþýðusambands Íslands verða sterkari og sterkari og áhrif þeirra á Alþ. fara vaxandi. Þessar stéttir eiga að standa einhuga um að vernda þingræðið, því að Alþ. er vettvangur, þar sem þær geta barizt fyrir rétti sínum. Það er yfirstéttunum ljóst, þær sjá jafnvel fram á það með skelfingu, að svo kunni að geta farið, að sjálfu þjóðskipulaginu verði breytt á grundvelli laga og þingræðis, að hið stéttlausa þjóðfélag sósíalismans verði stofnað með samþykkt Alþingis. Af þessum sökum er þingið rægt. Það á að reyna að eyðileggja það sem baráttuvettvang, af því að alþýða þessa lands er í sókn, af því að svo gæti farið, að þingið yrði brátt viðlíka tæki í höndum alþýðunnar og það var áður í höndum yfirstéttanna.

Við hverfum nú af vettvangi baráttunnar innan þingsalanna um sinn, því ræður Sjálfstfl. og Framsfl. Með atkvæðamagni sínu til samans geta þessir flokkar ráðið því, að hætta verður að ræða og útkljá aðkallandi vandamál, sem bíða úrlausnar hér á þ. og hægt hefði verið að afgreiða fyrir nokkrum dögum. En það er aðeins fyrst um sinn, sem þessum flokkum tekst að leika þennan leik. Brátt mun Alþ. aftur koma saman, og þá skal baráttan háð áfram, því að barizt skal áfram fyrir hverju því máli sem miðar að heill og hamingju alþýðunnar, sem í þessu landi býr.