21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2040)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Brynjólfur Bjarnason:

Ég skildi vel, hvað hæstv. forseti átti við, þegar hann sagði, að hann ætlaði að taka þessa brtt. til sérstakrar athugunar, og ég óska sérstakrar skýringar á því. Annars er þessi brtt. skýr. Það, sem um er að ræða, er að Alþ., eftir því sem unnt er, tryggi sér það, að ekki verði gefin út brbl. á þessu tímabili, sem fundum þingsins er frestað, nema hæstv. ríkisstjórn ráðfæri sig áður við þingflokkana alla eða fulltrúa þeirra og að þeir séu því samþykkir. Við teljum, að þegar svo stendur á, að í landinu er ríkisstjórn, sem er ekki venjuleg þingræðisleg stjórn og hefur ekki neinn meiri hluta á Alþ. til að styðja sig við, þá sé þetta alveg nauðsynleg varúð. Það felst ekki í þessu nein aðdróttun sérstaklega til hæstv. ríkisstj. um, að hún muni misnota vald sitt. Slík varúð væri nauðsynleg frá okkar sjónarmiði, hvaða menn sem sætu í stjórn undir slíkum kringumstæðum. Út frá þessu sjónarmiði teljum við nauðsynlegt, að þessi brtt. verði samþ. og að hún verði með í þeirri þáltill., sem afgreidd verður, hvað sem hæstv. Alþ. kann að ákveða að öðru leyti um frestun þingsins.