27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

68. mál, jarðræktarlög

Flm. (Hermann Jónasson):

Ég vil nú fyrst og fremst þakka hv. þm. fyrir sérstaklega góðar undirtektir undir þetta mál. Og ég vil vona, að frv. mætti ganga eins vel á ferð sinni gegnum þingið og horfir hér við 1. umr., og gagnsemi þess mætti verða í samræmi við undirtektirnar. Ég hygg líka, að því meira sem við ræðum þetta mál, því betur munum við komast að raun um, að það er mikið nauðsynjamál og það er stórt mál. Það er að vísu bent á það við þessar umr., að ýmislegt sé upplýst með öðrum hætti en æskilegt væri, og það er ekki hægt að neita því, að svo er. En til þess liggja ástæður, sem ég mun minnast á í sambandi við það stutta svar, sem ég mun gefa við þeim aths., sem fram hafa komið. Það er þá það fyrsta, að hv. 3. landsk. sagði, að það hlyti að vera unnt að upplýsa það, sem rannsaka ætti samkvæmt 65. gr., stærð túna á öllum býlum, hvað víða væru til 500 hesta tún véltæk o. s. frv. En það er nú einmitt það sorglega við íslenzkan landbúnað, að það eru ekki einu sinni til upplýsingar um þessi einföldu atriði, og þær upplýsingar fást ekki nema með rannsókn, og það er ástæðan til þess, að ráð er fyrir henni gert. Það hefur verið rætt um þetta atriði við búnaðarmálastjóra, en hann tjáir, að þessar upplýsingar séu ekki til staðar, og þar af leiðandi er ekki hægt að segja um það með neinni vissu, hversu stórfelldar þessar framkvæmdir yrðu. Ég geri þá ráð fyrir, að það megi gera um þetta einhvers konar áætlanir, en eins og nú standa sakir, þá treysti ég mér ekki til þess að ráðast í það nú að gera þessar áætlanir og tel það eins vel við eiga, að hv. landbn. reyndi að komast að niðurstöðu um þetta. En það, sem ég vildi leggja áherzlu á í þessu sambandi, er það, að íslenzk slægjulönd verði sem allra mest gerð véltæk á næstu tíu árum. Og ég verð að segja það, að ef við höfum ekki efni á því að leggja nokkuð mikið fé fram í því skyni, þá veit ég ekki, á hverju við höfum efni. Hv. 3. landsk. spurðist fyrir um það, hvað mikið fé mundi hafa verið lagt í þessar framkvæmdir á undanförnum árum. Það liggur hér fyrir í grg., að það, sem hefur verið varið til umbóta í jarðrækt á 15 síðustu árum, er talið 36 millj. kr. Þar af hefur ríkissjóður greitt 7,6 millj. kr. En samkvæmt þessum sérstöku framkvæmdum mundi þetta framlag verða um það bil helmingi hærra en samkvæmt hinum almennu ákvæðum jarðræktarl. Þá er gert ráð fyrir því, að helmingur af þessu fé greiðist úr ríkissjóði og helmingur af bændum. Þá minntist hv. 3. landsk. á það, hvort ríkið ætti ekki að sjá um þessar framkvæmdir í heild, en það er atriði, sem gjarnan má ræða. En okkur flm. virðist hníga að því sterk rök, að, það sé eðlilegt, að þessum framkvæmdum sé komið fyrir á þann hátt, að mynduð verði nokkuð stór búnaðarsambönd og þau hafi svo þessar framkvæmdir með höndum. Ég held, að þetta færi betur úr hendi á þann hátt en að ríkið réðist beinlínis sjálft í þessar framkvæmdir.

Það var bent á það af hv. þm. Barð., að aftur að a-lið væri þetta heimild og það er alveg rétt. Frv. er byggt upp á þeirri hugsun, að þessar framkvæmdir hefjist aðallega fyrir áhuga bænda og einstakra búnaðarsambanda. Ef búnaðarsamböndin hafa ekki áhuga, þá er ætlazt til þess, að hreppabúnaðarfélögin gætu hafið þessar framkvæmdir. Og ég get fullyrt það, að þessi áhugi er til staðar. Þetta frv. er flutt hér ekki fyrst og fremst af því, að ég hafi fyrstur manna hugsað þessar framkvæmdir á þennan hátt, heldur er bændum orðið það ljóst, að þeir verða að framkvæma þetta á þennan hátt. Það eru þeirra óskir, sem koma fram í þessu máli. Það er fjöldi bænda víðs vegar um landið, sem beinlínis þráir það að fá ákvæði svipuð þessum inn í jarðræktarl. til þess að geta gert slægjulönd sín véltæk. Þeim er það alveg ljóst, að öðru vísi en með samtökum er ekki hægt að hefja slíkar framkvæmdir. Þeim er það ljóst, að þeir fá ekki staðizt með atvinnuveg sinn nema því aðeins, að þeir hafi véltæk slægjulönd.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist á það, að það væru nú í rannsókn ýmis atriði viðvíkjandi skipulagi á landbúnaðinum, og hann spurðist fyrir um það, hvað þeirri rannsókn mundi líða. Það er alveg rétt, að ýmislegt viðvíkjandi landbúnaðinum er í rannsókn samkv. ályktun, sem um það var gerð á síðasta Alþingi. Ég get upplýst það, að þeirri rannsókn er enn ekki nema stutt á veg komið. Ég á sæti í einni af þeim n., sem Alþ. hefur skipað í þessu skyni, og sú n. byrjaði fyrst starf sitt fyrir alvöru fyrstu dagana í okt. Það er alveg rétt, að mörg atriði viðvíkjandi landbúnaðinum þurfa rannsóknar, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., en það kemur vitanlega ekki til mála að láta þessar framkvæmdir bíða eftir þeirri rannsókn.

Ég tel alls ekki óhugsanlegt að haga framleiðslunni í landinu þannig, að framleitt sé á hinum mismunandi svæðum það, sem hentar bezt á hverjum stað. Við þurfum ekki annað en líta á kjötframleiðsluna t. d. í sumum hlutum Rangárvallasýslu og bera hana saman við kvikfjárrækt austur á Jökuldal. Skilyrðin til framleiðslu á þessum tveim stöðum eru svo gerólík, að það er eins og að bera saman tvö ólík lönd, og sama máli gegnir um mjólkurframleiðsluna víðs vegar á landinu. Það bendir á víðsýni bænda á þessu sviði, að þeim er það ljóst ekki síður en þinginu, að þessi mál þarf að taka til ýtarlegrar rannsóknar. En þó að þetta verði gert og breyt. verði á framleiðsluháttum landbúnaðarins, þá er jafnnauðsynlegt þrátt fyrir það að stíga þetta spor, sem hér er lagt til, sem allra fyrst.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að honum mislíkaði það, að styrknum væri skipt í tvennt, og hann sagði í því sambandi, að krafan yrði að vera sú, að öll vinna við heyöflun færi fram á véltæku landi. Mér skildist á honum, að hann gerði ráð fyrir því, þar sem þarna væri um sérstakan styrk að ræða, ef frv. yrði að l., að svo gæti farið, að þessi heyskapur, 500 hestar, yrði tekinn á landi, sem væri ekki véltækt. Í framkvæmdinni er þetta hugsað þannig, að þeir, sem hafa þýfð tún, stærri en það, að þau gefi af sér 500 hesta, fái allt sitt tún sléttað samkvæmt þessu ákvæði. Við flm. gerðum ráð fyrir því, að þegar sú undirstaða væri komin, að bóndinn hefði 500 hesta véltækt slægjuland, þá væri honum vorkunnarlaust að slétta það, sem hann vildi bæta við sig, og fá til þess almennan styrk samkvæmt jarðræktarl. Ég er persónulega viss um, að eftir að komið er 500 hesta véltækt land handa bóndanum til umráða, þá bíður það ekki lengi, að sá bóndi, sem hefur reynt þessi tvenns konar vinnubrögð, bæti við sig véltæku slægjulandi, ef ræktunarskilyrði eru fyrir hendi. Það kom fram hjá þessum hv. þm., að hann taldi það galla, að styrkurinn er veittur bændum, þannig að þeir ráða því í aðalatriðum, hvort þeir verða hans aðnjótandi, þó með þeim takmörkunum, sem greinir í 1. gr. og hv. þm. Barð. minntist á. Hv. 5. þm. Reykv. taldi það galla, að bændur réðu því, til hvers styrkurinn væri veittur, án þess að með þessum styrk væri unnið að því að koma skipulagi á landbúnaðarframleiðsluna og án þess að unnið væri að því að landbúnaðarvörur væru framleiddar þar, sem helzt hentaði, samanborið við framleiðsluskilyrði. Ég hef nú bent á það, að þó að þetta atriði þurfi rannsóknar við, þá stendur þessi almenna framkvæmd, sem hér er ráðgerð, alls ekki í veginum fyrir því, að það megi gera þessa skipulagsbreyt. eftir á, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að grasnytin er undirstöðunauðsyn fyrir búskap, hvernig sem þessu skipulagi verður að öðru leyti háttað. Að vísu er ekki hægt að neita því, að með því að gera einstökum jörðum til góða, þá kann að einhverju leyti að verða komið í veg fyrir það, að komið verði á samyrkju- eða samvinnubúskap í eins stórum stíl og margir álíta, að sé framtíðin. — Þær aths., sem fram komu hjá hv. þm. Barð., voru svipaðar því, sem fram kom hjá hv. 3. landsk., og það var sérstaklega það, að ekki lægi fyrir, hvað vélarnar mundu kosta, hvað styrkurinn, sem ríkið legði fram til vélakaupa, mundi nema miklu, hvað mikið mundi kosta að framkvæma þá rannsókn, sem gert er ráð fyrir, og hvað jarðræktarstyrkurinn mundi verða mikill, ef framkvæma ætti þetta á tíu árum.

Ég hef áður tekið fram, að erfitt muni vera að gera áætlun um þessi atriði, þó að upplýsingar séu fengnar frá Búnaðarfélagi Íslands, sem veita um þetta nokkra hugmynd, að svo miklu leyti sem hægt er að gera sér grein fyrir því á þessum tímum, þegar verðlag er svo mjög breytilegt.

Þá talaði hv. þm. enn fremur um, hvort þessi rannsókn mundi ekki taka langan tíma og lengri en gert er ráð fyrir í frv. Það er rétt, að þessi rannsókn er mikið verk. En samt sem áður vil ég halda fram, að hv. þm. geti losað sig við þennan kvíða. Ég var líka í byrjun í miklum vafa um, hvort hægt væri að framkvæma þessa rannsókn á jafnstuttum tíma og gert er ráð fyrir í frv. En er ég ræddi um þetta við búnaðarmálastjóra, upplýsti hann það, að þetta mundi að öllum líkindum vera framkvæmanlegt. En því ber ekki að neita, að það kunni að verða erfitt að framkvæma það á svo stuttum tíma. Og það er engum vafa undirorpið, að þessi framkvæmd kostar talsverða fjármuni. En það hefur verið í ráði undanfarin ár að láta mæla öll tún á landinu. Það mun hafa komið til umr. á Alþ., og það mun hafa komið fram krafa um það frá búnaðarmálastjóra. Það er nauðsynlegt fyrir hverja þjóð að vita, hve mikið ræktað land hennar er, en um það eigum við, því miður, ekki fullkomnar skýrslur. Og jafnvel þó að ekki væri ráðizt í þessar framkvæmdir, sem frv. fjallar um, þá þyrftu þessar mælingar að fara fram. Og ef settir eru í það þeir hæfustu menn, sem þjóðin hefur yfir að ráða, ætti að vera hægt að ljúka því á þeim tíma, sem ráðgerður er í frv.

Hv. þm. benti enn fremur á, að skýrari ákvæði þyrfti um það, hverjir færu með þær dýru vélar, sem ráðgert er hér að kaupa til jarðræktarinnar. Ég vil í því sambandi benda honum og öðrum á það, að þótt ekki séu um þetta ýtarleg fyrirmæli í gr., — það þótti varla tækt að setja þau þar svo ýtarleg, — þá er tekið fram í 65. gr., g-lið 1. gr. þessa frv., á þessa leið: „Búnaðarfélag Íslands setur reglugerð um starfsemi þá, er um ræðir í kafla þessum, en landbúnaðarráðherra staðfestir hana“. Það er þannig hægt að ganga frá þessu atriði og öðru í reglugerð, og er ráð fyrir því gert, að svo verði, enda er tekið fram í þessum sama g-lið 1. gr. frv.: „Skal þar meðal annars kveðið á um, hvernig tryggja skuli, að framkvæmdir þessar verði vel og vandlega af hendi leystar“, og heggur þetta orðalag mjög nærri því, að í reglugerðinni, verði gerðar alveg sérstakar kröfur til þeirra manna, sem framkvæma þetta verk. Því að með þessu frv. er ekki sízt miðað við það, að þessar framkvæmdir verði vel af hendi leystar. Það er ekki aðeins miðað við, að þær verði fljótt af hendi leystar, til þess að við getum komizt á það stig í landbúnaði, sem flestar aðrar þjóðir standa á, að vinna að honum með vélum, heldur er hugsað um það, að ræktunin verði vel gerð, sem ekki skiptir minna máli.

Enn fremur minntist hv. þm. Barð. á það, að æskilegt væri að finna tekjuliði fyrir þessum framkvæmdum, og skal ég sízt lasta það, að það verði gert, ef það þykir fært að gera slíkar áætlanir fram í tímann, eins og nú standa sakir, þar sem óvissa er yfirleitt mjög mikil um tekjumöguleika og áætlanir hafa sýnt sig að standa nokkuð stutt um tekjuöflun, svo sem okkur er kunnugt. Skal ég þó ekki hafa á móti því, að tilraun sé gerð til þess að gera þetta.

Viðvíkjandi því, að hv. þm. Barð. vildi áskilja sér rétt til að berjast gegn því, að lagður yrði niður búskapur á jörðum í dreifbýlinu, vil ég benda á t. d. viðkomandi hans héraði, sem hann mun hafa haft í huga, og þá auðvitað viðkomandi öðrum stöðum, að í þessu frv. eru engin ný ákvæði þessu viðvíkjandi fram yfir það, sem er í gildandi l. um þetta atriði, heldur er í 1. gr. þessa frv. vísað til 14. gr. og VI. kafla jarðræktarl., þar sem ákveðið er, að ef býli telst ekki til frambúðar, eftir að trúnaðarmaður hefur athugað það og gefið um það skýrslu til Búnaðarfélags Íslands, þá geti Búnaðarfélag Íslands að fengnum úrskurði landbrh. ákveðið, að það sé ekki styrkhæft. Og ég er hv. þm. Barð. alveg sammála um það, eins og vænta má, að jarðir í strjálbýli eru oft ekki síður hæfar til búrekstrar en þær, sem í meira þéttbýli eru settar. Og stafar það af því, að jarðir, sem hafa litla grasnyt, lítil tún og slægjulönd yfirleitt, geta verið miklu betri til búrekstrar en þær jarðir, sem mikla grasnyt hafa, vegna þess að þær fyrrnefndu hafa þá einhver hlunnindi, sem vega upp á móti vöntuninni á grasnytinni og vöntun á góðu beitilandi. Þekkjum við þess mörg dæmi, og er sjálfsagt að taka tillit til þess, þegar ákveðið er, hvort jarðir séu hæfar til búrekstrar eða ekki.