07.09.1943
Efri deild: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

17. mál, innheimta skatta og útsvara

fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. fjhn., hvernig standi á þeim drætti, sem átt hefur sér stað í n. á afgreiðslu frv. til l. um innheimtu skatta og útsvara. Það hefur nú legið þar í tvo mánuði, og svipað átti sér stað á fyrra þingi. Með þessum hætti er líklegt, að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi, þó að til væri meiri hl. með því. Ég vildi óska að fá að taka það fram, að það er talsvert hagsmunamál fyrir ríkissjóð, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Það er ótækt fyrirkomulag, sem á sér stað, að 1/3 af tekjum ríkissjóðs skuli ekki vera hægt að innheimta fyrr en á tveim síðustu mánuðum ársins. Þess vegna væri mikil nauðsyn, að frv. þetta næði fram að ganga nú á þessu þingi, svo að sú skipun gæti komizt á innheimtuna, sem þar er gert ráð fyrir.