21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

49. mál, einkasala á tóbaki og verkamannabústaðir

Flm. (Sigurður Thoroddsen):

Á þskj. 61 flytjum við hv. 2. landsk. frv. til l. um breyt. á l. frá 1931, um einkasölu ríkisins á tóbaki, og l. nr. 81 frá 1941, um breyt. á l. um verkamannabústaði frá 1935.

1. gr. frv. miðar að því, að fella niður þær breyt., sem gerðar voru 1941, en þær voru, að ríkissjóður legði árlega í sjóð verkamannabústaða 150 þús. kr., en að jafnframt félli niður 14. gr. laga nr. 58 1931, um einkasölu á tóbaki, en sú grein kvað á um, að helmingur tekna af tóbakseinkasölu skyldi renna til byggingarsjóða verkamannabústaðanna að hálfu, en hinn helmingurinn til byggingar- og landnámssjóðs.

2. gr. frv. kveður á um, að tekjum af tóbakseinkasölu ríkisins skuli verja á líkan hátt og upprunalega var gert ráð fyrir, en þó þannig, að helmingur af tekjum ríkissjóðs af tóbakseinkasölunni skuli skiptast jafnt á milli byggingarsjóðs verkamanna og byggingar- og landnámssjóðs, en hinn helmingurinn renni í framkvæmdasjóð ríkisins. Auk þess er greininni breytt í það horf, sem áorðnar breytingar á byggingarsjóðum verkamannabústaða útheimta.

3. gr. frv. mælir svo fyrir, að tekjum ríkissjóðs af tóbakseinkasölunni fyrir árið 1943 skuli varið samkv. ofangreindu.

Eins og segir í grg., þá var það ein af aðalröksemdunum fyrir því, að samin voru l. um stofnun tóbakseinkasölu ríkisins, að þar með væri verkamannabústöðunum og byggingar- og landnámssjóði tryggt nægilegt fé.

Einkasala var hér á tóbaki eftir fyrra stríð í sambandi við landsverzlunina, en var afnumin árið 1925. Síðan var flutt frv. um einkasölu á tóbaki ár eftir ár hér á þingi af Alþflþm., en náði ekki fram að ganga. Á vetrarþingi árið 1931 var það enn flutt, en varð ekki útrætt, en á sumarþingi sama ár er einkasala á tóbaki loks lögleidd fyrir harðfylgi Alþfl. og Framsfl., og þá fyrst er ákveðið, til hvers tekjum af einkasölu ríkisins á tóbaki skuli varið. Talsmaður þessa frv. sagði þá, að hér væri ekki einungis um að ræða að útvega ríkissjóði víssar tekjur, heldur væri hér verið að sjá nauðsynjastofnunum, sem sé verkamannabústöðunum, fyrir tekjum. Og hann kvað upp úr um það, að það væri ábyrgðarhluti fyrir þm. að fella frv., án þess að fé kæmi annars staðar frá í staðinn. Því verður ekki neitað, að hér var vel af stað farið, og ef efndir hefðu verið að sama skapi, þá hefði verið vel. Þingflokkar þeir, er með harðfylgi höfðu komið þessu máli í höfn, fóru þess ekki heldur duldir, að málið var vinsælt, enda notuðu þeir það óspart sér til framdráttar. En eins og oft vill brenna við hjá þessum flokkum, varð minna úr efndum, og þetta viturlega ákvæði varð aldrei annað en fagurmæli eitt, því að eins og menn muna, var þessu ákvæði og mörgum öðrum, er til þjóðþrifa horfðu, frestað, að vísu ekki nema frá ári til árs, vegna hræðslu við kjósendur. Þeir tímar komu þó, að þessir flokkar þóttust ekki þurfa að taka tillit til kjósenda, en það var þegar sómatilfinning þm. þeirra hafði lognazt út af í þjóðstjórnarsukkinu og þeir höfðu sjálfir kosið sig á þing og þóttust óhultir þá. Var ekki beðið boðanna og rokið í að afnema 14. gr. einkasölulaganna. Þar með var endanlega strikað yfir það loforð, að tekjur af tóbakseinkasölunni skyldu renna til verkamannabústaðanna. Að vísu var þó það fé veitt, sem ég áður hef nefnt, en það voru smámunir einir. Það þarf ekki að rekja hér hvaða afleiðingar þetta hefur haft, því bera húsnæðisvandræðin hér í Reykjavík og annars staðar bezt vitni.

Nú fyrir skömmu var hraðað hér gegnum þingið l. sem heimila stórfellda hækkun á álagningu á tóbaki, og þýða um leið hækkaðan ágóða af Tóbakseinkasölu ríkisins, líklega svo að milljónum skiptir. Ríkisstj. vék sér undan því að gera grein fyrir, til hvers þessum tekjum skyldi varið, en Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. létu ekki á sér standa að samþykkja þetta og sýna ríkisstj. þar með traust sitt.

Við sósíalistar börðumst á móti þessu frv., en úr því að andstæðingaflokkum sósíalista tókst að koma því í gegn, vill Sósfl. gera tilraun til þess að þeim tekjuauka, sem fæst með hækkaðri álagningu af tóbaki, verði varið þannig, að þjóðin hafi sem varanlegast gagn af. Í því skyni flytjum við flm. þetta frv. hér fyrir hönd Sósíalistaflokksins.

Að endingu vil ég leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.