05.10.1943
Neðri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þegar flm. þessa máls reifaði það nú fyrir nokkrum dögum, þá lét hann þess getið, að hann vænti þess, að um það yrðu ekki miklar umr. á þessu stigi þess, þ. e. við 1. umr. málsins. Og mig minnir, að hann óskaði eftir því, að svo yrði, að það yrði látið ganga til n. sem fyrst og aðalumr. um málið teknar upp síðar. Ég hefði viljað geta orðið við þessum tilmælum hv. flm., sérstaklega vegna þess, að ég hafði búizt við að fá þetta mál í landbn., og þá hefði mér gefizt kostur á að athuga það þar. En í lok máls síns lagði hv. flm. til, að því yrði vísað til allshn. og það athugað þar, þótt ég geti ekki séð, hvaða rök liggja til þess, að þessu máli verði vísað til þeirrar n. En það var m. a. ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs til þess að segja um málið nokkur orð og jafnframt beina nokkrum spurningum til hv. flm. Sömuleiðis gaf hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) tilefni til þess í sinni ræðu, að málið yrði nokkuð rætt, áður en því væri vísað til n.

Það er ekki hægt að taka þetta frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma, til rækilegrar athugunar án þess að koma að meira eða minna leyti inn á skipulag mjólkursölumálanna hér í bænum og inn á þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið frá því fyrsta í því máli.

Það fyrsta, sem gerist í þessu máli, a. m. k. svo að nokkru máli skipti, var gert 1934, þegar mjólkurl. voru samþ. og gerbreytt var söluskipulaginu í þeim málum. Þá var fyrst tekin upp sú nýja stefna að verðjafna nokkuð þessa vöru, þannig að þeir, sem betri aðstöðu hefðu til þess að framleiða og selja á markaðinum fyrir þessa vöru, yrðu að láta af hendi nokkuð af því, sem þeir fengju fyrir þessa vöru, til hinna, sem lengra voru í burtu og verri höfðu aðstöðuna til að nota mjólkurmarkaðinn. Þetta var eitt höfuðatriðið í l. sem samþ. voru um þetta mál 1934.

Alþfl. gekk með til þeirrar lagasetningar, og var það bæði vegna þess, að hann taldi þetta réttlætismál innan réttra og skynsamlegra takmarka, og líka vegna þess, að með setningu þessara l. átti að bæta úr ýmsum örðugleikum, sem á mjólkursölunni voru. Það átti að tryggja, að neytendur fengju ódýrari mjólk, að þeir fengju betri mjólk, og einnig, að þeir fengju næga mjólk. Því var þá haldið fram — og með allmiklum rétti —, að mjólkurdreifingarfyrirkomulagið væri ekki með þeim hætti, sem bezt yrði á kosið, þannig að með því fyrirkomulagi yrði dreifingarkostnaðurinn allmiklu meiri en hann þyrfti að vera. Og þá var gengið út frá því af þeim aðilum, sem að málinu stóðu, að það, sem kynni að vinnast með bættum aðferðum, yrði jöfnum höndum látið verða neytendum og framleiðendum til hagsbóta.

Þegar l. voru sett, var gengið út frá því, að hver eyrir, sem græddist, skyldi látinn renna að hálfu til bænda og að hálfu til neytenda. Einnig skyldi stefnt að því að hafa framleiðslusvæðið svo stórt, að tryggt væri, að enginn hörgull á mjólk yrði í bæjunum. Og í þriðja lagi skyldi gengið svo frá málum, að öruggt væri, að mjólkin gæti talizt ný og góð vara, þegar neytandinn fengi hana.

Ég minnist á þetta vegna þess, að mér þykir ástæða til að taka til athugunar, hvernig rætzt hafa þær vonir, sem menn bundu við þetta skipulag, þegar það var upp tekið. Verður þá að spyrja:

Hefur mjólkin batnað, er framleiðslan fullnægjandi, og hefur verðið lækkað? Þetta voru þau atriði, sem átti að tryggja með skipulagningunni. Er því full ástæða til að gera sér grein fyrir því, hvort þetta hefur tekizt og mönnum orðið að von sinni.

Ég held, að þessum spurningum öllum sé fljótsvarað. Því miður verður að svara þeim öllum á einn veg. Ekkert af þessu hefur tekizt.

Mjólkurframleiðslan er of lítil, varan er hvergi nærri góð, og auk þess er hún svo dýr, að engu tali tekur. Árangurinn hefur því orðið gagnstæður við það, sem til var ætlazt. Ástandið í mjólkurmálum bæjarins er nú þannig, að fólk verður að bíða í röðum framan við mjólkurbúðirnar til þess að geta fengið mjólkurpela, og gæðin eru þannig, að þegar börnin koma heim úr sveitinni, geta þau varla komið þessari mjólk niður.

Mér þykir leitt að þurfa að viðurkenna þetta, því ég er einn af þeim, sem gerðu sér vonir um, að þetta skipulag mundi bera sæmilegan árangur.

Ástæðurnar til þess, að þetta hefur farið svona, eru margar, og mun ég víkja að því síðar. En það er staðreynd, að það, sem átti að ná með þessum l. og við Alþýðuflokksmenn bjuggumst við, hefur ekki náðzt.

Nú er komið fram frv. frá hv. 8. þm. Reykv., þar sem farið er fram á nokkrar breyt. þessara mjólkursölulaga. Aðalbreyt., sem þar er gert ráð fyrir, er sú, að bæjunum verði veitt heimild til að taka í sínar hendur mjólkursöluna, og auk þess er þar gert ráð fyrir ýmsum minni háttar breyt.

Hið fyrsta, sem menn hljóta að spyrja um í sambandi við þessar brtt. hv. 8. þm. Reykv. og þeirra annarra, sem standa að frv. með honum, er því það, hvort líkur séu til, að með þessu náist betri árangur en með núgildandi l., eða von um, að með slíkri breyt. fáist betri, meiri og ódýrari framleiðsla. Ef frv. leysir ekki úr neinu af þessum vandamálum, tel ég ekkert unnið með því. En geri það þetta hins vegar, á það fullan rétt á því, að það sé tekið til athugunar.

Reykjavík og Hafnarfjörður eða neytendasvæðið vestan heiðar er orðið svo stórt, að það þarfnast gífurlegs mjólkurmagns, meira magns en svo, að hugsanlegt sé, að það verði framleitt á litlu svæði. Áður fyrr, meðan Reykjavík var helmingi minni bær en nú og mjólkurneyzlan ekki ýkjamikil á hvern mann, var hægt að bjargast við þá mjólk, sem framleidd var í nágrenni bæjarins. Þetta var nauðsyn, vegna þess að vetrarferðir austur um fjall þekktust þá ekki. Þá, fyrir 25 árum, kom fram frv. á Alþ., sem Alþfl. stóð að, þess efnis, að bærinn tæki að sér að annast mjólkursöluna. Þetta frv. miðaðist ekki við það stórkostlega mjólkurmagn, sem bærinn þarfnast nú, heldur aðstæður, sem þá voru fyrir hendi.

Athugum nú fyrrnefnd atriði í sambandi við frv. það, sem hér er til umræðu. Getur það hugsazt, að með samþykkt þess yrði mjólkurmagn aukið, svo að tryggt væri? Ég get ekki séð það. Eru þá líkur til, að með þessum ráðstöfunum yrði unnt að lækka mjólkurverðið? Það má vera, að þetta yrði hægt að óbreyttu ástandi, en ef lögleitt verður annað frv. um mjólkursölu, sem hér er á döfinni og hv. landbn. mælir með, um að tryggja viðskiptaráði íhlutunarrétt um verðlag mjólkur, sýnist mér, að örugglega sé gengið frá þessu atriði. Því eru ekki líkur til, að með þessu frv. vinnist neitt að ráði um lækkun mjólkurverðs.

Þá er þriðja atriðið, hvort þetta frv. mundi verða til þess að auka gæði mjólkurinnar. Ég sé ekki, að með þessu frv. sé gert ráð fyrir neinum ráðstöfunum í því skyni að bæta vöruna umfram það, sem nú er gert. Ófremdarástandið í því efni stafar að mínu viti fyrst og fremst af tvennu, en það skal raunar játað, að ég er ekki nema leikmaður á þessu sviði. Mér skilst það stafa fyrst og fremst af því, að sameinuð er ný og gömul mjólk, þannig að þegar mjólkin kemur til vinnslustöðvarinnar, er hún ekki í því ástandi, sem vera þarf, til þess að góður árangur náist. Hin ástæðan er sú, að vélar mjólkursamsölunnar eru ekki nógu góðar. Þetta tvennt þarf að laga. Það er ekki nóg að flytja mjólk til bæjarins frá fjarlægustu stöðum til þess eins að tryggja nægilegt mjólkurmagn, heldur verður einnig að tryggja, að hún sé ekki orðin of gömul og skemmd, þegar hún kemur til mjólkurstöðvanna.

Ég sé því ekki, að í frv. hv. 8. þm. Reykv. og meðflm. hans felist nein veruleg trygging fyrir því, að bætt verði úr þessum annmörkum. Til þess þarf meiri og víðtækari ráðstafanir.

Ég skal að vísu játa, að skapazt hefur nýtt viðhorf, þar sem ákveðið hefur verið, að bændur skuli fá fast verð fyrir vöru sína, og verður ekki komizt hjá að minnast á það fáum orðum, því að verð mjólkurinnar er mikilsverður hlutur í þessu sambandi og hlýtur að hafa úrslitaáhrif á það, hve mikið er framleitt, og eins hitt, hve mikið hver einstaklingur í bæjunum getur keypt til neyzlu. Einnig gefur að skilja, að áhugi bænda á að halda dreifingarkostnaðinum niðri hlýtur að minnka, þegar þeim er ákveðið fast verð, hver sem þessi kostnaður verður.

Sex manna n., sem skilaði áliti sínu nú fyrir nokkru, komst að þeirri niðurstöðu, að bændur eigi að fá fyrir mjólkina fast verð, sem nemur kr. 1.23 á lítrann á vinnslustað, og það skuli þeir fá, hvað sem öllu öðru líður, hversu mikið sem fer í vinnslu af mjólkinni og hve mikill sem dreifingarkostnaðurinn verður.

Mér er ráðgáta, hvernig þessi tala er fengin.

Í dýrtíðarl., sem samþ. voru á síðasta þ., var gengið út frá því, að n. ætti að finna framleiðslukostnaðarvísitölu landbúnaðarafurða, eða þannig skildi ég lögin, og með því fororði var og þeim fylgjandi. En í stað þess að finna framleiðslukostnaðarvísitöluna virðist mér n. helzt hafa lagt stund á að finna aðrar tölur, sem sé heildartekjur meðalbónda, og það, hvernig ætti að tryggja honum þær. Mér finnst því hv. n. hafa farið út fyrir það svið, sem henni var markað af Alþ.

Ég leit yfir nál., þegar það birtist í blöðunum, og átti erfitt með að glöggva mig á því. Síðan hef ég fengið eitt af eintökum þeim, sem útbýtt var hér á Alþ., en á því virtist mér ekki heldur neitt að græða umfram það, sem í blöðunum birtist. En vilji maður gera sér grein fyrir vinnubrögðum þessarar n., hefur maður engin önnur gögn um þetta mál.

Í nál. þessu er ekki minnzt á ýmis þau atriði, sem ég tel miklu máli skipta. Ef það er athugað, þá sést, að þar hefur verið lagt til grundvallar ákveðið safn búreikninga frá undanförnum árum. Þeir eru raunar ekki nema tæplega 40 talsins, en bændabýli á landinu eru hins vegar eitthvað nálægt 600.0 að tölu. Má geta nærri, hvílík nákvæmni fæst með því að taka aðeins þessi fáu sveitabýli til greina. Auðvitað geta þau ekki gefið neina sanna heildarmynd af búskap á ýmsum stöðum landsins við ólíkustu skilyrði. Þetta er ekki nema rúmur ½ hundraðshluti af öllum bændabýlum landsins, og svo er þetta lagt til grundvallar útreikningi á heildarframleiðslukostnaði allra bænda landsins.

Þegar svo reikningarnir sjálfir eru athugaðir, kemur í ljós, að af öllum útgjöldum þessa meðalbús eru um 90% — eða nánar tiltekið 88% — vinnulaun. Allur annar kostnaður búsins er talinn nema 12%. Það veltur því á tiltölulega litlu, hvernig þessi kostnaður er ákveðinn í samanburði við vinnulaunin. Vinnulaunin eru aðalatriðið, sem niðurstöðurnar mótar. Þó er einn liður, sem ég ætla að nefna, sem er ekki vinnulaun, sem sé vaxtakostnaðurinn, 900 kr., sem er talinn til útgjalda bænda. En ég hef fyllstu ástæðu til að ætla, að skuldir þessa meðalbús séu nú svo litlar, að það þurfi litla eða enga vexti af þeim að breiða og alls ekki 900 kr. Ég gæti sannað þetta út frá öðrum atriðum búreikninganna. Verða því þessar 900 kr. í raun réttri einnig að færast búinu tekjumegin.

Þetta er nú stærsti liðurinn í gjaldahlið búsins, þegar vinnulaun eru frátalin, og sýnir þetta, hversu áreiðanlegar þessar niðurstöður muni vera.

88% af framleiðslukostnaði búsins eru talin vinnulaun, sem skiptast í tvo hluta, annars vegar aðkeypta vinnu og hins vegar vinnu bóndans. Ég er ekki kunnugur víða um land, en ég held, að ég sé þó svo kunnugur, að ég megi fullyrða, að þau séu fá búin af þessari stærð, sem keypt hafa vinnu fyrir 12000 kr. á ári að undanförnu. Kunnugir segja mér, að tölur þær, sem n. hefur reiknað með, séu miklu hærri en þeir þekkja til.

Þó að gefið sé upp í nál., að vinnutími karla sé talinn 40 vikur, kvenna 37 vikur og unglinga verulegur hluti ársins, þá felst lítil vitneskja í því um heildarupphæð greiddra vinnulauna. Ég hef rökstudda ástæðu til að ætla, að nokkuð af þeirri vinnu, sem talin er aðkeypt vinna, sé framkvæmd af venzlamönnum bóndans, og kemur það fram síðar í álitinu, en greiðslur til vandamanna er erfitt að meta. Annars verð ég að benda á það, að kaup vandamanna fjölskyldunnar er venjulega í kaupstöðum talið með tekjum búsins.

Mér þætti ekki ósennilegt, að áætlun um upphæð greiddra vinnulauna væri helmingi of há, þó að ég geti ekki sannað það á þessu stigi málsins, þar sem gögn öll eru svo ófullkomin.

Þá ætla ég að minnast örlítið á hinn kaupgjaldsliðinn, kaup bóndans.

Það er fundið þannig, að tekið er meðaltal af tekjum verkamanna, sjómanna og faglærðra iðnaðarmanna í Reykjavík og nokkrum öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Ég veit raunar ekki, hvernig á því stendur, að faglærðir iðnaðarmenn eru teknir með. Mér skilst það mjög hæpin túlkun á fyrirmælum dýrtíðarl. En hvernig er farið að?

Þegar búið er að finna meðaltekjur þessara manna, er deilt í þá tölu með meðalvísitölu ársins 1942, sem er rúmlega 205, og síðan margfaldað með meðalvísitölunni fyrir tímabilið frá 1. sept. 1942 til 1. ág. 1943, enda þótt sannanlegt sé, að ýmsir atvinnuflokkar hafa ekki fengið tekjur sínar hækkaðar í samræmi við vísitöluna.

Sú tala, sem þannig fæst, hlýtur að vera villandi. Það nær t. d. engri átt að taka hlut sjómanna og margfalda hann með vísitölunni á sama tíma og fiskverðið hefur verið bundið. Þegar búið var að deila tekjum ársins 1942 og margfalda síðan, eins og áður er sagt, hefur fengizt áætluð tekjuupphæð, 15.500 kr., sem átti að vera meðaltekjur þessara atvinnustétta. En það er engin furða, þó að talan hækki úr hófi fram, þegar tekjur sjómanna eru teknar með og margfaldaðar með vísitöluhækkunum, sem þeir hafa aldrei fengið.

Þegar búið er að finna þetta meðaltal, er enn haldið áfram og frá þessari upphæð, þessum 15.500,00 kr., sem n. taldi, að væri meðaltal tekna fyrir þetta tímabil, dregin nokkur upphæð, sem talin er samsvara því, sem bóndinn hefur auðveldari aðstöðu til að afla sér ýmissa lífsnauðsynja en verkamenn í bæjunum.

Þessi hlunnindi hafa verið metin á 2000 kr. Ég skal ekkert um það segja, hversu rétt það mat er, en skal aðeins leyfa mér að benda á, að í þessari upphæð, kr. 2000.00, er annar tekjuliður bóndans falinn, þ. e. tekjur hans af vinnu utan heimilis.

Í búreikningum frá árinu 1939, sem ég hef farið gegnum, eru tekjur af vinnu utan heimilis taldar um þriðjungur af áætluðu kaupi bóndans. En nú bregður svo við, að tekjur bóndans af vinnu utan heimilis — auk þeirra hlunninda, sem ég gat um, eru metnar á einar 2000 kr., samtímis því sem heildartekjur eru áætlaðar 14500 kr.

Þá er samtals búið að koma þessum áætluðu meðaltekjum af búinu upp í 13.500 kr. — Þegar hér er komið, finnst bændafulltrúunum þó ekki nóg komið, heldur er þá þess krafizt, að bætt sé við 1000 kr. vegna sunnudagavinnu bænda.

Ég vil nú spyrja, hvort tillit hafi verið tekið til nætur- og helgidagavinnu sjómanna við útreikning meðalteknanna, en það er vitað, að sjómennirnir verða allra manna mest að vinna, á hvaða tímum sem er, sunnudögum jafnt og aðra daga og um nætur jafnt og daga.

Niðurstaðan, sem sex manna n. kemst að, verður því sú, að bóndinn þurfi 14500 kr. í árslaun, en það er fjórtánföld sú upphæð, sem bóndanum var reiknað í kaup eftir búreikningum frá 1939, en þar er bóndanum ætlaðar rúmlega 1000 kr. í kaup á ári auk nokkurrar viðbótar, sem konu og börnum er þar ætluð.

Ég skal ekkert segja um það, hvort það hefur verið réttmætt, en fyrr má nú rota en dauðrota að færa kaupið úr 1000 kr. upp í 14500 kr.

Ég skal svo ekki eyða miklu fleiri orðum að þessu, en ég efast ekki um, að sú upphæð, sem talið er, að bóndinn eigi að fá, mundi lækka um ¼, ef ekki 1/3, ef tekið væri tillit til alls þess, sem ég nú hef getið um, og þá er ég ekki viss um, að þyrfti mikið að verðbæta landbúnaðarvörurnar miðað við núverandi verð.

Þá kem ég að öðru atriði, og það eru verðbæturnar. Ríkisstj. hefur ákveðið, að landbúnaðarafurðir skuli ekki seldar með því verði, sem vísitölun. hefur ákveðið, heldur skuli það greitt niður með framlögum úr ríkissjóði.

Þá koma og verðbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Því hefur verið lýst yfir af form. Framsfl., að tvennir fjórtán alþm. hafi bundizt samtökum um að standa með niðurstöðum vísitölun. og tryggja bændum þær tekjur, sem þar eru áætlaðar, og skal ég leyfa mér að lesa upp greinarstúf úr .,Degi“, eftir J. J., með leyfi hæstv. for seta. Sú grein sannar þetta. Þar segir:

„Fjórtán framsóknarmenn og fjórtán sjálfstæðismenn á þingi hafa lýst yfir við ríkisstjórnina, að þeir ætli að standa með tillögum sex manna nefndarinnar og tryggja bændum landsins það verð fyrir afurðir sínar, að þeir séu ekki verr settir um afkomu nú í ár heldur en launastéttirnar“.

Það er sagt, að þetta eigi að þýða, að tryggja eigi verðuppbætur á allar útfluttar landbúnaðarafurðir. Mér þætti fróðlegt að fá að vita, hvort ríkisstj. hefur borizt þetta umrædda skjal, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., en hann er nú einn viðstaddur af ráðherrunum, hvort ríkisstj. muni hafa borizt það.

Landbúnaðarvísitölun. hefur skoðað það sem sitt verkefni að athuga, hvað bændum bæri að fá í kaup í samræmi við aðrar stéttir landsins, og nú virðist eiga að tryggja þeim það kaup. Þetta er annar skilningur en lagður er í lögin, er þau voru sett.

Ég vil nú fá úr því skorið, hvað á að verða úr þessu.

Ég hef séð það í Þjóðviljanum, að hann tekur greinilega afstöðu á móti því, að útfluttar landbúnaðarafurðir verði verðbættar. En ef fulltrúi flokksins í n. — því að það má telja hann fulltrúa flokksins, þótt hann hafi ekki verið tilnefndur beint af flokknum, heldur Alþýðusambandinu, — hefur verið þessu samþykkur, þá er einkennilegt, að blað flokksins skuli vera á annarri skoðun.

Ég óska því eftir að fá upplýst opinberlega, hvort vísitölun. hefur ætlazt til þess, að bændum verði tryggt það verð fyrir vörur sínar, sem hún taldi, að þeir þyrftu að fá, og það án tillits til þess, hvort vörurnar verða fluttar út eða ekki.

Það var í upphafi gert að skilyrði fyrir því, að niðurstöður þær, sem vísitölun. kæmist að, yrðu bindandi sem samkomulag, að allir nm. yrðu sammála. Hafi n. nú einnig samið um þetta atriði, þá hlýtur fulltrúi sósíalista einnig að hafa verið því samþykkur, en mér skilst, að blað flokksins líti öðrum augum á það mál.

Það yrði of langt mál að tala um allar þær verðbætur, sem nú eru greiddar, en það er ein tegund verðbóta, sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á, en það eru verðbætur þær, sem eru greiddar á landbúnaðarafurðir, sem setuliðið kaupir og neytir hérlendis.

Það er vitað mál, að mjólkurskorturinn hér í bænum stafar mikið af því, að setuliðið kaupir mikla mjólk.

Samningarnir við setuliðið eru þannig gerðir — á sumum stöðum að minnsta kosti, — að því er tryggt visst og ákveðið magn af mjólk daglega, þannig að þegar mjólkurskortur verður, þá gengur það út yfir íslenzka borgara, en setuliðið missir einskis. Þessi mjólk er svo verðbætt eins og önnur mjólk, sem seld er hér út úr mjólkurstöðinni.

Ég veit ekki með vissu, hve mikla mjólk setuliðið kaupir hér, en ég veit, að það skiptir þúsundum lítra á dag.

Við neytendur erum látnir borga þessa mjólk ofan í setuliðið, en fáum ekki nægilega mjólk sjálfir.

Ég verð að segja, að annað eins og þetta er ekki hægt að kalla fyrirmyndarskipulag.

Ég ætla svo að víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. S.-M. Hann talaði um, að það væri verið að reyna að hneppa bændur í ánauð, að þeir væru gerðir að þrælum með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég kannast ekki við það. Ég hygg, að hafi verið um þrælatök að ræða í þessu máli, hafi þau fyrst og fremst komið fram í einhliða ráðstöfunum Framsfl. og því sé málunum nú komið í það óefni, sem raun ber vitni um.

Ég hef talað við fulltrúa neytenda í mjólkurverðlagsn., og þeir hafa sagt mér, að það hafi aldrei verið tekið nokkurt tillit til krafna þeirra í sambandi við verðákvarðanir. Verðið hefur raunverulega verið ákveðið, áður en þeir komu á fundina, sem þeir voru aðeins kvaddir á vegna formsatriða, en ekki til þess að taka nokkurn þátt í störfum þar, vegna þess að þeir hafa ævinlega verið þar ofurliði bornir.

Verðið hefur verið einhliða ákveðið af Framsfl., sem hefur haft öll völdin í sínum höndum. Þetta eru þrælatökin, sem bændur hafa verið beittir! Nei, neytendur hafa alltaf verið látnir afskiptir um þessi mál og þeim ráðið til lykta með einhliða hagsmuni bænda fyrir augum þvert ofan í það samkomulag, sem upphaflega var gert.

En ég hef alltaf talið, að hér næðist ekki árangur, nema höfð væri samvinna um málið. Og það var vissulega á sinni tíð reynt að ná samvinnu.

Árið 1934 var með samþykkt afurðasölul. rétt fram höndin til þess að fá samvinnu, og ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég tók á mig margs konar óþægindi til þess að freista að ná góðum árangri. En það hefur aldrei verið nein samvinna. Á þessa útréttu hönd hefur alltaf verið slegið í undanfarin 9–10 ár. Þessi samvinnutilraun hefur mistekizt, en við það verður ekki unað öllu lengur, að málunum verði haldið í þessu horfi. Það hlýtur að draga til þess, að neytendur taka til sinna ráða, ef þessu á að halda áfram.

Framsóknarmenn hafa í orði kveðnu tilnefnt fulltrúa neytenda til þess að ákveða verðlagið, en þeir hafa þar engu ráðið. Þetta eru öll þrælatökin, sem bændur hafa verið beittir.

Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því, að bændur fái hátt kaup og hátt verð fyrir afurðir sínar, en er nokkurt vit í því, að fulltrúar neytenda fái engu að ráða um þessi mál. Það getur reyndar vel verið, að sumir fulltrúar launþega hugsi sem svo, að það geri ekkert til, þótt bændur fái hækkað verð fyrir afurðir sínar, því að við það hækki bara vísitalan og þá fái þeir sjálfir hækkað kaup. En þetta ber í sér hættu fyrir þjóðfélagið, hættu, sem sumir hafa ef til vill ekkert á móti, vegna þess að þeir vilja ekkert fremur en þá upplausn, sem af þessu leiðir.

En frá þessu sjónarmiði séð er það óhollt, að vísitalan hækki mikið.

Útvegurinn og aðrir atvinnuvegir geta ekki staðið undir því til lengdar, að bændum sé greitt fyrir smjörið kr. 21.00, þegar hægt er að fá það frá S.-Ameríku fyrir kr. 7.00 kg., og að kartöflur séu greiddar með kr. 1.00 kg., þegar það fæst í nálægum löndum fyrir kr. 0.30–0.40 kg. Það getur aldrei staðizt til lengdar, að afurðaverð hér sé miklu hærra en í löndunum í kringum okkur, því að söluverð aðalútflutningsvöru okkar ber ekki þann tilkostnað.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að hér kæmu fram sjónarmið þeirra, sem vildu byltingu, en ekki eðlilega þróun. Ég verð nú að segja það, að ef það er nokkuð, sem framkallar byltingu, þá er það það ástand, sem flokkur hans og „hinir fjórtán“ í Sjálfstfl. hafa skapað með hinni ósanngjörnu, einhliða misbeitingu meirihlutavalds síns. Það er hann sjálfur, sem hefur stýrt inn á þessa braut; þó að nokkru valdi hér einnig um þau lausatök, sem Alþ. hefur tekið á þessum málum og það hlýtur að taka, meðan það er svo ósamstætt, sem það nú er.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það ber að skoða þetta frv. sem eðlilega „reaktion“ af hálfu neytenda, en það er þannig byggt upp, að ég hygg, að lítið græðist á því, því miður. En Alþfl. mun síðar koma fram með sínar till., ef ekki tekst nú að ráða á viðunandi hátt fram úr þessum málum, nú mjög bráðlega.

Hv. flm. lagði til, að frv. yrði vísað til allshn., en ég tel, að landbn. eigi að fjalla um þetta mál, og það væri mjög æskilegt, að hún gæti fengið viðunandi úrlausn fyrir báða parta, neytendur og framleiðendur, því að ástandið er óþolandi miklu lengur.