05.10.1943
Neðri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður Kristjánsson:

Ég heyri nú, að vinur minn, hv. þm. V.-Sk., vill vísa málinu út úr deildinni. Ég held nú raunar, að það sé varla tímabært.

Ég hafði hugsað mér að verða við tilmælum hv. 1. flm. um að spara umr., unz málið væri búið að vera í n. Nú er komin fram rödd um að fella það frá n. En af því að ég geri nú hins vegar ráð fyrir, að hv. d. verði ekki við þeim tilmælum, þá mun ég stytta mál mitt mjög.

Þá er fyrst, að ég tel mjólkurskortinn aðeins einn lið í öllu því sleifarlagi og klaufaskap. sem ríkt hefur í mjólkurmálunum undanfarið. Ég hef náttúrlega orðið fyrir barðinu á honum eins og aðrir. Ég nefni til dæmis, að ég sendi minn mann í mjólkurbúð, og þá er þar auðvitað fyrir fjöldi manns. Ég fæ einn lítra í stað átta, sem ég er vanur að fá handa 14–15 manna heimili. Svo kemur næsti maður, og hann er einhleypur. Hann fær einnig heilan lítra í sitt ílát. Í fáum orðum sagt, það er sama sleifarlagið á þessu öllu saman.

Þetta er af þeim sökum, að þeir, sem stjórnað hafa í mjólkurmálunum, hafa látið sig litlu skipta hag neytendanna. Ég tek því undir með hv. þm. Hafnf., að hvort sem þetta frv. verður að l. eða ekki, þá mega þeir vita, sem að þessum málum standa, að ástandið verður ekki þolað öllu lengur. Það kemur ekki til mála.

Ég ætla þó ekki að gefa tilefni til að umræðurnar lengist eða þær fari úr hófi fram um orðalag eða annað. Ég vil aðeins benda á, að áður en málið fer til n., að það eru tveir aðilar, sem þarf að fullnægja.

Það, sem seljandann varðar mestu, er verðið og markaðurinn. En kaupendurna varðar mestu, að varan sé góð og heilnæm. Vitanlega skiptir verðið þá einnig miklu. En það er nú svo, að kaupendurnir ráða engu um það. Það er ákveðið til þeirra af sérstakri n., og þar með hygg ég, að seljendunum sé fullnægt. Með l. er svo ákveðið, að verðið sé ekki ákveðið af kaupendum, heldur af sérstakri n.

Ætla má og hefur raunar komið í ljós, að hagsmuna seljendanna væri fyllilega gætt og þeirra hlut borgið fyrir tilstilli þessarar n. Er þá nema rétt og sjálfsagt að sjá fyrir hlut neytendanna í því efni, er þá varðar mestu, en það eru gæðin? Því ekki að leyfa kaupendunum að annast það sem mest að tryggja þau?

Að sjálfsögðu geta þeir ekki tryggt, að mjólkin sé ný og góðrar tegundar, en það er þó alltaf hægt að gera verðmun á mjólkinni eftir gæðum. Meðferð, hirðingu og flutning getur bærinn þó alltaf annazt og gætt allra heilbrigðisreglna. Væri það neytendum nokkur trygging.

Þegar nú ekki er farið fram á annað en þessi hlið málsins sé falin neytendum eða umboðsmönnum þeirra, þá mætti þykja undravert, að þeirri málaleitun skuli hafa verið tekið með þvílíku offorsi.

En það kemur til greina af sérstökum ástæðum. Það er af því, að það hefur aldrei verið málefni bænda, hvernig farið hefur verið með mjólkina, eftir að verð hefur verið ákveðið á hana. Mjólkurstöðin hefur verið pólitískt vígi, en ekki fyrirtæki bænda. Þess vegna taka framsóknarmenn svo illa öllum breytingum á þessum málum, þótt þær komi ekkert við bændur.

Þeir vita, að um leið er verið að brjóta þeirra pólitíska vígi.

Það er því hið mesta ranghermi, að verið sé að ráðast á bændur, þótt breytt verði fyrirkomulagi mjólkursölunnar.

Ég lít að vísu á hlið neytendanna, en loka þó ekki augum fyrir hagsmunum framleiðendanna. Og þar sem búið er að sjá hlut framleiðendanna borgið með l., þá er hlutur neytenda ekki of góður, þótt þeir fái einhverju að ráða um meðferð vörunnar.

Það er freistandi að fara hér út í starf sex manna n., en ég mun e. t. v. koma að því síðar. Ég tel heppilegt, að þetta mál fái að sæta meðferð í n., áður en farið er inn á víðara umræðusvið, og því kem ég ekki inn á niðurstöður n. að sinni.

Ég ætla ekki heldur að rekja, hvað neytendur hafa orðið að þola í mjólkurmálunum í 9–10 ár, sem margt stafar af erfiðleikum, en margt af því, að forráðamönnum mjólkurmálanna hefur ekki þótt sinn hlutur góður, nema hlutur neytenda væri illur. Þetta er óheilbrigði og verður ekki þolað lengur.

Sökum þess að ég lít aðallega á þetta sem heilbrigðismál frá sjónarmiði neytenda, þá legg ég til, að málinu verði vísað til heilbr.- og félagsmálanefndar.