21.10.1943
Neðri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða þetta mál allmikið, og búin eru að koma fram í því ýmis atriði til upplýsingar. En það virðist vera svo sem þeim, er flytja þetta mál hér og deila á það skipulag og fyrirkomulag, sem er hér um mjólkurmálin í bænum, sé um annað meira hugað en að fá réttar staðreyndir í málinu, því að þær ræður, sem þeir hafa flutt hér, hafa allar gengið út á það, a. m. k. upp á síðkastið, að neita staðreyndum og segja, að það séu staðlausir stafir, sem liggur fyrir í skýrslum, sem framkvæmdar hafa verið af því opinbera, og neita yfirleitt tölum, skýrslum og staðreyndum. Og þessir menn virðast hafa mestan áhuga á því að þyrla upp sem mestum blekkingum og ósannindum í þessu máli, þannig að maður hefur alls ekki geð í sér til þess að ræða við þessa menn um málið, vegna þess að þeim er annað í hug en að komast að, því eða tala um það, sem rétt er í málinu. Það eru það mörg atriði búin að koma hér fram hjá hv. flm. frv., að ef fara ætti að hrekja þau öll, þá væri það vitanlega margra klukkustunda verk, enda sé ég enga ástæðu til að gera það neitt að ráði. Vil ég aðeins drepa á örfá atriði, þó að hv. þm. Hafnf. segi, að minn málflutningur sé sá að taka einstök atriði í málinu og kryfja þau til mergjar og hleypa svo fram hjá mörgum öðrum atriðum ósvarað. Þetta er rétt. Ef ég ætti að taka hvert einasta atriði og sýna blekkingarnar í því, þá entust mér ekki margir dagar til þess. Það er ekki hægt að taka allar þær blekkingar og rekja þær í sundur á stuttum tíma og sýna, hvernig málflutningurinn er. Ég held, að það sé vísindaleg aðferð, sem notuð er, að þegar um mikið magn er að ræða af einhverju, sem þarf að prófa, þá eru tekin sýnishorn og rannsökuð og sýnt, hvers eðlis þau eru á ýmsan hátt. Þegar t. d. er reiknuð út vísitalan, þá eru tekin nokkur sýnishorn, ég held 40, og er það talið nægilegt til þess að sýna, hver er hinn raunverulegi framleiðslukostnaður hér í Reykjavík. Og ég held, að hv. þm. Hafnf. hafi flutt hér þáltill. fyrir fáum dögum um það, að nauðsynlegt væri að auka fjörefnarannsóknir á lýsi, og við þær rannsóknir eru tekin tiltölulega fá sýnishorn til að rannsaka það, en ég held, að honum hafi ekki dottið í hug að taka allt lýsismagnið til þess að láta rannsaka það, heldur aðeins sýnishorn. Og þessa aðferð ætla ég að nota enn þá, vegna þess að ég tel hana þá einu, sem hægt er að nota gagnvart mönnum, sem þyrla upp jafnmiklum blekkingum í málflutningi sínum eins og hv. 8. þm. Reykv. og hv. þm. Hafnf. og aðrir fleiri, sem í þessu máli hafa talað. Hv. 8. þm. Reykv. var að tala um það m. a., að ég hefði farið skakkt með tölur, þegar ég sagði, að árið 1934 hefði mjólkurmagnið, sem talið hefði verið koma hér á markaðinn í Reykjavík, verið 6,3 millj. lítrar, á móti því, að árið 1942 hafi það verið 15,5 millj. lítra. Ég ætla að standa við þær tölur. En sá hv. þm. vildi hrekja það, að þetta væru réttar tölur með því móti að segja, að árið 1935 hefði mjólkurmagnið verið 9,9 millj. lítra. Þetta er nú málflutningur í lagi! — að taka allt aðrar tölur og annað ár og segja svo, að ekki sé rétt með tölur farið. Þetta er náttúrlega ekki vísindaleg aðferð, og þó að reynt sé að bjarga sér úr klípu með þessu lagi, þá er þetta það, sem kallað hefur verið á íslenzku að fara á hundasundi eða hundavaðsháttur.

Þá var hv. 8. þm. Reykv. að tala um það, hversu gífurlegur dreifingarkostnaðurinn væri, þar sem munurinn væri hvorki meiri né minni en 47 aurar á útsöluverði mjólkurinnar og því, sem bændur fengju. Og vitanlega er ekki neitt verið að tala um það, hvernig þessi mismunur er til kominn. Það er ekki verið að leggja sig fram til þess að finna þann raunverulega dreifingarkostnað eftir reikningum samsölunnar, sem hv. 8. þm. Reykv., hafði í höndunum og gat eftir þeim fundið, ef hann hefði viljað, heldur ekki tekið það meðalverð, sem hér er um að ræða. En í þessum 47 aurum er innifalinn vinnslukostnaður auk sölukostnaðar og verðjöfnunargjalds. Og þótt útsöluverð neyzlumjólkur sé ákveðið kr. 1,70 hver lítri, þá er um mjólkina það að segja, að hún er langverðmesta varan af mjólkurafurðunum, og þegar bezt hefur gengið að selja hér mjólk, þá hefur það verið tæpur helmingur mjólkurframleiðslunnar, sem komið hefur til samsölunnar, sem hefur selzt með þessu verði, en hitt mjólkurmagnið fer í vinnsluvörur, osta, smjör og skyr. Og ef maður seldi 1/3 vörumagns einhverrar vöru á kr. 1,70 lítrann, 1/3 hlutann á kr. 1,50 og 1/3 hluta á kr. 1,20, þá hef ég ekki heyrt, að meðalverðið sé kr. 1,70. En þetta er kannske sýnishorn af reikningskunnáttu hv. 8. þm. Reykv. Ég held, að meðaltalið mundi reynast vera annað. Það liggur fyrir ótvírætt samkvæmt reikningum mjólkursamsölunnar, að allur dreifingarkostnaður mjólkurinnar hér í Reykjavík var á síðasta ári um 6% af verði vörunnar, og af því eru 4,9% kaupgreiðslur, þannig að það er rúmlega 1%, sem fer í allt hitt. Nú má það vera, að hv. 8. þm. Reykv. og öðrum þyki það of mikið, að sölu og dreifingarkostnaður einnar vöru sé 6%, og það vöru, sem er jafnvandmeðfarið og mjólk og mjólkurvörur. En er þá ekki rétt að taka til samanburðar, hver sölu- og dreifingarkostnaður er á öðrum neyzluvörum í Reykjavík? Ég hef hér hjá mér allar ákvarðanir verðlagsn., þar sem hún ákveður, hvað megi leggja á vörur í sölu og dreifingarkostnað, sem sé til þess að dreifa þeim í smásölu. Og þó að ég leiti með logandi ljósi, þá finn ég hver gi heimild til álagningar undir 15%, sem ákveðið er, að megi leggja á vörur hér í Reykjavík sem sölu- og dreifingarkostnað. Fyrir fáum dögum var það upplýst hér á Alþ., að sölu- og dreifingarkostnaður í smásölu á olíu hefði verið 200% hér á landi. Fiskur, sem seldur er hér í bænum, er keyptur inn til fisksala á 40 aura kg og 45 aura ýsan. Fiskurinn er svo seldur út í smásölu á 80 og 85 aura, og fer þar mikið yfir 80% í dreifingarkostnað. Yfir þessu fæst enginn, en 6% dreifingarkostnaður af mjólkinni og mjólkurvörum á að vera svo óhæfilegur, að helzt þurfi á það opinbera rannsókn. Fyrir að dreifa silkisokkum hér í Reykjavík, sem ætti ekki að vera erfiðara en að dreifa mjólkurvörum, leyfir verðlagsn. 42% álagningu, sem lagt sé í smásölu á þessa vöru. Fyrir að dreifa rafmagnsvörum úr búðum leyfir verðlagsn. 46% álagningu. Það eru vörur, sem m. a. hv. þm. Hafnf. er eitthvað við riðinn, og honum er leyft til þess að dreifa þessum vörum að leggja á þær 46%. Fyrir að dreifa nöglum hér í búðum er leyft að leggja á vöruna 26% eða 20% meira en fyrir að dreifa mjólkurvörum. Fyrir að dreifa hrífusköftum og amboðum, sem ætti ekki að vera mjög mikil hætta á rýrnun á, leyfir verðlagsn. að færa þau fram um 20%. — Ég skal ekki þreyta hv. þd. með því að taka mjög mikið af þessum dæmum, en vil þó taka örfá fleiri. Fyrir að dreifa rörum og járnvír, sem þarf ekki að fara mjög gætilega með, er leyft að leggja á vöruna 40% í smásölu, og fyrir að dreifa ýmsum rafmagnsvörum, öðrum en ég nefndi áðan, er leyft að fara allt upp í 50% með álagninguna. Þannig er að heita má, hvar sem maður grípur niður í þessu. Dreifingarkostnaður á skóm og skófatnaði má fara upp í 32% af verðinu, og hvar sem ég lít í þessi verðlagsákvæði, þá er sú lægsta álagning, sem ég hef fundið, 15%.

Nú ætla ég að biðja hv. þm. að bera saman þessar staðreyndir, og þeir geta reiknað út sjálfir, hverju munar hér. Dreifingarkostnaðurinn hefur verið 6% á mjólkinni, og ég ætla að skora á hv. þm., ef þeir geta, að finna eina einustu neyzluvörutegund hér í Reykjavík, sem fer minna í sölu- og dreifingarkostnað á en í þessu tilfelli. Og ef þeir geta það ekki, þá er það fullkomlega sannað, hvað á bak við málflutning þeirra manna liggur, sem deila sérstaklega á mjólkursölufyrirkomulagið, vegna þess að þeir telja, að dreifingarkostnaðurinn sé óþarflega og óhæfilega mikill og biðja um rannsókn í þessum efnum og tefja störf Alþ. með ógeðslegum málflutningi í þessum efnum. Ég efast ekkert um, að þessir menn, sem sérstaklega standa með þessu máli, bregði því vopninu fyrir sig að neita tölum þeim, sem hér liggja fyrir hverjum manni, sem vill ganga að þeim, og segi, að þær komi sér ekki við, heldur séu þær aukaatriði, þegar búið er að reka þá á stampinn, því að vitanlega kemur þessum hv. þm. það illa, að tekin séu svona atriði og rakin sundur og sýnt fram á, hve mikið hald er í þessum ádeilum, sem þeir eru að flytja.

Það sem hv. 8. þm. var hér að tala um mig persónulega og um það hvað ég væri lítill maður sennilega og lítill prestur og lítill bóndi, þá er það kannske gott fyrir hann og hans sálufélaga að geta leikið sér að slíkum hugsunum. Þeir skulu þá bara hugsa sér að vera meiri menn. Þessi maður, 8. þm. Reykv., hefur fengið mikinn styrk frá ríkinu, og það hefur verið varið of fjár til þess að mennta hann til prests. Ég veit ekki til þess, að hann hafi notað það enn. Ég býst við, að þessi maður sé hvorki góður né vondur, og ekki hefur hann sýnt dugnað í búskap. En þegar hann fer að reka þessi miklu kúabú, þá skulum við sjá, hvað hann verður skeleggur, — ég hlakka til. Ég fagna hverjum góðum starfsmanni, sem kemst úr þeim vesaldómi, sem þessi hv. þm. virðist helzt hafa lagt fyrir sig, eftir því sem ræður hans gefa til kynna, með þeirri persónulegu rætni, sem þar kom fram. Ég mundi fagna því, ef hann gæti fengið sig til þess að vinna nytsöm störf í þjóðfélaginu.

Þá var hv. 8. þm. Reykv. enn fremur að tala eitthvað á þessa leið: Hvaða rétt hafa verkamenn t. d. til þess að fylgja vöru sinni eða vinnunni, sem er þeirra vara, þar til hún er fullunnin. Ég veit ekki betur en verkamenn hafi haft fullkominn yfirráðarétt yfir vinnu sinni og að það sé a. m. k. einhver af fyrstu setningunum í trúarjátningu þessara hv. þm., að verkamenn eigi að hafa frjálsræði um að ráða yfir vinnu sinni, en það eigi að bjóða bændum upp á allt annað, — þeir eigi að koma undir ákvæði gerðardóms um það, hvernig þeirra vinna skuli verðlögð. Já, ég vil segja við hv. 8. þm. Reykv.: Hann um það. Ef hann hefur þann hugsunarhátt, að hann vill hafa mismunandi rétt handa mönnum eftir því, í hvaða stétt þeir eru, þá er gott, að það komi fram, og þá er hann búinn að gera sig beran að því að stuðla að ranglæti í þjóðfélaginu. Þess vegna skora ég á hann að koma með till. um vinnulöggjöf, þar sem sett verði hliðstæð ákvæði um það, hvað bændur annars vegar og verkamenn hins vegar eiga að fá fyrir vinnu sína, þannig að þar séu sett ákvæði um það, hvernig vinnulaun verkamanna skuli vera metin, hliðstæð við það, sem sá hv. þm. hefur sett hér fram í þessu frv. um það, hvernig vinnulaun bænda skuli metin.

Hv. 8. þm. Reykv. var enn fremur að ræða um það, að bóndanum væri vinnsla og dreifing mjólkur og mjólkurafurðanna í raun og veru óviðkomandi, þar sem nú væri búið að ákveða honum visst verð fyrir mjólkina. Þessum hv. þm. ferst nú helzt að tala um þetta ákveðna verð, sem bóndinn eigi að fá fyrir afurðir sínar! Þessum mönnum ferst fremur illa slíkt tal, um leið og þeir eru búnir að viðurkenna, hvaða verð bóndinn eigi að fá fyrir afurðir sínar, og eru búnir að láta mann frá sér vera með í samningum um þessa hluti, sem viðurkenna þá samninga með undirskrift sinni, há hlaupa þeir svo fljótt frá því samkomulagi sem þeir geta og skrifa í blað sitt fyrir fáum dögum, að bóndinn þyrfti að fá þetta fyrir vörur sínar, sem þeir skrifuðu undir, að hann fengi, en það hafi bara ekki verið meining þeirra, að hann fengi það. Það er víst gott fyrir bændur að fá svona yfirlýsingar frá þessum mönnum. Það er ekki ónýtt fyrir þá að byggja búskap sinn á þess háttar hlutum. Þó að jafnvel væri við menn að eiga, sem stæðu við samninga sína um að fá bændum það verð fyrir framleiðsluvörur sínar, sem samkomulag landbúnaðarvísitölun. komst að niðurstöðu um, eða síðar hliðstætt samkomulag, þá er það ekki nóg fyrir bændur, ef þeir hafa aðeins aðstöðu til þess að selja það af framleiðsluvörum sínum, sem vissum bæjum á landinu, Reykjavík, Akureyri eða öðrum kaupstöðum, þóknaðist að taka og nota, ef þeir svo eru ráðalausir með afgang framleiðsluvaranna á hverjum tíma. Það er svo mestan hluta ársins, að það er mikið vörumagn af framleiðslu bænda, sem verður að vinna fyrir aðra staði á landinu en aðalverzlunarstaðina fyrir vörurnar á hverju verðlagssvæði og einnig til útflutnings í stórum stíl. Og hvernig væru bændur settir með þann hluta vara sinna, ef þeir hefðu ekki mjólkurstöðvar sínar og sláturhús sín? Ég sé ekki, að annað lægi þá fyrir baendum að gera við þann afgang en hella mjólkinni niður og fleygja kjötinu í sjóinn, sem frystihúsin gætu ekki tekið á móti. En það kemur fram hér nákvæmlega sami hugsunarháttur og í blaði hv. 8. þm. Reykv., að þeir hafi aldrei ætlað sér annað en finna, hvað bændur þyrftu að fá, til þess að neytendur í kaupstöðum þyrftu aldrei að kaupa vöruna hærra verði en því, sem bændurnir þyrftu að fá fyrir hana. Þó að bændur svo þurfi að fá sama verð fyrir aðrar vörur sínar en þær, sem kaupstaðarbúar þurfa að nota, þá er þeim sama, hvað um þá vöru verður, bara ef bændur fá ekki sanngjarnt verð fyrir hana og vinnslustöðvarnar eru í höndum neytendanna. Mér þætti gaman að sjá, hve lengi varan kæmi með þessu móti nægilega mikil á markaðinn handa þeim, sem þannig hugsa og vilja búa þannig að framleiðslunni í þessu landi.

Þá var hv. þm. að láta skína í, að það, sem bændur hefðu lagt til hliðar til þess að koma upp nýrri mjólkurstöð, væri allt frá neytendum tekið og þeir hefðu því enga heimild til að ráðstafa því. Í öðru orðinu eru bændur skammaðir fyrir það, að ekki séu nægilega fullkomin skilyrði til mjólkurvinnslu, á meðan nýja stöðin er ekki komin, en í hinu er þeim legið á hálsi fyrir að vilja koma upp mjólkurstöðinni og leggja fé til hliðar í því skyni, þó að í l. segi skýrum stöfum: „Tekjuafgangur mjólkursölu skal renna í verðjöfnunarsjóð, eftir að nauðsynlegar afskriftir hafa farið fram og aðrar greiðslur, er stj. telur nauðsynlegar“. Þetta ákvæði er sett inn í l. sérstaklega með það fyrir augum, að féð verði notað til að koma upp nýrri mjólkurstöð. Og svo kemur hv. þm. með þá staðhæfingu, að allt þetta fé sé tekið frá neytendum, eftir að búið er að ákveða verðlagið með samþ. fulltrúa neytenda. Vitanlega hafa bændur oft haft þörf fyrir þá peninga, sem lagðir voru þannig til hliðar, en þeir kusu þó heldur að neita sér um þá til þess að geta ráðizt í þessar framkvæmdir. Það er annars einkennilegur hugsunarháttur, að þegar búið er að greiða peninga fyrir ákveðna vöru, þá eigi greiðandinn peningana eftir sem áður. Það er eins og ef verkamaður legði nokkur % til hliðar af kaupi sínu til að koma sér upp húsi og svo væri sagt: Það er vinnuveitandinn, sem á húsið, verkamanninum hefur verið greitt of mikið fyrir vinnuna. Ég skil yfirleitt ekki, að hægt sé með nokkru móti að fá féð öðruvísi en fyrir selda vöru og ég hef alltaf heyrt, að sannvirði vörunnar væri eign þess, sem seldi hana, en ekki hins, sem keypti. Það getur verið, að þetta sé austur í Rússíá, en ég hef ekki heyrt því haldið fram í okkar þjóðfélagi.

Hv. þm. Hafnf. var að tala um það í dag, að vísu með mun minni rembingi en áður, hve miklu væri áfátt í þessu efni, og hann vildi, enn að nýju, rengja þær tölur, sem fyrir liggja. Þegar ég upplýsi, að mjólkurmagnið hafi verið 6,3 millj. lítra 1934, þá segir hann, að þar að auki hafi mikið verið selt í lausasölu. Þetta er ekki rétt. Það var ekki svo mikið magn, sem kom til mjólkurbúanna, heldur er hér innifalin öll sú mjólk, sem hægt var að ná til þetta ár, einnig sú, sem seld var utan mjólkurbúanna á þessu svæði.

Þá viðurkennir hv. þm. Hafnf., að mjólkurmagnið hafi aukizt mikið, síðan skipulagið gekk í gildi. Hann segir, að aukningin hafi verið mest á svæðunum lengst í burtu, en minnst á svæðinu næst Reykjavík, þó að hv. 2. þm. N.-M. upplýsi reyndar, að aukning hafi einnig orðið mikil þar. Hv. þm. Hafnf. segir, að skipulagið hafi haft þau áhrif að draga úr mjólkurmagninu á svæðunum næst Reykjavík, þar sem það ætti að vera mest, en auka það á svæðunum, sem eru fjærst. En hann gætir ekki að því, að svæðin í Gullbringu- og Kjósarsýslu höfðu búið að bezta markaðinum áður og voru sennilega komin í hámark bæði með ræktun lands og mikilli fóðurbætisgjöf og því erfitt að fá fram frekari aukningu. Það er því skiljanlegt, að aukning yrði minni á þessu svæði, þar sem búið var að pína framleiðsluna upp eins og hægt var, en þar, sem enginn fóðurbætir hafði verið notaður. Af þessu stafar meðal annars það, sem fram kemur í skýrslu Stefáns Björnssonar og 2. hv. þm. N.-M. las upp, að mjólkurgæðin fari minnkandi eftir því, sem kýrnar eru þvingaðar til að mjólka meira með aukinni fóðurbætisgjöf.

Þá segist hv. þm. Hafnf. hafa séð undarlega hluti, er hann skyggndist í plögg Mjólkurbús Hafnarfjarðar, sem ég bað hann að gera. Hann kveðst hafa komizt að þeirri undarlegu niðurstöðu, að mjólkurbúið hafi ekki fengið í haust nema ¾ af því magni, sem það var vant að fá áður. En það er ekkert sérstaklega undarlegt, þó að dregið sé úr mjólkursölu til Hafnarfjarðar, þegar mjólkursalan í Reykjavík er komin upp í 28 þús. lítra á dag, sem aldrei hefur átt sér stað fyrr, en minnkar svo raunar niður í 23 þús. lítra í haust. Þetta er mun meira en selt var í fyrra haust, og er eðlilegt, að dregið sé af Hafnfirðingum, þegar svo er ástatt. Þetta afsannar auðvitað ekki, að það sé rétt, sem við höfum gefið upp, að selzt hafi 4 þúsund lítrum meira nú á dag en í fyrra haust, þegar enginn mjólkurskortur var í bænum. En mér finnst furðulegt, þegar þessi staðreynd er athuguð, að bera skuli á mjólkurskorti í Rvík. Þar verður að leita að skýringum, sem líklegastar þykja, og þær geta ekki verið nema þrjár og kannske bara ein sú rétta. Í fyrsta lagi er sú skýring, að fólkið hafi meira fé en áður og vilji hagnýta sér þessa fæðu sem bezt. Önnur skýringin er sú, að verðið sé nú hagstæðara en í fyrra haust, og svo er líka í raun og veru, því að þá hafði nýlega farið fram verðlækkun, en nú raunveruleg verðlækkun, þar sem ríkissjóður borgar niður mjólkurverðið. Þriðja skýringin er svo sú, að þeir menn, sem staðið hafa að því að æsa upp fólkið út af mjólkurskortinum og borið fram þetta frv., hafi fyrirskipað sínu fólki að kaupa meiri mjólk en það hefði gert annars, í því skyni að reyna að skapa öngþveiti í mjólkurmálunum. Ég skal ekki segja, hver af þessum ástæðum ræður mestu, en einhver þeirra hlýtur að koma til greina með 4 þús. lítra markaði umfram það, sem var í fyrra.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að ekki hefði náðst að meðaltali í Reykjavík 23 þús. ltr. sala, og þetta verður líka að teljast gífurlega mikil neyzla einmitt á þeim tíma, þegar mjólkin er minnst. En þess ber að gæta, að á haustin safnast fólk í bæinn úr ýmsum áttum. Á vorin getur salan aftur minnkað um helming, þegar fólk fer úr bænum og börnin í sveitina. Salan stórminnkar þá, einmitt á þeim tíma, þegar mjólkurframleiðslan er mest. Hv. þm. sagði líka, að ég hefði verið með ýmsar skólaspekingshugleiðingar um það, hvernig gæðin væru. Ég játaði hispurslaust, að þau væri það atriðið, þar sem erfiðast væri að koma sönnunum við. En það er annað, sem hægt er að sanna, sem sé það, að mjólkurstöðin er undir því strangasta eftirliti, sem nokkur mjólkurstöð er undir gefin eftirliti gerlafræðings, heilbrigðisstjórnarinnar, jafnvel lögreglunnar, og af hálfu setuliðsins er daglegt eftirlit í mjólkurstöðinni í Reykjavík. Það er vitanlegt, að herstjórnin mundi ekki kaupa mjólkina, ef hún teldi hana skaðlega heilsu hermannanna, og yfirmaðurinn þar hefur lýst yfir því, að hann teldi mjólkina mjög góða vöru og neytti hennar daglega sjálfur. En hv. þm. hélt því fram, að mjólkin væri orðin svo vond, að setuliðið hefði neitað að kaupa hana, og hinu sama hélt flokksblað hans fram. Hins vegar var því svo haldið fram í haust, af því að það hentaði betur vegna mjólkurskortsins, að setuliðið fengi of mikla mjólk keypta, og er borin fram till. um að banna að selja nokkurn dropa til setuliðsins. Hér er jafnvel gengið svo langt að leggja til, að bannað verði að selja mjólk til sjúkra manna. Ég skal játa, að ég get engan greinarmun gert á því í þessu sambandi, hvort um er að ræða mjólkursölu til sjúkrahúsa erlendra eða innlendra manna. Annars hef ég sjaldan skemmt mér betur en þegar hv. þm. kom að því, að ástandið í nokkrum mjólkurbúðum væri svo herfilegt, að loka yrði þeim, ef ekki yrði úr bætt fyrir 1. desember. En þá kom í ljós, er ég fór að rannsaka málið, að þetta voru allt mjólkurbúðir Alþýðubrauðgerðarinnar. Það kemur m. ö. o. í ljós, að það er flokkur hv. þm., sem á þessar búðir, er reynast ekki færar um að selja mjólk. Honum mun ekki hafa verið þetta kunnugt áður, því að honum varð auðsjáanlega bilt við, þegar á þetta var bent. Það voru sannarlega hlægilegar skýringar, sem hann kom með í þessu sambandi, og ég sárvorkenndi honum að verða nú að kyngja þessu, eftir að hann hafði borið á okkur, að ekkert fengist um bætt í mjólkurbúðum samsölunnar. Hann sagði, að búðir þessar hefðu aldrei verið löggiltar nema til að selja mjólk á flöskum, en forstjóri þessa fyrirtækis hefur nú verið í stj. samsölunnar þangað til í sumar, og með hans samþ. hefur verið seld mjólk í lausasölu í þessum búðum frá byrjun. Vill nú hv. þm. saka forstjórann um, að hann hafi þverbrotið l. allan tímann? Slíkar ásakanir hef ég ekki borið á hann og trúi því ekki, þó að ég geti trúað ýmsu á þessa menn, bæði af gamalli og nýrri reynslu. Hv. þm. vill gefa í skyn, að þar sem samsalan hefur ekki tök á að selja mjólk á flöskum, sé það henni að kenna, hvernig þessar búðir Alþýðubrauðgerðarinnar eru. Þó veit hann, að forstjóri Alþýðubrauðgerðarinnar hefur verið í samsölustj. frá byrjun, og honum er kunnugt um, að maður var sendur til Ameríku, eini sérfræðingurinn í þessum málum, sem við eigum, í því skyni að útvega vélar, svo að hægt yrði að halda áfram að selja mjólkina á flöskum. En það reyndist ókleift að fá þessar vélar. Það er ekki að miða við Akureyri, þar sem ekki þarf að loka nema svo sem 3 þús. flöskum á dag. Þetta er hægt að gera með handvél, en slíkt kemur ekki til mála hér, þar sem loka þyrfti 30 þús. flöskum á dag eða upp undir það.

Það, sem ég hneykslast mest á hjá hv. þm. Hafnf., er það, að hann ber á okkur þungar sakir fyrir að hafa ekki bætt úr neinu, en lætur sem hann og samherjar hans standi fremstir í flokki um að lagfæra hlutina, þó að það komi svo í ljós, að sá litli hluti mjólkurbúða, sem þeir ráða yfir, 4 búðir hér í Reykjavík, eru í slíku ásigkomulagi, að loka verður þeim fyrir 1. des., ef ekki verður um bætt, þar sem engar af okkar búðum koma undir það, og síðan reynt að láta skína í það, að mjólkursamsalan eigi sök á þessu.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að samanburður minn, að því er snerti verðið til neytenda nú og áður, væri ekki réttur. Þó að ég segði, að hægt væri að kaupa meiri mjólk nú en 1934 fyrir einnar vinnustundar kaup, þá bæri þess að gæta, að verðið til bænda hefði sex- eða áttfaldazt. En hefur ekki verkamannakaupið hækkað gífurlega líka? Ég hélt, að svo væri til ætlazt, að kjör bænda væru ekki lakari en verkamanna hlutfallslega, en eins og nú er komið, fá bændur tiltölulega ekki eins mikið fyrir hvern lítra mjólkur og verkamenn fyrir hverja vinnustund. Þetta hefur verið sannað af n. þeirri, sem sett var til að athuga þessi mál. Þó að ýmsir aðilar reyni að svíkja það samkomulag, sem náðst hefur, og hlaupa frá því, hafa bændur fengið það viðurkennt, að þeir hafa gengið skemmra í því að verðleggja vinnu sína en allar aðrar stéttir í landinu. Eigi að síður hafa þeir lengi orðið að liggja undir þeim áróðri, að þeir hafi gengið óhóflega langt í þessu efni.

Hv. þm. Hafnf. minntist á annað atriði, sem hann telur sanna, að mjólkurskipulagið sé eingöngu og einhliða til hagsbóta fyrir framleiðendur, en ekki neytendur. Hann sagði, að íblöndun smjörs í smjörlíki hefði alltaf verið framkvæmd eftir því, hve mikið smjör væri fyrir hendi á hverjum tíma, og að þannig væri horft einhliða á hag framleiðenda. En segjum, að það ætti alltaf að vera eitthvert ákveðið magn smjörs í smjörlíkinu, segjum t. d. 10%. Hvernig ætti þá að fara að, þegar ekki er nægilegt smjör fyrir hendi? Hvernig ætti þá að fullnægja þessu ákvæði um íblöndunina? Mér sýnist óskiljanlegt, að það sé hægt.

Hitt atriðið, sem hann ræddi um líka í þessu sambandi, voru l. um þurrmjólkurvinnslu, sem voru samþ. 1937. Það sagði hann, að hefði átt að vera gert sérstaklega fyrir framleiðendur. Nú veit hv. þm., að á sínum tíma lét samsalan fara fram allýtarlega athugun á möguleikum fyrir vinnslu þurrmjólkur, en það var ekki talið æskilegt að leggja fjármagn í það vegna þess, að verð það, sem fékkst fyrir þá framleiðslu, var of lágt. Svo kemur þessi hv. þm. og leggur þetta út á þann veg, að hér sé verið að bera hag neytenda fyrir borð með því að gefa bökurum ekki kost á að fá þurrmjólk til íblöndunar í brauð. Mig furðar nú ekkert á því, þótt fyrirtæki, sem hafa hagnazt svo vel, að þau hafa ráð á því að láta reisa nú á þessum tímum annað eins stórhýsi og það, sem Alþýðubrauðgerðin er að láta reisa núna, hafi efni á því að blanda lítils háttar þurrmjólk í brauð án þess að hækka verð þeirra. Ef brauðsalar hefðu viljað blanda þurrmjólk í brauð, þá hefur þeim líka staðið það opið alla tíð, því að samsalan hefur alltaf mælt með því að flytja inn þurrmjólk, svo að ef brauðsalar hefðu viljað bera hag neytenda sérstaklega fyrir brjósti, þá stóð þeim það opið. Það má því segja, að hér hafi hv. þm. seilzt heldur langt til raka og það í hluti, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum.

Þá minntist hv. þm. á það, að mjólkurbú Hafnarfjarðar hefði ekki getað fengið nóga mjólk, þótt mjólkurstöðin hér hafi verið yfirfull. Nú greip ég þá fram í fyrir honum og spurði, hvernig á þessu stæði, og hann sagði, að það væri af því, að framleiðendur fengju ekki að láta mjólk sína þangað. En ég veit, að það er af því, að þeir hafa ekki viljað skipta við mjólkurbúið í Hafnarfirði, og þó hefur samsalan hvatt bændur þarna syðra til þess að skipta einmitt við það bú. Það er líka vitað, að það bú hefur verið talið lítt nothæft, tæki þess eru svo léleg, að það hefur verið kvartað undan því í mín eyru, hve varan þaðan væri slæm. Og það hefur gengið svo langt, að búið varð um tíma að hætta að gerilsneyða mjólkina og senda hana ógerilsneydda út til neytenda og brjóta þannig lögin, og það hefur sennilega verið á vitorði hv. þm. Hafnf.

Það var helzt að skilja á þessum hv. þm., að það eina, sem gæti komið að gagni fyrir Hafnarfjarðarbúið, væri það að losna úr skipulaginu eins fljótt og unnt væri. Og ég óska þess eindregið, að skipulagið losni við búið eins fljótt og unnt er, og ég vil biðja hv. þm. að skila því frá mér, að ég skuli styðja það af öllum mætti, að búið geti losnað úr skipulaginu, ef þess er óskað, því að búið hefur verið til stórbyrði fyrir skipulagið, sem hefur þurft að borga 17½ eyri með hverjum lítra, sem fer í Hafnarfjarðarbúið. Mér væri því sönn ánægja að því að losna við það úr skipulaginu, og ég vænti þess, að hv. þm. Hafnf. komi þessum skilaboðum áleiðis, ef honum er svo annt um að losa búið úr þessum fjötrum sem hann lætur.

Hv. þm. sagði, að það væri víst, að hér væru miklar kvartanir yfir mjólkursölunni, en á Ísafirði og Akureyri — þar væru engar kvartanir. Mér segja þó allt annað menn, sem eru nýkomnir frá þessum stöðum. Vestur á Ísafirði er nú mjög tilfinnanlegur skortur á mjólk, og sama sagan heyrist frá Akureyri. En það er alltaf gott að vitna í staði, sem eru langt í burtu, þótt menn hafi ekkert til þess að sanna mál sitt með, í trausti þess, að aðra skorti kunnugleika til þess að hrekja staðhæfingarnar. Það er úrræði þeirra, sem vilja ekki kryfja málin til mergjar og vantar rök. Þetta minnir mig á frambjóðanda, sem ég var eitt sinn með á fundum. Hann sagði, þegar hann var austantil í héraðinu: „Ég veit, að þið eruð ekkert hrifnir af mér hérna, en þeir þarna vestantil í héraðinu, — þeir fylgja mér“. Þegar hann svo kom í vesturhluta héraðsins, þá sneri han við blaðinu, þá voru þeir þarna austurfrá hans vinir. Það er alltaf þægilegt að bregða fyrir sig svona rökum.

Ég hefði gaman af því að fá hingað allmargt fólk vestan af Ísafirði til þess að bera vitni um ástandið í mjólkursölumálunum þar, og ég hefði gaman af að heyra frá Hafnfirðingum, þegar þeir eru búnir að fá lausn í náð, hvort þeir verða alltaf ánægðir.

Hv. þm. endaði ræðu sína með borginmannlegum hótunum. Af því að rök hans voru harla bágborin, þá ætlaði hann nú að ná sér upp og sagði, að það eina, sem væri eftir fyrir kaupstaðarbúana, væri það að láta verkin tala og þá skyldu þeir sjá til, hvernig syngi í mér, þótt ég væri nú brosandi að orðum hans. En ég mun brosa enn þá meira, þegar Hafnfirðingar eru búnir að láta verkin tala. Þessi hv. þm. mun hafa átt eina kú, en honum mun hafa fundizt það borga sig betur að eiga hana ekki nú síðustu árin, og ég er ekkert að lá honum það. Það mun verða mér til mikillar gleði, ef þessi hv. þm. fer að koma upp og reka kúabú í stórum stíl og birgja kaupstaðina að mjólk og öðrum landbúnaðarafurðum. Við getum þá ef til vill haft gott af því líka þarna fyrir austan fjall. Við getum þá hætt við okkar búrekstur og farið að stunda iðnað eða eitthvað þess háttar, ef við getum gengið mjólk frá hinum ágætu kúabúum hér í kaupstöðunum. Við getum þá alveg skipt um hlutverk við kaupstaðabúana, — þeir taka að sér framleiðslu landbúnaðarafurðanna og við tökum þá að okkur eitthvað af störfum þeirra í staðinn. Við bændur óttumst sannarlega ekki þá tíma. Það er aðeins eitt, sem við óttumst í því sambandi, og það er, að þeir renni alls ekki upp, og ég skora á hv. þm. Hafnf. að standa við orð sín í þessu máli. Ég vil svo aðeins segja honum það að síðustu, að ef fara á að haga sér eins og hann og hv. 8. þm. Reykv. hafa gert, að vera með dylgjur, hótanir og svívirðingar í garð bænda, þá getur skeð, að þessi stétt fari einnig að láta verkin tala, og það gæti skeð, að það yrði ekki sem þægilegast fyrir þessa menn, og það verður þeim sjálfum að kenna, ef þeir láta koma til átaka um þessi mál. Ef bændur eiga að liggja undir þessu til lengdar, þá verða það þessir menn, sem bera ábyrgð á afleiðingum þess.