11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

90. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er till. um smávægilega breyt. á l. um búreikningaskrifstofu ríkisins, sem komið hefur í ljós, að er nauðsynleg.

Þegar skipuð var n. til þess að reyna að finna grundvöll fyrir verðvísitölu landbúnaðarafurða á síðasta þingi, þá var fyrirsjáanlegt, að sú n. þyrfti nauðsynlega annað hvort sjálf að útvega sér búreikninga til þess að leggja til grundvallar fyrir athugunum sínum eða þá að fá búreikninga annars staðar að. Þá var vitað líka, að búreikningaskrifstofa ríkisins hefði verið starfrækt frá því árið 1936. Og það kom á daginn, að verk þessarar n. hefði verið óvinnandi, ef nm. hefðu ekki haft þau gögn, sem búreikningaskrifstofan hafði. En það kom fram að ýmsu leyti, að ekki var gengið svo frá búreikningunum þar, að fullnægt gæti þeim kröfum, sem gera þyrfti til skrifstofunnar, þegar eins mikið er lagt upp úr starfi hennar og gert var, þegar n. lagði það til grundvallar niðurstöðum sínum. Og það er tilgangur frv. að laga það.

Það er nú svo, að niðurstöður þessara búreikninga eru yfirleitt lagðar til grundvallar verði á íslenzkum landbúnaðarafurðum. Og þá er óeðlilegt, að búreikningaskrifstofan sé undir stjórn þess aðilans, sem telur sig fulltrúa aðeins annars aðilans eða stéttarinnar, af þeim, sem koma til greina um, að samið sé fyrir, þegar ákveðið er verðlag landbúnaðarafurða með tilliti til kaupgreiðslna til stétta. Þessi stofnun, búreikningaskrifstofan, á að vera hlutlaus, en ekki sem fulltrúi einnar eða annarrar stéttar í þjóðfélaginu. Það þarf að koma í veg fyrir, að henni geti missézt vegna of þröngra sérhagsmuna. Ég er ekki með þessu móti að segja, að búreikningarnir séu rangir hjá þessari stofnun eða þar sé hallað réttu máli til góðs fyrir annan aðilann. En það er ekki hægt að slá neinu föstu um það, vegna þess að frumgögn búreikninganna voru ekki lögð fram. N. gat því ekki farið yfir það verk, sem búreikningaskrifstofan hafði unnið, vegna þess að búreikningarnir sem frumreikningar voru týndir eða endursendir bændum og ekki tiltækir.

Í þessu frv. er farið fram á, að búreikningaskrifstofu skuli starfrækja í sambandi við og undir yfirstjórn Hagstofu Íslands og skuli hagstofustjóri fela ákveðnum manni stjórn hennar og leggja honum til aðstoð og starfsfé, svo sem nauðsyn ber til. Og ég hygg, að með þessu móti mundi verk búreikningaskrifstofunnar verða eitthvert þýðingarmesta mál og nauðsynlegasta fyrir landbúnaðinn.

Það segir sig sjálft, að hagstofustjóri verður að fela einhverjum ákveðnum manni stjórn og framkvæmdir í þessu efni. Og það er ekki meining okkar flm. að breyta í nokkru til um starfsmannahald skrifstofunnar.

Í 2. gr. frv. er ákvæði um það, að allur kostnaður við rekstur skrifstofunnar verði greiddur úr ríkissjóði, eins og gert er nú, en að á því verði hafður annar háttur en verið hefur, að búnaðarfélög greiði ákveðnar upphæðir.

Þá eru sett ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að frumgögnum búreikningaskrifstofunnar verði fyrirfarið á einn eða annan hátt. Og hér er því lagt fyrir, að hagstofustjóri varðveiti búreikninga, sem búreikningaskrifstofunni berast, og önnur gögn hennar, þannig að þau séu ávallt tiltæk, ef einstaklingar, ríki eða alþingisnefndir þurfa eitthvað á þeim að halda til þess að fá upplýsingar, sem búreikningarnir kynnu að geta gefið.

Ég býst við, að allir séu sammála um, að hér sé um að ræða mjög eðlilega breyt. á fyrirkomulagi búreikningaskrifstofunnar út frá því samkomulagi, sem gert var í landbúnaðarvísitölun., þar sem gera má ráð fyrir, að samkomulagi verði reynt að ná einnig eftir stríðið um verð landbúnaðarafurða eftir sömu leiðum og gert var nú í sumar með starfi n. Ég hef hvergi heyrt því haldið fram, að það hafi verið rangt í „prinsipinu“ að koma á því samkomulagi, sem þar var gert, þannig að tengdir séu saman hagsmunir neytenda og framleiðenda íslenzkra neyzluvara, eins og gert var í þeirri n. Og það þarf að búa svo um hnútana í sambandi við starf þessarar n., að þegar hún endurskoðar landbúnaðarvísitöluna árlega og þann grundvöll, sem hún hefur byggt á, þá geti hún haft sem fullkomnust tæki og upplýsingar um málið, sem hún þarf að fjalla um, svo að hennar niðurstöður geti verið sem beztar. Ég býst við, að allir, sem talið hafa niðurstöður hennar rangar, — og það hafa verið færð sterk rök fyrir því, að þær séu ekki réttar, — telji það hafa verið vegna þess, að hún hafi haft ónóg gögn. Held ég því, að allir geti fallizt á, að þessi leið sé hin öruggasta til að byggja á niðurstöður í þessum efnum.

Ég óska svo, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. að þessari umr. lokinni.