11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

90. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég er að sumu leyti samþykkur þessu frv., en að öðru leyti ósamþykkur því. Ég gleðst yfir því, að hv. flm. sjái ástæðu til þess, að mjög miklu meira fé verði varið til rekstrar búreikningaskrifstofunnar en gert hefur verið og að safnað verði sem beztum gögnum til hennar og sem víðs vegar að eða frá sem flestum. Það hefur ekki verið veitt til hennar nema sem svarar helmingi af launum til eins manns og ekki það, og þetta hefur að ýmsu leyti staðið verkinu fyrir þrifum og sérstaklega í því, að vegna þess hafa allar niðurstöður frá henni komið seinna, verið síðbúnari. En þegar hv. n. fer að athuga þetta mál, sem ég legg til, að verði landbn., þá hygg ég, að hún muni komast að raun um, að þetta er ekki svo létt viðgerðar eins og hv. flm. virðast halda. Það er verið að tala um, að ónógar og ófullkomnar upplýsingar hafi legið fyrir sex manna n. (landbúnaðarvísitölun.), sem orsakað hafi það, að niðurstöður hennar hafi ekki verið réttar, sem hún komst að eftir athugun búreikninganna og með hjálp þeirra: Og í því sambandi er bent á ýmislegt, sem fæst hefur við rök að styðjast. Það er líka talað um, að búreikningarnir hafi verið of fáir, sem n. hafði til athugunar. Þetta er rétt. En ef flm. vissu, hvílíka vinnu forstöðumaður búreikningaskrifstofunnar hefur lagt í það að fá þessa fáu reikninga, og hugleiddu svo, hve margir muni fást, þegar Hagstofa Íslands, sem mundi ekki hafa nema örlítið brot af áhuga núverandi forstöðumanns, hefði tekið við, þá hygg ég, að enginn, sem vill fá reikningana fleiri, muni fylgja þessu frv. Því að hagstofustjóranum ólöstuðum þá mundi hann hvorki hafa kunnugleika né áhuga til þess að vera eins og útspýtt hundskinn um allt til þess að fá menn, sem hafa ólíka aðstöðu, til þess að halda búreikninga og senda búreikningaskrifstofunni, svo það fáist sem bezt yfirlit yfir heildina. Því að það er hvort tveggja, að bændur eru ekki vanir við þessa tvöföldu reikningsfærslu og þeim er óljúft að færa þannig búreikninga sína, og á hinn bóginn hafa þeir líka lítinn tíma til þess oft og einatt. Þess vegna er mjög erfitt að fá menn til þess að gera þetta, og til þess hafa ekki enn fengizt nema 40 menn. Og ég veit ekki, hvort það er nokkuð valtara að byggja á búreikningum 40 manna, eins og sex manna n. gerði með landbúnaðarverðið, heldur en að byggja á útgjaldareikningum 40 manna hér í Reykjavík niðurstöður til að finna eftir framfærsluvísitöluna, eins og gert er af kauplagsn. Þetta síðar talda er álitinn nógu traustur grundvöllur til þess að slá því föstu, að meðalheimili á landinu eyði nákvæmlega eins og meðalheimili þessara 40 í Reykjavík og hafi því sama framfærslukostnað og þess háttar, og mér dettur ekki í hug að segja, að svo sé ekki. En mér finnst, að þeir menn, sem þykja búreikningarnir hafa verið allt of fáir, sem sex manna n. lagði til grundvallar undir niðurstöður sínar, megi athuga það, að það eru byggðar alveg eins þýðingarmiklar niðurstöður á framfærsluvísitölunni, sem byggð er á útgjöldum 40 fjölskyldna hér í Reykjavík, eins og ég hef tekið fram, þar sem gert er ráð fyrir, að meðaltal þessara 40 fjölskyldna í Reykjavík sé í þessu tilliti það sama og meðaltala allra fjölskyldna á landinu jafn stórra. Þessar 40 fjölskyldur í Reykjavík eru tiltölulega færri, miðað við húsfeður, en þessir 40 bændur, miðað við bændur alla.

Ég legg til, að landbn. fjalli um þetta frv., af því að ég geri ráð fyrir, að þar sé miklu meiri kunnugleiki á þessum málum. En ef þetta er lagt undir hagstofuna og hún skyldi svo ekki hafa þrotlausan áhuga á að afla búreikninga, og ég álít, að hún hafi hann ekki nægilega mikinn, þá munu ekki líða nema fáein ár, þangað til ekki einn einasti búreikningur kemur til athugunar frá bændum til búreikningaskrifstofunnar. Þess vegna álít ég það sama sem að drepa þessa viðleitni til að afla búreikninga, ef þetta frv. verður samþ. Guðmundur Jónsson á Hvanneyri, sem annazt hefur búreikningaskrifstofustörfin, hefur þrotlausan áhuga á að afla búreikninga. Hann hefur staðið í sambandi við unga menn, sem hann fær til aðstoðar í þessum efnum, og sex manna n. hefði aldrei fengið búreikninga til þess að geta athugað þá, ef hans starfs í þessu hefði ekki notið við. Þess vegna tel ég, ef þetta búreikningahald og söfnun reikninganna er slitið úr þeim tengslum við búreikningaskrifstofuna eins og hún er starfrækt nú, að það sé til hins verra og verði sennilegast til þess að eyðileggja þessa árangursríku viðleitni. Hins vegar teldi ég betra að veita miklu meira fé, til þess að sá sami maður, sem hefur haft þetta starf með höndum, Guðmundur Jónsson, geti unnið enn meiri fróðleik úr þeim búreikningum, sem hann safnar, og gert þá almenningi kunna fyrr.