18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

97. mál, flugvellir, flugvélaskýli og dráttarbrautir fyrir flugvélar

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Hv. þm. V.-Sk. kveðst vísa í grg. okkar flm. til þeirra ummæla, að ekkert hafi verið gert í nauðsynlegri rannsókn. En hann benti aðeins á vissan kafla í henni og fór ekki lengra en honum gott þótti. Vil ég endurtaka, að undirbúningur hefur farið fram.

Við flm. gerum ekki ráð fyrir störfum flugmálaráðuneytis, heldur, að vegamálaskrifstofan taki þessi mál fyrst um sinn að sér, og erum við fyllilega viðmælandi um þessa hlið málsins.

Við teljum vegamálastjóra ekki ofhlaðinn störfum. Þótti mér vænt um, að hv. þm. V.-Sk. batt ummæli sín nú við það atriði, að þessi embættismaður væri ofhlaðinn störfum, og er það afsláttur frá fyrri fullyrðingum.

Hæstv. atvmrh. lýsti yfir, að flas væri ekki til fagnaðar. Veit ég ekki, hvort við flm. höfum átt að taka það til okkar. Hitt hefði ég kosið, að nokkru hraðar gengi framkvæmd þeirrar till., sem ríkisstj. var falin á síðasta Alþingi. Ég mundi ekki harma, þótt meira hefði verið gert í því máli. — Þá sagði hann, að framkvæmdir í þessum efnum hefðu verið gerðar fyrir atbeina ráðuneytisins. Um það atriði brestur mig kunnugleika til að dæma. En ég hef ekki fengið yfirlýsingu, sem styður þá yfirlýsingu hv. ráðherra.

Mér þótti vænt um að heyra um áhuga ráðherrans og vona, að hann birtist í því, að hann sýni nú meiri áhuga í að sinna frv. því, sem síðasta Alþ. fól ráðuneytinu á hendur.

Ég tel það vandsagt, að gengið sé fram hjá stjórn flugfélagsins, þegar rætt er við forstjórann. Fæ ég ekki séð annað en að við þrír þm. höfum gert rétt, þegar við leituðum upplýsinga hjá formanni félagsins. Það fer svo fjarri því, þegar við flm. leituðum ráða og upplýsinga hjá þessum tveimur mönnum, að við viljum með því ganga fram hjá öðrum stjórnarmeðlimum félagsins, og það er aðeins misskilningur hjá hæstv. atvmrh., ef hann hyggur, að svo sé. Við viljum hafa sem mesta samvinnu um þetta mál við alla, sem unna framkvæmdum í þessum málum.

Ég ætla ekki að fara að ræða mikið um það, hvort einstakur maður, sem hæstv. ráðh. nefndi, muni vera frumkvöðull þessa máls hér á landi. Ég hygg þó, að aðrir menn hafi komið á undan honum sem áhugamenn í þessum málum hér. Ég tel það ekki hlut, sem skipti máli að ræða hér. Og ég vil láta það koma enn skýrar fram en hér hefur komið nú, að þó að samráð hafi verið haft um þetta mál af flm. þess við formann flugfélagsins og framkvæmdastjóra þess, þá viljum við hafa samráð við alla stjórn flugfélagsins um þessi mál. En sú stjórn er ekki öll búsett hér í Reykjavík, ef ég man rétt, og það eru nokkrir örðugleikar á því fyrir okkur alþm. að hafa jafnfullkomin samráð við menn, sem eru ekki búsettir í bænum, eins og þá, sem í bænum eru.

Ég get tekið undir það með hæstv. atvmrh., að það sé nauðsynlegt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, athugi það gaumgæfilega. Og þar sem sá hæstv. ráðh. nefndi sérstaka staði, sem að hans áliti vantaði í 1. og 2. gr. frv., þá vil ég svara því sama til og ég svaraði hv. þm. V.-Sk., að vissulega getur svo farið í framtíðinni og jafnvel á þessu þingi, að fjölmargir fleiri staðir verði teknir upp í l. en í frv. eru nú. En það er reynslan, að þróun slíkra mála er sú, þ. e. a. s. samgöngumálanna, að fleiri og fleiri staðir eru teknir upp í löggjöfina, og þannig hygg ég, að fleiri og fleiri staðir í byggðarlögum landsins verði einnig að þessu leyti teknir upp í l. um flugvallagerð og þess háttar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Ég get að vissu leyti verið þakklátur fyrir þær undirtektir, sem það hefur fengið við þessa 1. umr., bæði frá hv. V.-Sk. og hæstv. atvmrh. Þeir hafa báðir verið sammála okkur flm. um það, að flugmálin séu einhver hin mestu framtíðarmál okkar varðandi samgöngur í þessu landi. Og það, sem mestu máli skiptir í þessum efnum, er það, að um slík mál, sem almenningur er sammála um, að horfi til heilla fyrir þjóðina, sé sem bezt samvinna. Og það er von okkar flm. frv., að í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og á hæstv. Alþ. verði sem allra bezt samvinna um málið og sem farsælust lausn þess náist á Alþ.