11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

128. mál, iðnskólar

Frsm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Síðast þegar um þetta frv. — var rætt, lýsti hv. þm. V.-Húnv. þeirri till. sinni, sem nú hefur komið fram á þskj. 375, undir a-lið brtt. Og ég lýsti þá yfir fyrir mitt leyti, að ég gæti fallizt á hana, enda hafa þeir nm., sem ég hef átt tal við um þetta í iðnn., tjáð mér, að það hafi einnig vakað fyrir þeim sá háttur, sem hv. þm. V.-Húnv. gerir ráð fyrir í brtt. sinni. — B-liður brtt. hv. þm. V.-Húnv. er aftur nýr. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að sú brtt. verði einnig samþ., því að það er rétt hjá þeim hv. þm., að endurbætur og aukning húsnæðis og annars, sem þarna er nefnt, heyrir frekar til stofnkostnaðar en rekstrarkostnaðar og kemur þá vitanlega undir þá skiptingu. sem stofnkostnaður fellur undir, þegar um hann er að ræða. Ég sé sem sagt ekkert því til fyrirstöðu, að þessar brtt. hv. þm. V.-Húnv. verði samþ.

Aftur á móti teldi ég ekki heppilegt, að brtt. á þskj. 372 yrði samþ. Hv. þm. Siglf. færði fram sem aðalrök fyrir þeirri brtt., að iðnaðarmannafélög væru ekki alls staðar til á viðkomandi stöðum, en aftur á móti væri önnur stofnun þar til, sem sé iðnráð, sem víða væri til þar, sem iðnaðarmannafélög væru ekki starfandi. Eftir minni reynslu og þekkingu á þessu er þetta alveg öfugt. Það er til fjöldi staða, þar sem iðnaðarmannafélög eru starfandi, en engin iðnráð, t. d. í Keflavík og á öðrum fleiri stöðum þar nálægt. Þar hafa íbúarnir iðnaðarmannafélög, sem telja nálega alla iðnaðarmenn þeirra viðkomandi staða, en iðnráð eru þar ekki, því að ákvæðin um þau munu í l. ver a bundin við kaupstaðina. En iðnaðarmannafélög eru víða starfandi, og þau hafa hingað til haft með þetta að gera, og ég sé ekki ástæðu til að breyta þessu. Iðnaðarmannafélögin hafa undantekningarlaust rekið þá iðnskóla, sem reknir hafa verið hér á landi, en iðnráðin hafa ekki gert það. Enda er eðlilegt, að svo sé, þegar athugað er, hvernig iðnráð eru byggð upp, því að þar kemur ekki fram réttur spegill af vilja iðnaðarmanna, þó að þau samþ. eitthvað, því að þar kemur fram til atkvæða einn fulltrúi frá hverri iðngrein á svæðinu, sem iðnráðið er fyrir á hverjum stað, hvort sem hver iðngrein er fámenn eða fjölmenn. Þannig hefur einn fulltrúi, sem er fyrir mjög fámenna iðngrein, jafnmikinn rétt í iðnráði og annar, sem er fyrir fjölmenna iðngrein. T. d. á einum stað, þar sem ég þekki til, hefur einn úrsmiður eins mikinn rétt við atkvgr. í þessu iðnráði og fulltrúi húsasmiða þar, en sú iðngrein hefur kannske 30–40 menn innan sinna vébanda. Ég tel það því ekki gefa betri mynd af vilja iðnaðarmanna á hverjum stað að láta slíkt iðnráð taka ákvarðanir en ef iðnaðarmannafélög á staðnum segðu sitt álit, heldur mundi iðnráð miklu fremur gefa ranga mynd af vilja þeirra, af því að fulltrúatala í iðnráði er ekki bundin við félagsmannafjölda eða fjölda þeirra manna, sem iðnað stunda yfirleitt, heldur við fjölda iðngreina. Og af því að þessu er þannig farið og einnig af því að iðnaðarmannafélögin hafa haft þetta mál með höndum hingað til, sé ég enga ástæðu til, að þessu verði breytt.