06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2531)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem flutt er af 15 þm., er stórvægilegri en þm. ef til vill fást til að gera sér grein fyrir. Það hafa komið fram hjáróma raddir um sanngirni þessa málefnis, og eru þeir þó fleiri, sem eru stuðningsmenn þess. Það munu allir á sama máli um, að tryggt vegarsamband milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins sé höfuðnauðsyn. Hitt er meira álitamál, hvernig framkvæmdum eigi að haga og í hverju rannsókn þessa máls eigi að vera fólgin. Það eru margar skoðanir á því máli, þótt þessi till. fari einkum fram á, að ríkisstj. láti fara fram rannsókn á því, hvað kosta mundi að gera steinsteyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun. Það virðist stórt spor stígið til samgöngubóta, ef hægt væri að gera steinsteyptan veg á þessari leið.

Ég segi fyrir mitt leyti, að mér virðist síðari liður till. vera meginatriðið. Það er nauðsynlegt að athuga hugsanlegar breytingar á legu og gerð vegarins. Eins og kunnugt er, eru snjóalög mikil á þessari leið, og tekur stundum fyrir samgöngur. Verður því flestum að spyrja, hvort ekki sé hægt að leggja veginn annars staðar. Þetta álít ég meginatriði og jöfnum höndum að gera veginn góðan, steinsteyptan.

Ef hv. ríkisstj. sæi sér fært að taka að sér þessa rannsókn í sambandi við vegamálastjóra, ætti ekki að líta of bókstaflega á till. þessa. Ég álít, að það beri að rannsaka einnig, hvort vegurinn hérna megin við Svínahraun er kominn á þann stað, sem hann er öruggur í framtíðinni. Þegar um þetta er rætt, verður það álitamál, hvar vegurinn ætti að liggja yfir Hellisheiði.

Það er táknrænt, hvað margir þm. standa saman að þessari till., þm. Suðurlandsundirlendisins og þm. Reykvíkinga. Framleiðendur austan fjalls og neytendur hér í borginni finna til sameiginlegra, ódeildra þarfa.

Vona ég, að þessari till. verði framfylgt af meiri alvöru af ríkisstj. en till., sem ég flutti 1940 og samþykkt var. Ég hef ekki orðið var við, að neitt hafi verið gert í sambandi við hana. Hún hefur verið undir koddanum á þessu tímabili. Af öllum stórmálum, sem hér hafa verið rædd, hefur ekkert á borð við þetta orðið hornreka áratug eftir áratug, og má það merkilegt heita. Þetta mál er þannig, að ég vænti þess, að enginn þm. geti gerzt svo djarfur að álíta það sérmál einhvers landshluta. Það er nálægt helmingur þjóðarinnar, sem stendur að þessu máli sem höfuðnauðsynjamáli sínu, hvað snertir flutninga að og frá Reykjavík, Hafnarfirði og öðrum fjölmennum byggðarlögum sunnan Hellisheiðar og fjölmennum og stórum sveitum austan heiðar. Þetta er líka séð fyrir löngu. Það eru liðnir tveir til þrír áratugir, síðan stórhuga menn voru uppi innan veggja Alþ., sem hreyfðu þessum málum. Þá komu þeir menn með till. um það, að lögð yrði járnbraut frá Reykjavík og austur um Suðurlandsundirlendið. En þá komu aðrir og sögðu: „Við höfum ekki trú á járnbraut, en við skulum leggja bílveg þannig, að hann verði fær allan ársins hring. Við skulum byggja yfir hann.“ — Þriðja till., sem kom fram, kom einnig frá stórhuga manni, og lagði hann til, að gerð yrði bryggja á Þorlákshöfn og fullkomnar hafnarbætur fyrir stór skip, en það mundi bjarga Suðurlandsundirlendinu frá því að verða hafnlaust. Þegar þessir menn létu skoðanir sínar í ljós á svona stórbrotinn hátt, þá voru þeir teknir svo alvarlega, að ég hygg, að fáir hafi gerzt svo djarfir að segja: „Á meðan afskekktir landshlutir fá ekki sínar vegabætur, er engin þörf á að bæta samgöngur um þéttbýlar sveitir“. — Nauðsynin á bættum vegasamgöngum um Suðurlandsundirlendið hefur aukizt að miklum mun, en þó er eins og áhuginn og krafturinn til þess að koma málinu áfram, hafi undanfarið dofnað að sama skapi. Menn leyfa sér nú, þótt nauðsynin á bættum vegi hafi aukizt um allan helming, að standa aðgerðarlausir hjá og jafnvel spyrna á móti öllum umbótum í þessu máli.

Ég skal fúslega játa, að það er rétt, að afskekkt byggðarlög eiga fullkominn rétt til þess að fá sitt vegakerfi sem allra bezt, en þá sjá líka allir, hversu mikið nauðsynjamál það er, sem hér er um að ræða, að nær helmingur allra landsbúa geti fengið sitt vegakerfi sem allra bezt, og má segja, að með því sé verið að vinna að heill þjóðarinnar í heild.

Það væri hægt að segja margt fleira um þetta málefni, en ég vil ekki þreyta hv. þm. með því. Það hefur verið rætt um það í sambandi við þessar vegabætur austur yfir fjall að gera vetrarbraut þar, sem snjóléttast væri, hvað sem Hellisheiðarleiðinni liði, til þess að geta farið þar, þegar Hellisheiðin er ófær vegna snjóa. Önnur leiðin er um Þingvöll, en hin um Krýsuvík. Þingvallavegurinn er þegar lagður, og veginn til Krýsuvíkur er verið að leggja. Ég vil fyrir mitt leyti styðja að því, að þær vegabætur verði ekki til þess að valda neinu pexi á hv. Alþ. nú. Með þau mál er komið sem komið er. Ég hef aldrei haft þá trú, að Krýsuvíkurleiðin væri sú leið, sem velja bæri, en það er nú búið að leggja svo mikið fé í þann veg, að ég álít sjálfsagt, að sú vegagerð stöðvist ekki. Þótt ég álíti lítið vit í því að byrja nokkurn tíma á slíkri vegagerð, tel ég enn meiri vitleysu að hætta nú við að fullgera þann veg, sem kominn er svo langt. Það á að ljúka við þá vegagerð, og það er víst, að hún mun gera eitthvert gagn eins og hverjar aðrar samgöngubætur. Sama er að segja um Þingvallaleiðina. Ég sá það, þegar hafin var þessi umr., að hæstv. ríkisstj. var ekki viðstödd, en nú mun einhver af hæstv. ráðh. vera hér og álít ég, að svo ætti að vera, þegar svona stórmál eru til umr. sem þetta. Sú alvara ætti að fylgja, að hæstv. ríkisstj. spyrði upp þann tíma, þegar þau mál eru rædd, til þess að fylgja þeim betur eftir og gera þau að sínu máli.

Ég álít það í raun og veru ekki vera fært neinum einstökum þm. að slá nokkru föstu um það, hver samgöngutæki séu bezt eða hvort hafa skuli yfirbyggðan veg eða þá járnbraut. Ég álít, að það sé aðeins verkfræðinga að segja þar til um. Ég hef enga þekkingu til þess að segja það fjarstæðu, sem Jón Þorláksson taldi heppilegt fyrir 20–30 árum, að leggja járnbraut, þó að slíkt komi ekki til greina nú. En svo koma alltaf fram nýir möguleikar í þessum efnum, sem eru kannske jákvæðir í þessu tilliti, t. d. rafmagnsbraut. En þetta er allt órannsakað mál, sem ætti að fela hæstv. ríkisstj. Ég tel það gott, að þm. Reykv. eiga sinn þátt í að flytja þessa þáltill. sem sitt nauðsynjamál. Mun það vafalaust flýta fyrir framgangi þess og einnig líka sá áhugi, sem kom fram á aðalfundi sýslun. Árnessýslu á síðastl. vori, þar sem samþ. var að vekja áhuga manna til þess að bæta þessar samgöngur sem frekast væri unnt. Ég tel, að það sé nú vaknaður sá áhugi í þessu máli, að ekki sé hægt annað en láta það fá þann framgang, sem það verðskuldar.