06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2539)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú þannig, að þm. Árn. hafa báðir svarað svo rækilega þeim ásökunum, sem hv. þm. Barð. (GJ) bar hér fram síðast, þegar þessi till. var hér til umr., að það er síður ástæða til fyrir mig að taka til máls, en það er þó sérstaklega eitt atriði, sem er óhnekkt, og það er fullyrðing hv. þm. um það, hvað steinsteyptur vegur mundi kosta nú og hvað hann kostaði fyrir stríð. Hann sagði, að slitlagið í veginum fyrir innan Tungu hefði kostað fyrir stríð 1000 kr. m. Það má vera, að þm. hafi orðið mismæli og hafi hann ætlað að selja 100 kr., því að það hefði verið sönnu nær. Ég hef sannanir fyrir því, að lengdarmetrinn í 6 m breiðum vegi kostaði kr. 70.00. Ég hef talað um þetta við tvo menn, sem þekkja þetta mjög vel. Annar þeirra taldi, að það hefði ekki farið yfir 50 kr., en hinn talaði um kr. 70.00, og ég held, að hann hafi þekkt það betur. Nú er það rétt, að það mun vera 5 sinnum dýrara núna að leggja veg en það var fyrir stríð, og þá ætti lengdarmetrinn að vera kr. 350.00 í staðinn fyrir kr. 5000.00, eins og hv. þm. Barð. (GJ) sagði. Hér skakkar svo miklu, að ekki er hægt að láta því ómótmælt, og er það undarlegt, að þm. skuli fleipra með annað eins og þetta. En ég tel, að það muni fremur vera af vangá og fljótfærni en að það sé vísvitandi gert.

Þm. bar þá fyrirspurn fram til okkar flm., hvort það væri meining okkar að knýja fram fjárveitingu til þessarar vegagerðar, áður en önnur héruð, sem verr stæðu, hefðu fengið úrbætur. Ég get sagt fyrir mitt leyti og ég hygg fyrir hönd allra flm., að það er meining okkar að fá fjárframlög til þessarar vegagerðar, ef það er álitið rétt að steypa veginn, áður en búið er að leggja vegi út á öll annnes og um allar byggðir landsins. Það er ekki, eins og hv. þm. Barð. (GJ) segir, að við ætlum að leggja á móti því, að héruð eins og Barðastrandarsýsla fái réttmætar samgöngubætur, en það verður ekki þolað, að höfuðstaðurinn og sýslurnar fyrir austan heiði séu sama sem án samgangna yfir vetrarmánuðina. Ég ætla ekki að metast um það við hv. þm., hvort er meira aðkallandi, vegurinn austur yfir heiði eða aðrir vegir. Það verður að vera komið undir sanngirni og mati þingsins á hverjum tíma. hvort réttmætt sé að leggja í kostnað vegna vissra framkvæmda og hvað eigi að bíða, ef eitthvað þarf að bíða. En eins og tekið hefur verið fram áður, snertir vegagerðin austur yfir heiði nær 60 þúsund manns eða um helming þjóðarinnar, og væri eðlilegt, að samgöngubætur, sem svo margir hafa gott af, gangi fyrir samgöngubótum, sem ná ekki nema til tiltölulega örfárra manna. — Hv. þm. Barð. (GJ) hefur ekki ástæðu til þess að metast um þessa hluti. Hann hefur ekki ástæðu til þess að ætla það, að þm. líti kjördæmi hans slíku hornauga, að þeir vilji ekki styðja hann til þess að fá réttmætar framkvæmdirnar.

Ég get sleppt því að orðlengja þetta að sinni, þar sem þeir tveir þm., sem ég nefndi áður, hafa svo mikið sagt um málið. En úr því að ég stóð upp, vildi ég mótmæla einu, sem hv. þm. Barð. (GJ) bar fram í ræðu sinni og hefur verið látið ómótmælt, og það var það, að hann sagði í ræðu sinni: „Ég veit ekki til þess, að áburður, síldarmjöl eða önnur þungavara, sem héruðin fyrir austan fjall fá, sé þeim dýrari en á höfnum úti um land.“ Ég vil fræða þennan þm. um það, að þungavara er fyrir austan heiði til muna dýrari en á höfnum úti um land. Ég get fullyrt, að bændur fyrir austan heiði verða að borga 70–80 kr. fyrir síldarmjölið, enda þótt vísitöluútreikningur sé kr. 64.00. Þessar vörur verða svona dýrar, þegar búið er að flytja þær á annað hundrað km á bílum. En þessi hv. þm. og ef til vill fleiri álíta, að það kosti ekkert að flytja á bílum, og það er af því, að þeir vita ekki, hvaða skattar eru lagðir á þennan flutning. Þeir gera sér ekki grein fyrir því, að bílar — og sérstaklega stóru bílarnir — eru skattlagðir, um leið og veittur er stórkostlegur styrkur til strandferðaskipanna. Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir því, að það kostar frá 5–15 aura á hvert kg á leiðinni austur, eftir því, hvert farið er, og það með því, að notaðir séu þeir bílar, sem fyrirtæki bænda eiga. Ef bílarnir eru leigðir hér á vörubílastöð, eru þeir dýrari. Þannig er búið að samgöngumálum þeirra manna, sem byggja hafnleysissvæðin. Það er sjálfsagt að skattleggja þá, þegar önnur héruð eru styrkt, og þegar 15 þm. gerast svo djarfir að bera fram till. til úrbóta, rís upp einn þm. og leyfir sér að hella sér yfir þessa menn fyrir þetta. En af því ég þekki þennan mann að flestu góðu, verður honum fyrirgefið, enda veit ég, að, hann er sá maður, að hann batnar, þegar hann er búinn að kynna sér málstaðinn.

Hann minntist á Suðurlandsskipið, sem væri styrkt. Þetta skip er nú að vísu ekki til, enda styrkurinn ekki hár. Það er bezt, að ég upplýsi, hvað mikill styrkur var veittur til þessa skips vegna Rangárvallasýslu. Á síðasta ári var það hvorki meira né minna en 2000 kr., — tvö þúsund krónur, — og ég ætla að láta þm. um það, hve mikils þeir meta þann styrk, og ég ætla, að ég þekki hv. þm. Barð. það vel, að ég viti, að þessir peningar eru ekki miklir í hans augum.

Ég ætla svo að láta lokið máli mínu og tel hér með svarað þeim fullyrðingum, sem hv. þm. Barð. bar fram í ræðu sinni.