06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

30. mál, einkasala á tóbaki

Hermann Jónasson:

Það orðalag hefur verið viðhaft hér, að það væri óákveðið, hvort þessi heimild yrði notuð eða ekki. Slíkt orðalag er nú oftast þýðingarlaust, af því að hver skyni borinn maður sér, að það á yfirleitt að nota heimildir og að nota á þessa heimild. Eftir að þessi heimildarl. eru samþ., væri einkennilegt að hafa tóbaksverzlunina opna og nota ekki heimildina, því að almenningur mun líta svo á, að hækkun sé yfirvofandi á næstunni. Öll varfærni í orðum mundi ekki hafa nein áhrif á almenning í því efni. Enn fremur væri þýðingarlítið að samþ. svo háa heimild og nota hana aðeins að litlu leyti. Það gæti verkað á sama hátt, svo að ég geri ráð fyrir, að hver maður gangi út frá því, að með þessu frv. sé ekki verið annað að gera en ná tekjum. Sennilega er hægt að taka þær þannig í svipinn, en ekki er hægt að ganga fram hjá að benda á, að það er takmarkað, hvað tekjum má lengi ná á þennan hátt. Það eru aðrir búnir að reka sig á með þessa vöru, því að það eykst að sjálfsögðu mjög tilhneiging manna til að kaupa vöruna á óleyfilegan hátt. Hagnaðarvonin verður sterkari eftir því, sem þessi vara er seld óeðlilega háu verði, en hægt er að ná í hana — bæði eins og nú stendur, og þó að það breytist — með miklu lægra verði. Og jafnframt verður verðhækkunin líka til að draga úr neyzlunni. Þó er von til þess, að nota megi þennan tekjulið eitthvað, meðan menn hafa fullar hendur fjár. En vart hygg ég, að honum sé treystandi, þegar úr því fer að draga.

Ég tek undir það og mundi hafa látið orð falla um það, þó að ekki hefði gefizt tilefni frá öðrum þm., að það er eðlilegt, að gerð sé grein fyrir svona frv. Fyrst og fremst ætti að liggja fyrir, hvað mikill tekjuafgangur er nú frá seinasta ári, eftir að búið verður að inna af höndum allar þær greiðslur, sem ríkissj. voru bundnar á bak. Og í annan stað: Hvernig er útlit um tekjurnar í ár? Þetta þyrfti vitanlega að liggja fyrir. Það þarf ekki að dylja þetta fyrir þm. eða neinum. Og það er ekki hægt að taka frv. öðruvísi en tekjur vanti í ríkissjóð, því að ekki er verið að leika sér að því að bera fram frv. eins og þetta. Enda held ég enginn taki frv. þetta á annan veg. Það, sem hæstv. ráðh. drap á í Nd., getur ekki verið næg ástæða, — að tóbak hafi verið í sérstaklega lágu verði.

Þar sem nú liggja ekki fyrir þær upplýsingar, sem undantekningarlaust liggja fyrir í svipuðum tilfellum, mætti það virðast mótsögn, að þeir menn, sem æskja upplýsinganna, greiddu þó atkv. með þessu frv. Vil ég þá gera grein fyrir mínu atkv. þannig, að þó að. ég sé óánægður með, að þessar upplýsingar eru ekki fram bornar, þá greiði ég atkv. með þessu máli. Það er vegna þess, að ég veit, að með tilliti til þeirra ráðstafana, sem liggur fyrir að gera og þarf að gera, ef eitthvað á að halda dýrtíðinni niðri, sem virðist vilji þingsins að gera, þá verður bæði að ganga á þennan tekjustofn og marga aðra tekjustofna. Og það er kannske ekki óeðlilegt að byrja á þessu. Það er vitað mál, að með þeirri fjármálastefnu, sem fylgt hefur verið, að kaupa niður dýrtíðina með framlögum úr ríkissj., þá verðum við að ganga á tekjulindir og tæma þær smátt og smátt, meðan ekki er önnur stefna tekin upp. Og það er kannske rétt að klandra í þetta einu sinni enn, meðan verið er að athuga hlutina. En það er vitað, að þetta, sem gert hefur verið hingað til til þess að kaupa niður dýrtíðina, hefur kostað stórfé. Það sá hver maður, eftir að samkomulag varð í n., sem skipuð var á síðasta þingi til þess að finna hlutfall milli kaupgjalds og verðlags, að ef vísitalan átti ekki að fara upp, þá kostaði stórfé að halda henni niðri. Mér er næst að halda, að það verði nær 20 milljónum. Og þess vegna greiði ég atkv. með frv., að ég þykist vita svo mikið um fjárhag ríkissj. og það, sem fram undan er, þó að viðkunnanlegra hefði verið, að ráðh. hefði gefið skýrslu um þetta, eins og venja er til.