29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2569)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Það má segja, að hér sé ekki deilt um mikið, en þó ætla ég, að hér sé til staðar að ýmsu leyti þó nokkur grundvallar skoðanamunur milli mín annars vegar og hv. 2. þm. Rang. hins vegar. Þetta byggist fyrst og fremst á því, að mér finnst, að hann líti á þessa till. alveg með sérstöku tilliti til vetrarflutninga. Það geri ég ekki. Það er eitt af þeim sjónarmiðum, sem þarf að koma til greina, en er hvergi nærri afgerandi. Það, sem er afgerandi frá mínu sjónarmiði, er það, að umferðin á þessari leið er nú orðin svo mikil, að viðhaldið er orðið svo dýrt, að það nær engri átt. Það eru takmörk fyrir, hvað umferð um veginn má vera mikil, til þess að það geti komið til mála að leggja þá sem venjulega malarvegi, og á þessari leið er viðhaldið nú orðið það dýrt, að árið 1942 kostaði það á veginum frá Elliðaám að Ölfusá 647000 kr. Það kemur ekki til mála, að hægt sé að rísa undir slíku viðhaldi ár eftir ár. Það verður að gera veginn þannig úr garði, að viðhaldið verði ódýrara, hvort sem það verður til þess, að vegurinn verði frekar fær að vetri til á eftir eða ekki.

Þetta er höfuðástæðan til þess, að ég vil láta rannsaka til þrautar, hvernig þessum miklu flutningum verði bezt fyrir komið í framtíðinni. Þar næst kemur það sjónarmið, að þegar það er rannsakað, þá þarf það jafnframt að vera gert þannig, að sú leið, sem farið verður, hver sem hún er, geti verið fær sem flesta daga á árinu.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að alltaf hefðu verið settir einhverjir fleygar inn í þetta mál að undanförnu. Ég vil heldur orða það þannig, að það hafi ævinlega átt að leysa málið eftir einhverri einni ákveðinni leið, sem flm. hafa hugsað sér, án þess að aðrar leiðir væru rannsakaðar. Þess vegna hefur málið strandað. Það er til áætlunum járnbraut. Það er til áætlun um yfirbyggðan veg. Hún var gerð annað ár. Það er til áætlun um veg yfir Þrengslin, gerð á enn öðru ári. Allar áætlanir, sem gerðar hafa verið, hafa verið gerðar hver á sínum tíma. Hví ekki að gera þær allar á sama tíma? Þá yrðu þær sambærilegar. Ef það verður ekki gert, heldur alltaf komið með einhverja eina leið, án þess að hægt sé að fá réttan samanburð á henni við aðrar hugsaðar leiðir, þá er ég hræddur um, að alltaf komi þessir fleygar, af því að þá liggur alltaf hula yfír, hvaða leið sé bezt.

Hv. 2. þm. Rang. segir, að ekki þurfi að heimila stj. að verja fé til þessarar rannsóknar, því að vegamálaskrifstofan geti séð um þetta. Hann vill láta fela þennan kostnað með því að hækka skrifstofukostnað vegamálastjóra. Mér er illa við, að fé sé þannig falið. Ég vil, að það komi fram, hvað við það er gert. Ef kostnaður er við að rannsaka þetta mál, þá vil ég, að það komi fram, ekki látinn koma fram sem aukinn kostnaður við eitthvað annað. Hér er um annan grundvallarskoðanamun hjá okkur að ræða. Eg vil ekki, að fé sé varið úr ríkissjóði, hvorki til þessara hluta né annarra, nema heimild sé til. Þess vegna legg ég til í brtt. minni, að stj. sé heimilt að verja fé til þessarar rannsóknar úr ríkissj.

Ég spái því, að ef till. mín verður ekki samþ., en aðeins látið rannsaka, hvað kosti að gera þennan steypta veg, þá muni reynast erfitt að fá fé til þessara framkvæmda, þegar þar að kemur, af því að þá trúa menn ekki, hvort sem það er rétt eða ekki, að þetta sé heppilegasta leiðin. Það kann að vera blindni, en stafar af því, að ekki fékkst að rannsaka allar leiðirnar, svo að staðreyndirnar lægju ljósar fyrir öllum.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða meira um þetta. Við verðum sjálfir að gera okkur ljóst, að flutningaþörfin á þessari leið er nú orðin svo mikil, að það kemur ekki til mála frá mínu sjónarmiði, að þeim verði fullnægt með venjulegum malarvegi. Þannig er ástatt um fleiri vegi. Það munu vera a. m. k. tveir aðrir vegir, þar sem flutningarnir og umferðin er að verða það mikil, að það er hæpið, hvort það borgar sig að gera malarveg og hvort ekki þarf að finna aðra leið til að anna þessum flutningum, sem verður ódýrari bæði fyrir einstaklingana og heildina. Það verður áreiðanlega eitt af verkefnum framtíðarinnar að athuga, hvernig koma eigi viðhaldinu niður á vegunum, sem mest er farið eftir, því að það er nú svo mikið, að það er að verða gersamlega óbærilegt. Í því sambandi er rétt að geta þess, að á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir með, hvernig þetta yrði helzt gert. Það hefur verið gerð tilraun með að hefla það, sem lausast er á gömlu brautinni og síðan steypt ofan á. Þannig eru til þriggja ára gamlir partar, sem virðast ekki vera farnir að bila enn og gefa vonir um, að ef til vill megi gera endingargóða vegi á þennan hátt. Þá hafa líka verið gerðar tilraunir með að steypa ofan á vel undirbyggðan veg eins og veginn inn að Elliðaám, sem kostaði 72 kr. lengdarmetrinn. Hann hefur líka fram að þessu reynzt vel. Það, hvernig vegunum verði komið í það horf, að viðhaldið verði sem ódýrast, er spursmál, sem er orðið ákaflega aðkallandi. Þess vegna álít ég, að það eigi að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega, áður en ákvarðanir eru teknar í því. Hins vegar er vitanlegt, að steinsteyptur vegur verður ekkert frekar fær en aðrir vegir, Þegar komin er ófærð. Það fellur snjór á jörðina, þó að á steinsteypu sé.