08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (2588)

138. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. — Breyt., sem farið er fram á með þessu frv., eru þrjár: Í fyrsta lagi að starfstími iðnnema megi ekki fara fram úr 48 klst. á viku í stað 60 í t., í samræmi við vinnutíma sveinanna, sem þeir vinna með. Kaffitími breytist úr ½ klst. í ¼ klst. Í öðru lagi er breytt ákvæði l. um, að ekki megi taka nemanda til iðnkennslu yngri en 16 ára. Það er lagt til, að heimilt sé að veita undanþágu í 15 ára, ef um er að ræða iðn, sem krefst ekki verulegs líkamlegs erfiðis. Þá er loks síðasta breyt., en hún er um það, að meistari megi aldrei ráða til sín fleiri nemendur en hann hefur fullgilda iðnaðarmenn í vinnu, en ákvæðið er á þá leið í l., að meistari megi aldrei ráða til sín fleiri nemendur en hann hefur fulllærða iðnaðarmenn í vinnu. Þetta hefur gefið tilefni til erfiðleika, sem nú á að afnema með þessari breytingu.

Till. þessar eru fluttar samkvæmt tilmælum iðnaðarfulltrúa, þ. e. a. s. tvær þær fyrstu, en sú þriðja er sjálfsögð afleiðing af styttingu vinnutíma hjá iðnsveinum, því að það er í alla staði eðlilegt, að vinnutími nemenda verði styttur í samræmi við það.

Frv. þetta er flutt af n., og sé ég því ekki ástæðu til þess að gera till. um, að því verði vísað til n.