11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2792)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Eysteinn Jónsson:

Það er einkum ræða hv. 2. þm. Eyf., sem orsakar það, að ég tek til máls, þótt ég vilji ekki tefja málið. Hann sagði, að ég hefði ekki skilið orðin „opinber rannsókn“. En eftir að hér hafa risið upp lögvísir menn og ekki orðið sammála um merkingu þessara orða, þá virðist mér, að leikmönnum sé nokkur vorkunn. En furðu þykir mér gegna sá barnaskapur hv. þm., er hann ályktar, að ríkisstj. hefði getað borið fram öll þau atriði, er þurfa þótti í þessu máli, án þess að sakamálsrannsókn færi fram.

Annars eru það nokkur atriði í rekstri þessa máls, sem ég vildi taka til athugunar. — Þegar hv. 2. þm. Eyf. segir, að leggja hefði mátt skýrslur olíufélaganna til grundvallar, þar eð löggiltir endurskoðendur hafa eftirlit með þeim, eða þegar hann segir, að með einu orði hefði mátt fá upplýsingar hjá verðlagsstjóra, þá veit hv. þm., að hann fer með fleipur eitt, því að verðlagsstjóri sjálfur hefur orðið að setja lögfræðing til að rannsaka bækur félaganna. Og það er ekkert annað en slúður, þegar hann heldur því fram, að það, sem vakað hafi fyrir flm., hafi verið að komast yfir skýrslur hjá verðlagsstjóra. Þm. hampar því, að hæstv. fjmrh. hafi sagt hér á þinginu, að réttarrannsókn út af máli þessu væri ekki nauðsynleg, en eftir því, sem lesið hefur verið upp úr ræðu fjmrh., þá segir hann, að allar líkur bendi til, að olíufélögin hafi gefið upp ranga kostnaðarliði. Mér finnst því, að hann ætti ekki að vitna framar í þetta.

Tvö atriði vil ég drepa á enn þá. 2. þm. Eyf. sagði, að olíufélögin hefðu hringt í verðlagsstjóra í byrjuðum ágúst, en þá var hann að fara í frí, og varð ekki af erindislokum, og síðan reyndu þau ekki að ná tali af verðlagsstjóra. Og þá kom hv. 2. þm. Eyf. líka að því, — og það er sýnishorn um þennan málflutning, sem ég ætla að nefna, — að segja, að á tilboð olíufélaganna um að lækka olíuverðið í september, þegar þau sáu sína sæng út breidda, megi líta tvennum augum með tilliti til þess, hvort lækkunin hafi verið skilyrðislaus. Já, ég veit, að þessi hv. þm. telur, að honum sé létt að líta tvennum augum á staðreyndir og einhvern vissan málstað, eftir því, hvað honum kemur bezt. En ég ætla, að flestir líti svo á, að það sé ekki hægt að líta nema einum augum á þetta, því að það skilyrði fylgdi af hálfu olíufélaganna þá, að engir aðrir verzluðu með olíu í landinu. Hv. þm. vildi afsaka þetta með því, að þau hefðu ekki getað lækkað olíuna, ef þau hefðu samkeppni. En hvað ætluðu þau þá að gera við þann mikla gróða, sem þau voru búin að fá? Ætluðu þau að halda honum? Já, ef nokkurt olíusamlag væri starfandi í landinu, en kannske láta eitthvað af honum, ef byggt væri fyrir alla samkeppni í olíuverzlun í landinu. Þetta liggur fyrir í málinu, og er ekki hægt að líta á þetta tvennum augum, heldur aðeins einum.

Út af ræðum þeirra hv. 6. landsk. og hv. 2. landsk. þm. um þann gífurlega mun, sem sé á till. hv. 1. þm. Árn. og upphaflegu þáltill. hins vegar, skal ég ekki fjölyrða, en vil aðeins segja það, að mér þótti það mjög undarlegt, sem hv. 2. landsk. þm. sagði hér um afstöðu framsóknarmanna til þessa máls í þessu sambandi, þar sem niðurstaðan hjá honum varð nánast sú, að hv. 4. þm. Reykv. hefði haft rétt fyrir sér í túlkuninni á því, hvað opinber rannsókn meinti, því að ef hv. 2. landsk. þm. fellst á þetta sjónarmið hv. 4. þm. Reykv., þá er enginn efnismunur eða a. m. k. ekki stefnumunur á till. framsóknarmanna og afstöðu hv. 4. þm. Reykv. Og það hygg ég, að sé nú það sanna í málinu og hljóti að verða svo í augum flestra, sem vilja vinna að því, að eðlilega sé með málið farið, að ekki verði hjá því komizt, hver till. sem samþ. yrði í þessu máli, þá yrði að eiga mikið undir hæstv. dómsmrh. í þessu efni. Og það, sem þingið getur gert, er að þrýsta á ráðherrann eða skora á hann eins glöggt og unnt er og gera allt, sem hægt er, til þess að þetta mál upplýsist til hlítar.