01.11.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

27. mál, fjárlög 1944

forseti (GSv):

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að útbýtt verður í dag nál. og brtt. frá meiri hl. fjvn. Tilætlunin er, að fjárlfrv. komi til umr. hið fyrsta, helzt svo að frh. 1. umr. geti orðið á morgun, en eftir því sem til stendur, er það formið eitt að vísa fjárlfrv. frá 1. til 2. umr., sem hæfist þá væntanlega á fimmtudaginn og ætti að vera lokið fyrir helgi, hvernig sem yrði um atkvgr. Álit og till. minni hl. eru ekki komin fram enn þá, en ég vænti þess, að það verði brátt, enda auðvelt að fá afbrigði til þess að hægt sé að innlima þau skjöl í plögg málsins. Ég æski þess jafnframt, at væntanlegum brtt. við frv. sé skilað skrifstofunni í síðasta lagi kl. 8½ annað kvöld. Að öðru leyti mun vera hentast, að hinar almennu eldhúsdagsumr. fari ekki fram fyrr en í lok 2. umr., þegar eftir er aðeins atkvgr. um frv. sjálft.

Þá vil ég geta þess, að samkomulag hefur orðið um, að takmarka útvarpsræðutímann þannig, að umr. standi aðeins tvö kvöld og hver flokkur fái 45 mínútur til umráða, þannig að umræðutími verði samtals hálf önnur klst. hvort kvöldið, en ræðutími ríkisstj. er svo þar fyrir utan. Munu því umr. standa sæmilega lengi, þó að þessi stytting hafi verið ákveðin. En um þetta verður nánar tilkynnt síðar, eftir því sem henta þykir.