06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2808)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Fjhn. hefur haldið fund um þær brtt., sem fyrir liggja, en orðið sammála um fátt eitt. Það er nú svo, að þegar enginn stjórnarmeirihl. er fyrir hendi í þinginu, þá er erfitt að ná samkomulagi um mál eins og þetta. Ég skal nefna brtt. á þskj. 478, þar sem lagt er til, að skattanm. og yfirskattanm. skuli fá greiddar 25 kr. á dag auk verðlagsuppbótar, eins og hún er á hverjum tíma. Þessi brtt. er ekki stór, en hún raskar því jafnvægi, sem verið hefur. Um þessa till. varð ekki ágreiningur í fjhn.

Þá flytur fjhn. brtt. á þskj. 518 um, að framtalsfrestur í Reykjavík skuli styttur frá 31. jan. til 20. jan. Þessi till. er borin fram eftir tilmælum skattstjóra og niðurjöfnunarnefndar.

Að vísu styttist fresturinn ekki nema fyrir einstaklinga, því að öll stærri fyrirtæki fá frest, enda mundu þau þurfa að fá hann, þótt engin breyt. væri gerð á þessu. Störfin við að vinna úr framtölunum eru orðin svo umfangsmikil, að aðilar telja sig þurfa að fá þessa 10 daga viðbót til þess að geta lokið störfum fyrir ákveðinn tíma.

Þá hefur n. orðið sammála um að mæla með till. hv. 2. þm. N.-M. um að bæta Vestmannaeyjum í tölu þeirra kaupstaða, sem skulu hafa skattstjóra. Ríkisstj. hefur einnig borið fram tilmæli um þetta sama. Enn fremur hefur n. lagt til, að bætt verði inn því ákvæði, að l. þessi skuli þegar öðlast gildi.

Þá hef ég lokið að tala um þær till., sem fjhn. hefur orðið sammála um að mæla með, en frá sjálfurri mér vil ég bæta því við, að ég tel sjálfsagt að samþ. brtt. á þskj. 473 um það, að kaupstaðirnir skuli ráða niðurjöfnunarn. sínum eins og Reykjavík nú. Áður en sú brtt. var gerð hér fyrir Reykjavík, þá hefði orkað tvímælis um að samþ. þessa till., en eftir að sú breyt. var gerð, þá er ekki hægt að gera breyt. í öfuga átt í öðrum kaupstöðum. Þetta er ekki frá allri fjhn., en sumir nm. eru þessu samþykkir. Ráðuneytið hefur einnig vakið athygli okkar á þessari nauðsyn, enda hygg ég, að till. mþn. um þetta sé sprottin af misskilningi.