16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2869)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Sigurður Kristjánsson:

Það hefur verið beint hér nokkrum leiðbeiningarorðum til fjvn. út af þessari þáltill., frá hv. þm. V.-Húnv. og síðar frá hv. 3. landsk. Hv. þm. V.-Húnv. kvað ekki liggja fyrir neitt um það, hvers virði þessi bréf væru á sölumarkaði. En mér skildist hv. frsm. gera alveg nægilega grein fyrir þessu, sem sé þá, að eigendur hlutabréfanna ráða engu um það, hvort þau eru arðbær eða ekki. Ríkissj. á svo mikinn hluta í þessu fyrirtæki, að hann ræður því algerlega, hvort arður er greiddur eða ekki. En verðmæti bréfanna fer í raun og veru eftir því, hvaða arð þau bera. Og mér er það kunnugt, af því að ég sat hluthafafund eitthvað tveimur árum eftir að bankinn var stofnaður, að umboðsmaður ríkisins neytti fullkomlega aflsmunar til þess að gera hlut hinna einskis virtan. (LJóh: Á síðasta aðalfundi sennilega gegn samþ. bankans). Ég sá þýðingarlaust að sitja þær samkomur eftir þeim anda, sem ríkti þar frá ríkisins hálfu.

Ég vænti, að hv. þm. V.-Húnv. skilji það vel, að það er ekkert til, sem heitir söluverð þessara bréfa lengur. Þó að meira verðmæti kunni að standa bak við þau en sem nafnverði nemur, eru þau eigendum einskis virði, nema því aðeins, að umboðsmaður ríkisins vilji sýna þeim einhverja sanngirni, sem vel má vera, að einhvern tíma yrði. En það er í fullkominni óvissu.

Út af því, sem hv. 3. landsk. beindi til fjvn. um kaup á hlutabréfum erlendra hluthafa, vildi ég einnig til leiðbeiningar, þó að þess þurfi sennilega ekki, minna n. á, að hlutafjáreign innlendra manna er orðin til með nokkuð öðrum hætti en þeirra erlendu. Því að ég held, að ekki sé ofsagt, að það fé sé ránsfé. Mér er nokkuð kunnugt um, hvernig þetta hlutafé var fengið, því að ég vann með öðrum að söfnun þess. Féð var lagt fram til þess, að ekki þyrfti að leggja niður Íslandsbanka. En bankinn var síðan lagður niður og féð tekið ránshendi til stofnunar nýs banka. Eigendur þess hefðu kannske getað náð rétti sínum með því að skjóta málinu til dómstólanna, en gerðu það ekki, því að það er ekki gott fyrir þá, sem þurfa á bankaviðskiptum að halda, að standa í málaferlum við bankann, og annað fólk, sem átti spariskildinga sína þannig bundna, var margt umkomulítið og óvant málaferlum og hafði álitið það gott verk og þjóðinni nauðsynlegt að leggja þarna fram eigur sínar. Þessa þótti mér rétt að minnast.