28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

123. mál, náttúrurannsóknir

Brynjólfur Bjarnason:

Það er aðeins út af því, sem hv. 3. landsk. sagði, að það mundi vera reiðilaust af Alþfl., þótt þessi till. yrði ekki samþ., og hann vildi lítið úr þessu gera, Alþfl. mundi víst standa jafnréttur eftir sem áður, enda væri þetta svo lítill bitlingur, að það munaði ekkert um hann. Fyrst svo er, þá virðist vera óþarfi að samþ. þessa till. Það ættu allir að geta verið sammála um það.

Hann sagðist hafa búizt við, að það kæmi fram till. frá sósíalistum um að leggja þetta ráð niður. Hann virðist ekki hafa heyrt, hvað ég sagði áðan. Ég sagði, að við hefðum skipað fulltrúa okkar í ráðið með það fyrir augum, að hann reyndi þar að ná samkomulagi við hina fulltrúana um það, hvernig ætti að breyta starfsemi ráðsins eða hvort ætti að leggja það niður.

Þá vildi hann halda því fram, að ráðið yrði ekkert meira pólitískt, þótt Alþfl. fengi þar einnig fulltrúa. Ég vil nú halda því gagnstæða fram, því að tilgangurinn með þessari till. er einungis pólitískur. En annars hefur það ekki mikla þýðingu. Aðalatriðið er það, að ef till. verður samþ., þá er það yfirlýsing frá Alþ. um, að það vilji, að ráðið starfi áfram með sama hætti.