16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3423)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Ég held, að hv. 7. þm. Reykv. hafi annaðhvort ekki skilið spurningu mína, sem ég beindi til hans áðan, eða ekki viljað skilja hana. Mér virtust svör hans vera þannig og nokkuð óákveðin. Ég beindi þeirri spurningu til hv. flm., hvort þeir teldu ekki, ef þessi till. yrði samþ., að óumflýjanlegt yrði að láta þessi hlunnindi ná til fleiri manna og fyrirtækja en þeirra, sem hafa með höndum fiskveiðar og fiskiðnað. Um þetta sagði hv. 7. þm. Reykv. ekkert ákveðið, sagði þó eitthvað á þá leið, að ekki skyldi fyrir það synjað, að þetta kynni að eiga við víðar, sem farið er hér fram á fyrir hönd sjávarútvegsins og iðnaðar í sambandi við hann. Ég held nú líka, ef þessi till. verður samþ., að það verði óumflýjanlegt að láta þessi nýju ákvæði ná til fleiri aðila.

Önnur fyrirspurn, sem ég beindi til flm. þáltill., var um það, hvort til þess væri ætlazt af þeim, að ríkið endurgreiddi skatta síðustu ára eða hluta af sköttum síðustu ára, eftir því sem hinn nýi útreikningur á fyrningarfrádrætti sýndi, ef till. verður samþ. Þessu svaraði hv. 7. þm. Reykv. ekki, en þó skildist mér frekar á honum, að skattarnir yrðu endurgreiddir. Aftur hélt hann því fram, að útsvörin kæmu þessu máli ekkert við. En ég hef nú staðið í þeirri trú, að a. m. k. víða á landinu væri við niðurjöfnun útsvara farið eftir skattskyldum tekjum manna og fyrirtækja, a. m. k. að einhverju leyti, eða höfð hliðsjón af skattskyldu tekjunum. Og nú hefur þetta vitanlega mikil áhrif á skattskyldar tekjur einstaklinga og fyrirtækja, svo að ég get ekki skilið, að útsvörin hljóti ekki að breytast eitthvað, ef þessi nýja regla verður upp tekin, sem gert er ráð fyrir í þáltill. Fyrir þá sök spurði ég um það, hvort það væri einnig til þess ætlazt af hv. flm. þessarar till., að útsvör einstakra manna og fyrirtækja frá síðustu árum yrðu einnig endurgreidd. En mér skilst á hv. 1. flm. þáltill., að það sé ekki meining þeirra flm.

Hv. þm. Barð. tók það alveg réttilega fram, að það mundi tæplega verða hjá því komizt, ef slík till. sem þessi yrði samþ., að hafa hana eitthvað víðtækari en hér er gert ráð fyrir. Sá hv. þm. talaði líka um það, hvaða n. ætti að fela athugun þessa máls. Það ætla ég ekki að gera neinar ákveðnar till. um. Hv. flm. till. leggja til, að málinu verði vísað til fjvn., en hv. þm. Barð. talar um allshn. í því sambandi. Ég vil aðeins benda á það, að sé til þess ætlazt, — sem mér skilst á hv. 1. flm. till., — að endurgreiða eigi eitthvað af sköttum, sem á hafa verið lagðir á síðustu árum, — og enginn veit fyrir fram, hvað það kynni að verða mikið, — þá skilst mér, að málið hljóti að eiga erindi í fjvn.