28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

41. mál, nýbýlamyndun

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir þær undirtektir, sem hann hefur sýnt þessari þáltill., sem hér liggur fyrir. Því að ég skal játa það alveg skilyrðislaust, að ég get ekki hugsað mér betri meðmæli frá hans hendi með þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, heldur en hann hefur gefið með þessum dæmalaust prúðu og myndarlegu ummælum, sem hann hefur haft um málið sjálft, en ekki um þáltill., eins og hún liggur fyrir. Því að um hana sérstaklega hefur ekkert orð frá honum komið. Ég hefði ekki verið eins sannfærður um, að þetta mál væri eins nauðsynlegt eins og það er og eins og það var, ef þessi hv. þm. hefði ekki spilað þessa gömlu plötu sína um sveitabúskapinn og bændur landsins með þeim góða skilningi og miklu þekkingu, sem hann hefur á þeim málum, þó að hann hafi ekki lagt krafta sína mjög fram til þess að reka íslenzkan landbúnað. Þess vegna er ég sannfærður um, að það er mjög svo gagnlegt mál fyrir þjóðarheildina, sem hér er um að ræða, og nauðsynlegt er, að það verði leyst á einhvern svipaðan hátt og í þáltill. er farið fram á — eftir að þessi hv. þm. hefur talið ástæðu til að láta slík orð falla um það og hann hefur gert.

En hitt verð ég að segja, að það er næsta grátlegt að þurfa þess hér í sölum Alþ. að hlusta á málflutning og ádeilur á eina af stærstu og duglegustu stéttum þjóðfélagsins frá manni, sem vitað er, að hefur jafnlítinn skilning og jafnlitla þekkingu á þessum málum og þessi hv. þm. Og það sýnir ekkert annað en það, hver fjandskapur hreyfir sér gagnvart þessari stétt, sem þó er á tómum misskilningi byggður. Það sýnir, á hve traustum grundvelli lýðræðið er, að slíkur maður skuli geta komizt inn á þing og talað þannig, að það eru svo að segja engir kjósendur, sem hafa falið honum að tala svo hér á hæstv. Alþ. Ég held ekki, að nauðsynlegt sé að fara neitt sérstaklega út í þessa ræðu hans. Hann er búinn að flytja hana hér svo oft. Það var í raun og veru broslegt að hlusta á hann byrja með því að segja, að þetta mál væri fljótt á litið gagnlegt mál, en að hann væri samt á móti því, af því að það gæti falizt eitthvað allt annað á bak við þáltill. en skrifað stæði í henni. En þó að kunni að vera talin skynsamleg vinnubrögð í hans flokki að bera málin svo fram, að eitthvað allt annað felist í þeim en hægt sé að koma auga á, þekkjum við ekki slíka klæki. Það er hvergi í till. minnzt á, að aðalúrlausnin eigi að vera smábýli, og það stendur m. a. s. í henni, að það eigi að rannsaka skilyrði fyrir nýbýlahverfum. Það kemur málinu ekki við á þessu stigi, hvað heppilegast yrði talið um fyrirkomulag á rekstrinum, heldur verða rannsóknir á því atriði að leiða það í ljós, þegar til kemur.

Ég get þá látið útrætt um þetta, og um það, að íslenzkur landbúnaður sé þjóðhættulegur, er ekki þörf að ræða. Ég hygg, að allar þjóðir, að Rússum ekki undanskildum, hafi komið auga á það, að ef landbúnaður getur ekki staðið með nokkrum blóma, þá sé öllum öðrum atvinnuvegum háski búinn, og sú þjóð, sem ekki leggur sig fram um að efla sinn landbúnað, er áreiðanlega ekki líkleg til að geta komið öðrum atvinnuvegum í sómasamlegt horf. Sú fullyrðing, að sjávarútvegurinn hljóti að vera sá atvinnuvegur, sem mest verður á að treysta, sýnir, hversu reynslulausir þeir menn eru, sem slá slíku fram. Það eru ekki mörg ár síðan sjávarútvegur okkar var kominn í þrot, m. a. vegna markaðstapa, svo að það varð að reka hann með þeim stærstu styrkjum, sem nokkurn tíma hafa verið veittir hér á landi, þegar krónan var verðfest svo að nam 20–30%. Við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja. Atvinnuvegirnir verða að styðja hver annan. Hitt hygg ég, að sé þjóðhættulegur hugsunarháttur, að halda, að það eitt sé þjóðinni fyrir beztu, sem í svipinn getur gefið mestan peningagróða. Sá gróði getur orðið verðlaus þegar fram í sækir, en það á fyrst og fremst að halda uppi þeim atvinnuvegi, sem hefur getað staðið undir lífsnauðsynjum þjóðanna, þegar annað hefur brostið.

Ræðukafli hv. þm. um síldina og hve grátlegt það væri, að menn væru að stunda slátt, þegar óendanlegar síldartorfur vaða upp að landsteinum, minnir mig mest á hugsunarhátt einnar stórþjóðar fyrir allmörgum árum, ég á við það, þegar gullæðið greip Vesturheimsmenn, þannig að þeir köstuðu frá sér nytsamlegum störfum í hundruðum þúsunda saman til að gefa sig á vald leitinni að hinu gula dufti. Hvernig er nú komið áliti þessara Vesturheimsmanna á þeirri starfsgrein? Það eru ekki nema fáir dagar síðan ég las í amerísku tímariti, að búið væri að fyrirskipa að loka gullnámunum og losa starfskrafta úr þeim til þess að vinna nytsamlega málma og til að stunda framleiðslu, sem haldið gæti lífinu í þjóðinni. Ég veit, að þessi þjóð er búin að sjá, að það hefur aldrei komið upp þjóðhættulegri hugsunarháttur en gullæðið. Maður er farinn að sjá, að það, sem stórþjóðirnar telja nú í fremstu röð, er jafnvel ekki framleiðsla vopna, heldur að þjóðin sjálf geti framleitt handa sér matvæli og séð sér fyrir þeim nauðsynjum, sem gera þegnana sem hæfasta til starfa. Í öllum amerískum blöðum er þetta ofarlega á oddi.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þennan gamla lestur hv. þm. Ég vænti, að í allshn. verði þetta athugað með þeim skilningi, sem horfir lengra en að stundargróða.

Það er ekki rétt — og ég held, að ég þekki það eins vel og hv. síðasti ræðumaður —, að unga fólkið vilji ekki vera í sveitunum. Ég veit, að það er fjöldi, sem vill það, en hefur ekki aðstæður til þess. Það verður að skapa þær aðstæður. Hitt veit ég líka með vissu, að það vill ekki vera í sveit við þau ánauðarskilyrði að mega ekki vera frjálsir framleiðendur, heldur undir eftirliti og yfirstjórn vandalausra manna, því að það hefur verið ríkast í eðli okkar Íslendinga fram til þessa að fá að vera frjálsir okkar athafna. Það eru ekki margir, sem langar til að gerast ánauðugir þrælar kommúnista eða annarra slíkra manna.