13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3529)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Sveinbjörn Högnason:

Flest atriðin, sem ég vildi ræða, er ég kvaddi mér hljóðs, hafa aðrir síðan dregið fram. Einu atriði vildi ég nú víkja að fyrst og fremst. Nýbúið er að samþ. þáltill. um rannsóknarn. í mjólkurmálum og leggja fyrir þá n. að rannsaka, hvort almenningi hafi ekki verið seldar einhverjar skemmdar mjólkurvörur til neyzlu. Hins vegar er þessi till., þar sem talið er vítavert, að skemmdri vöru sé fleygt í stað þess að selja hana almenningi. Þeir, sem standa að báðum þessum till., eru svona samkvæmir sjálfum sér. Ef hvort tveggja á að samþ., verður Alþingi fyrst að setja það í hegningarlög, að bannað sé að láta matvæli skemmast, og leggja við mikil viðurlög, ef duga skal. Án þeirrar skoðunar, að refsivert sé það slys, ef matvæli skemmast, ná þessar till. sameiginlega engri átt. En þá fer að verða vandlifað á Íslandi, hvorki má fleygja skemmdu sé selja, og þeir, sem tjón bíða við skemmdirnar, skulu einnig sæta rannsóknum og væntanlega refsingum fyrir að hljóta þann skaða. Þau verða ekki mörg heimilin við sjó fremur en í sveit, þar sem öruggt er, að aldrei skemmist matarbiti, og svo mun vera í öllum löndum.

Ég get ekki heldur látið hjá líða að benda á annað ósamræmi þessara tillagna. Þegar rætt var um rannsóknarn. mjólkurmála, hélt flm. hennar því fram ákveðið, að réttur n. til að leita sér vitneskju samkv. 34. gr. stjskr. væri ekki neitt svipað því eins nærgöngull við hlutaðeigendur og sakamálsrannsókn væri. En fyrri flm. þessarar till. heldur því þvert á móti fram, að sakamálsrannsóknin, sem búið er að biðja um í þessu máli, væri gagnslaus, en opinber rannsókn samkv. ákvæðum 34. gr. stjskr. sé hin eina, sem gengið geti nógu nærgöngult að viðfangsefninu. Báðir þessir hv. flm. eru lögfræðingar, en ber þó ekki minna en þetta á milli. Mér finnst það líka talsvert einkennilegt að heimta, að starfssvið Alþingis sé hér það, að það eigi sérstaklega að fara með ákæruvaldið í landinu, og jafnframt skuli tryggt, að það sé hið pólitíska vald þingsins, sem beitt sé til að knýja fram ákærurnar. Fyrri flm. þessarar till. vildi halda því fram, að SÍS vildi ráða, hvernig rannsókninni yrði hagað. Í bréfi SÍS var skýrt tekið fram, að óskað væri eftir, að öll atriði yrðu tekin með, sem hægt væri að rannsaka í þessu sambandi. Eftir þeirri vitneskju, sem fyrir liggur, eru þessar 200 tunnur, sem skemmdust hjá SÍS, ekki nema dropi í hafi þess, sem skemmzt hefur hér af matvælum á þessu eina ári, þótt ekki sé tiltekinn lengri tími. Það er t. d. vitað, að allt að því heilir skipsfarmar af því, sem flutt hefur verið út, hafa ekki reynzt söluvara, þegar á markaðsstað kom, og orðið að fleygja. Það er líkast kaldhæðni örlaganna, að bændur heyra krafizt rannsókna á sig vegna skemmda í svona litlu broti af kjötframleiðslunni, samtímis því sem sjá má nærri við hvern einasta vegarafleggjara heim að sveitabæjum 10–20 eða 30 tunnur af saltsíld svo skemmdri, að ekki er einu sinni ætíð víst, að hægt sé að hafa hana til skepnufóðurs, en verið er að biðja bændur að taka við þessari framleiðslu. Hví þarf ekki að rannsaka, hvernig á þeirri skemmd stendur? Hví krefst hv. 1. flm. ekki rannsóknar á skemmdum, sem verða til í hans kjördæmi sjálfs? Nú segir hann, að það hafi vakað fyrir flm., að rannsaka skyldi skemmdir í hvers konar innlendum matvörum, og bendir því til sönnunar á 5. lið, þar sem segir, að n. skuli rannsaka þá eyðileggingu, sem fram kunni að hafa farið á öðrum neyzluvörum en kjöti, „að svo miklu leyti sem henni þykir ástæða til“. En í grg. verður að leita skýringa þess, hvaða neyzluvörur átt muni við. Þar verður aðeins ein skýring á því fundin og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, að rannsaka skuli, „hvort öðrum tegundum af afurðum bænda hafi verið kastað í sjó eða dysjaðar á víðavangi, svo sem t. d. smjör og ostar“. — Ég hef séð ýmislegt af slíkri málfærslu fyrr, en aldrei neitt sem þetta, þar sem bersýnilegt er, að það er yfirleitt ekki matvælatjónið, sem flm. hirðir um, heldur aðeins það að elta uppi satt og logið um það, sem skemmast kunni af framleiðslu bænda. Svo þegar búið er að kynna till. og grg. hennar fyrir öllum landslýð, segir þessi hv. flm.: „Málið liggur svo ljóst fyrir, að engin þörf er á rannsókn“. — Það á að liggja svo ljóst fyrir, að allar getsakir hans og fullyrðingar séu orðnar heilagur sannleikur, að þetta þurfi ekki að efa, þurfi ekki að rannsaka, bara dæma. Annan eins barnaskap hefur deildin aldrei heyrt í málsfærslu. Hefði það verið meining flm. að láta rannsaka skemmdir og eyðing neyzluvara yfirleitt í þessu sambandi, hefðu þeir átt að ganga inn á till. mínar í sambandi við rannsóknir mjólkurmála. En þeir vilja glögglega allt annað, herferð móti einni ákveðinni stétt, tilraun til að hundelta þá stétt. Ef slík till. fær fylgi, er Alþingi enn verr komið en ég hef hingað til haldið, að það væri.