19.10.1943
Sameinað þing: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (3597)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Flm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Í þeim umr., sem fram fóru hér fyrir nokkru, var upplýst, að hér á neyzlusvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar væri verulegur mjólkurskortur og að neytendur fengju því ekki nálægt því það mjólkurmagn, sem þeir þyrftu, — menn hafi staðið í röðum úti fyrir mjólkurbúðunum til þess að reyna að fá bætt úr brýnustu þörfum, en fæstir fengið úrlausn.

Það hefur nú verið reynt að leita að ástæðum til mjólkurskortsins, sem er að sumu leyti eðlilegur um þetta leyti árs. En þessar athuganir hafa líka leitt í ljós, að mikið af því mjólkurmagni, sem átt hefði að fara til innlendra neytenda, hefur verið selt setuliðinu. Ég hef fyrir alllöngu borið fram í Nd. fyrirspurn um, hve miklu þetta mjólkurmagn nemur, en ekki fengið svar. Get ég því ekki sagt um það með vissu, en eftir lauslegum upplýsingum, sem ég hef fengið, er hér um verulegt magn að ræða.

Tilgangur þessarar till. er sá, að ríkisstj. verði veitt heimild til að beita sér fyrir því, að setuliðinu verði ekki seld meiri mjólk en það frekast getur komizt af með, á meðan þetta ástand ríkir í bænum. Þetta er ekki gert að ástæðulausu. Um það ber ástandið í þessu efni bæði í Reykjavík og Hafnarfirði vitni, að brýna nauðsyn ber til þess, að eitthvað verði gert í málinu og það eins fljótt og unnt er. Þetta ætti líka að vera mjög auðvelt eftir þeim upplýsingum, sem hv. atvmrh. gaf hér fyrir skömmu, en þær voru á þá leið, að setuliðið óskaði einungis að fá þá mjólk keypta, sem afgangs væri. Eftir þeim upplýsingum ætti það sannarlega að vera ofur auðvelt verk að kippa þessu í lag.

Ég býst við, að einhver kunni að vilja benda á það, sem komið hefur fram í umr. hér að undanförnu af hálfu framleiðenda, að aldrei fyrr hafi á þessum tíma árs verið flutt meiri mjólk til bæjarins en nú. En þörfin á að fá þessu kippt í lag er jafnbrýn fyrir því. Vil ég að gefnu tilefni af hálfu atvmrh. lýsa yfir, að í þessu felst engin ásökun á setuliðið. Slíkt er ekki ætlun okkar flm. En ef um nokkra ásökun væri að ræða, þá væri henni beint að mjólkursamsölunni, því að hún ræður hér mestu um.

Ég mun ekki óska eftir að málið fari til n., en mun hins vegar ekki setja mig á móti því. Það þolir enga bið.

Það hefur komið fram till. um að banna sölu vatns, rafmagns o. fl. til setuliðsins, en ég mun ekki fara út í að ræða hana. Vil ég gefa flm. tækifæri til að útskýra nánar, hvað fyrir honum vaki, því að óskyldu er þar blandað saman. Það þarf að afgreiða þetta mál án þess að blanda fleira saman við það til þess að torvelda afgreiðslu þess.

Eins og ég tók fram áður, geri ég ekki till. um að vísa málinu til n., en vænti þess, að Alþingi afgreiði það eins fljótt og vel og kostur er á.