27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (3619)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hér hafa komið fram síendurteknar fullyrðingar um það, að það horfi alveg eins við um sölu og afhendingu rafmagns og vatns til setuliðsins annars vegar og mjólkursölu til þess hins vegar. Þeir hv. þm., sem þetta bera fram, vita þó miklu betur, vegna þess eins og margtekið hefur verið fram, að mjólkursamsalan hefur lagaskyldu til þess að hafa mjólk til sölu handa bæjarbúum. Það, sem hins vegar hefur gerzt varðandi vatn og rafmagn, er ekki annað en það, að bæjarbúar hafa sjálfir dregið við sig, — ef menn vilja gera mikið úr því, sem þó er ekki rétt, — bæði vatn og rafmagn til þess að láta það setuliðinu í té. Það er svipað því og bændur hefðu dregið við sig mjólk til þess að selja hana til setuliðsins. —

Ef á að bera þetta tvennt saman, þá verður samanburðurinn að vera með réttum hætti. Það er augljóst, að svona liggur málið fyrir. Reykvíkingar eiga einungis við sjálfa sig að sakast um það, hvort vatnsleysi og rafmagnsleysi hér í bænum muni koma af því, að setuliðinu sé látið í té of mikið vatn eða rafmagn, eða hvort það sé af öðrum ástæðum. Og þeir hafa sjálfir talið, að sala á þessum nauðsynjum til setuliðsins væri sumpart óhjákvæmileg og hefði sumpart svo lítil áhrif á skort þessara vörutegunda, að það skaðaði þá ekki að láta þessa sölu eða afhendingu fara fram. Og horfir þetta mál því vissulega öðruvísi við en sala á mjólk til setuliðsins. Hins vegar tel ég þessa þáltill. fara langt fram úr góðu hófi, eins og ég sagði í fyrstu ræðu minni.

Annars er eftirtektarvert, eins og áður hefur verið bent á, ef verjendur mjólkursölumálanna hér geta aldrei haldið sér við umr. um málið sjálft, heldur þurfa að hlaupa frá því í umr. um önnur mál, og getur það ekki komið til af öðru en að þeir finni málstað sinn svo veikan, að hann þoli ekki umr. Hv. 2. þm. S.-M. sannaði ákaflega vel sektartilfinningu sína í þessu máli með því að tala alls ekki um málið, heldur um alla hluti aðra. Hann sagði, að það lægi nær að afla gagna um sölu fisks, rafmagns og vatns og annars, sem hann taldi. En munurinn er bara sá viðkomandi þeim vörutegundum, þó að skortur kunni að vera á þeim nokkur á ýmsum tímum, að þar liggja öll gögn fyrir. Þar er um ekki um neina mótsögn að ræða milli hæstv. atvmrh. annars vegar og hv. þm. V.-Sk. og hv. 2. þm. S.-M. hins vegar, eins og fyrir liggur í þessu mjólkurmáli, sem sí og æ er stagazt á. Og svo lítur út fyrir, að það sé eitthvað, sem þessir hv. andmælendur þessarar þáltill. séu að reyna að fela varðandi málefni það, sem hér er um að ræða, sem getur þó verið í svo góðu lagi sem æskilegt væri. En hvað er þá að fela? En í hinu atriðinu, viðkomandi sölu vatns og rafmagns eða afhendingu þess, liggja öll gögn fyrir. Og eins og hv. 3. landsk. þm. (HG) tók fram áðan, er þar viðleitni til þess að bæta úr, en ekki tekið ásökunum eins og virðist vera föst venja hjá þessum hv. þm., þegar neytendur bera fram réttmætar aðfinnslur, að þá er þeim af þeim svarað með illindum einum, samanber tiltæki þeirra með því að gefa út sérstakt blað með svívirðingum um bæjarbúa, sem kallað er „Bóndinn“ og sumir segja, að sé kostað af mjólkursamsölunni, — ég veit ekki um sönnur á því. En ég treysti því, að sú rannsóknarn. mjólkurmála, sem fram hefur komið till. um með frv. í hv. Nd., að skipuð verði, athugi, hvort það sé rétt.

Varðandi að öðru leyti skort á vatni og rafmagni hér í bænum get ég upplýst það, sem þessir hv. þm. mjög vel vita, að það er öfluglega unnið að því nú að bæta úr í þessum efnum, og verður nú innan fárra daga úr þessu bætt. Ég vildi óska, að hv. andmælendum þessa máls, sem hér liggur fyrir, tækist eins giftusamlega að bæta úr vandkvæðunum á mjólkursölunni og mjólkurskortinum.