17.09.1943
Efri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3795)

40. mál, eignakaup af setuliðinu hér

Utanrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara fyrirspurn hv. 3. landsk., og vil ég í því sambandi taka þetta fram: Ríkisstj. bar fyrir alllöngu fram þá ósk við herstjórnina, að ef til þess kæmi, að hernaðaryfirvöldin selji eitt eða annað af efnivörum, áhöldum eða húsum, þá yrði slík sala gerð eingöngu fyrir milligöngu ríkisstj. eða umboðs, er hún tilnefndi. Var þessum tilmælum strax vel tekið, og var formlega fallizt á þetta og staðfest með bréfaskriftum um miðjan ágúst s. l. Þessi ósk ríkisstj. var fyrst og fremst fram borin til þess að tryggja það, ef til sölu kæmi, að það, sem selt yrði, yrði þeim í hag, sem þörf hefðu fyrir, og án þess að verzlunarálagning þyrfti að koma til. Ætti með þessu fyrirkomulagi að vera komið í veg fyrir brask. Ríkisstj. hefur fyrir nokkrum dögum skipað þriggja manna nefnd til þess að hafa með höndum milligöngu þessara mála, þegar til kemur. Í nefndinni eru: Svanbjörn Frímannsson viðskiptaráðsformaður, formaður nefndarinnar, Hörður Bjarnason arkitekt og Pálmi Einarsson ráðunautur. Jafnframt hefur þessari nefnd verið falið að vera leiðbeinandi um aðgerðir vegna landspjalla, sem orðið hafa vegna byggingar herbúða eða annarra hernaðaraðgerða svo og um önnur mál þessu skyld. Er það von ríkisstj., að þessar aðgerðir leiði til þess að treysta enn frekar góð viðskipti herstjórnarinnar við Íslendinga.