12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls kom upp, eins og hv. þdm. mun reka minni til, ágreiningur um það, hvort almennt ætti að setja það skilyrði, að lögreglustjórinn í Reykjavík ætti að fullnægja lögmæltum skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti. Hv. 1. þm. Árn. (JörB) bar fram till. þess efnis, að það þyrfti ekki að vera. Meiri hl. n. leit þó svo á, að þetta væri réttara að hafa eins og ráð er fyrir gert í frv., og kom það þá fram hjá hv. 1. þm. Árn. (JörB) og fleirum, að rétt væri að setja frekari skilyrði en skilyrði til héraðsdómaraembættis, sem sé, að umsækjandi hefði þekkingu á háttum lögreglumála. Till. 1. þm. Árn. var þá tekin aftur, og nú hefur allshn. komið sér saman um að leggja til, að auk þess að fullnægja lögmæltum skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti, skuli þurfa raunhæfa þekkingu á háttum og stjórn lögreglumanna og skipulagi lögreglumála.

Fyrir hönd allshn. vil ég mælast til, að till. þessi verði samþykkt. Ég skal taka það fram, að ég lít svo á, að þetta sé að nokkru leyti staðfesting á því, sem verið hefur, því að það er kunnugt um síðustu lögreglustjóra fyrir 1939, að þeir fóru utan til þess að kynna sér þessi mál og öðlast þannig nauðsynlega þekkingu. Sá ráðh., sem um þetta fjallar á sínum tíma, leggur svo mat á það, hvort þessi þekking er fullnægjandi. Það er ekkert á móti því að orða þetta svona, en ráðh. þarf að hafa frjálsar hendur í þessu efni. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vildi mæla með þessari till. fyrir n. hönd.

Hins vegar er hér á leiðinni till. frá hv. þm. N.-Ísf. (SB) á þá lund, sem till. sú var, sem við stóðum að á síðasta þ. og allshn. kom sér saman um. En hún er um það, að lögreglustjóraembættið skuli auglýst til umsóknar, enda hafi núverandi lögreglustjóra verið séð fyrir embætti með ekki verri launum. Ég skal ekki fara út í þetta, en vil taka það fram fyrir mína hönd, en ekki í umboði allshn., að ég mun fylgja þessari brtt., enda er hún í samræmi við afstöðu mína á tveim undanförnum þingum.