22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Bjarni Benediktsson:

Ég tel, að þetta frv. hafi að vissu leyti verið ranglega úr garði gert hjá stjórninni. Ég tel misráðið að blanda gamla deilumálinu um það, hver skilyrði lögreglustjóri þurfi að uppfylla, saman við annað meginatriði frv., en það er skipting lögmannsembættisins í Rvík. Það atriðið skilst mér ríkisstj. hafa lagt áherzlu á, og vitað er, að hún hefur góð skilyrði til að dæma þar um. Því máli hefði verið bezt borgið einu sér.

Einnig tel ég, að úr því að ríkisstj. taldi ástæðu til að gera frekari þekkingarkröfur en nú til manns, er gegni lögreglustjórastarfinu, sé það gert út í hött, ef samþ. frv. hreyfði ekkert við þeim manni, sem gegnir embættinu sem stendur. Það er vitað um núv. lögreglustjóra, að líkur eru til, að hann muni eiga eftir að sitja í embættinu ein 40 ár, ef engin sérstök atvik yrðu til að breyta því. Þó að ég dragi ekki í efa framsýni þm. og sérstaklega ríkisstj. í þessu máli, er það vægast sagt út í hött að fara hér að setja lög, sem gera verður ráð fyrir, að ekki sé unnt að framkvæma fyrr en eftir 40 ár.

Þegar þetta er athugað, virðist mér ljóst, að ekki hefði átt að draga þetta deilumál inn í frv. um skipting lögmannsembættisins. Sé ákveðið það skilyrði til embættisgengis lögreglustjóra, að hann skuli vera lögfræðingur, er eðlilegt, að núv. lögreglustjóri verði látinn víkja úr embætti, og það er óskiljanlegt, að ríkisstj. hefði gert frv. þannig úr garði, nema þetta væri tilgangur hennar. En þá væri réttast að taka það beint fram í frv., og það, að ég fellst með nokkrum meðnm. mínum á að samþ. frv. óbreytt, stafar aðeins af, að mér virðist þrátt fyrir þennan óskýrleik vera einsætt, hvað af samþ. frv. leiðir og liggur í hlutarins eðli. Ríkisstj. hlyti að nota sér ákvæði 16. gr. stjórnarskrárinnar og flytja þennan embættismann til.

Um það, hver nauðsyn sé, að lögreglustjórinn sé lögfræðingur, verð ég að segja eins og hv. 1. þm. Eyf., að það ætti aldrei að saka, að hann sé það. En ég hef ekki með bezta vilja getað sannfærzt um, að nauðsyn sé á, að hann sé það. Vitanlega þarf hann lögfræðiþekking á ýmsum sviðum, og í ýmsum málum þarf hann fullkominnar lagaþekkingar og æfingar, en í þeim málum getur hann stuðzt við lögfróðan ráðunaut, færan mann, svo sem nú er til hagað. Það er algengt, að embættismenn bresti þekking á sérsviðum og að þeir gætu ekki gegnt þeim án sérfræðiaðstoðar. Jafnvel ráðherrar þurfa ekki að vera sérfræðingar, dómsmrh. hafa oftar en einu sinni verið ólöglærðir menn, og til að vera fjármálaráðherra eða atvinnumálaráðherra þurfa menn ekkert sérstakt próf. Til að vera borgarstjóri í Rvík þarf ekki verkfræðing, þó að í því embætti þurfi mjög á verkfræðiþekkingu að halda. Ef lögreglustjóri þyrfti fyrst og fremst að vera lögfræðingur, væri það meiningarlaust í frv. að láta sem hugsanlegt sé að komast af án lögfróðs lögreglustjóra næstu 40 ár.

Ég ætla mér alls ekki að fara að tala hér um núv. lögreglustjóra Reykjavíkur. Ég tel sjálfsagt, að margt megi að honum finna eins og öðrum mönnum, og hann var ungur, þegar hann var skipaður í þetta vandasama embætti. En ég hef ekki getað sannfærzt um, að þeir gallar, sem kunna að hafa verið á embættisrekstri hans, stafi af skorti hans á lögfræðilegri þekkingu. Og það mun yfirleitt ekki tíðkast úti um heim, að lögreglustjórar séu lögfræðingar, heldur mun annarrar þekkingar krafizt öllu frekar. Það kann að vera, að lögfræðilegrar þekkingar sé krafizt af lögreglustjórum í Danmörku, enda hefur það lengst verið okkar fyrirmynd, en það er fullvíst, að í stærri löndum Evrópu er það ekki almenn krafa. Og eftir að búið er að margskipta gamla bæjarfógetaembættinu og takmarka lögreglustjórastarfið nær eingöngu við að hafa stjórn á lögregluliði bæjarins, þá verð ég að segja, að ég, sem hef lært í lögfræðideildinni og starfað þar sem kennari í mörg ár, get ekki komið auga á, að þar séu iðkuð þau fræði, sem geri menn sérstaklega hæfa til að standa fyrir lögregluliði. Og þó að einhverjir séu óánægðir með lögreglustjóra og vilji, að honum verði vikið frá, þá mega þeir ekki blanda því saman við þetta mál og fara að setja óeðlilegar kröfur fyrir þessari embættisveitingu. Þá væri betra að ganga í gegnum þau störf, sem lögreglustjóra eru ætluð, velja úr þau, sem krefjast lögfræðilegrar þekkingar, ef einhver eru, og leggja þau undir lögfræðing bæjarins, en halda lögreglustjórninni út af fyrir sig. Má minna á það, að þegar á reyndi í hinu svo nefnda Ólafs Friðrikssonar uppþoti haustið 1921, þá var það ráð tekið að skipa sérstakan lögreglustjóra, sem var ekki lögfræðingur, því að þegar til harðræða kom, sannaðist, að lögfræðingur var ekki allra manna færastur að standa í þeim stórræðum, sem menn bjuggust við, að kynnu að bera að höndum.

Ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, tel ég ómögulegt annað en flytja núverandi lögreglustjóra til. Honum yrði ókleift að standa í stöðu þess, sem á að halda uppi lögum og reglu. Hann stæði þar of illa að vígi gagnvart lögbrjótum. Það væri ekki mikill vandi fyrir þá að segja sem svo: „Þú skalt ekki segja mikið, góði minn, sem fullnægir ekki einu sinni þeim löglegu kröfum, sem gerðar eru til embættisins.“ Þessa aðstöðu gæti enginn maður staðizt í 40 ár. Enda veit ég, að hæstv. ríkisstj. hefur hlotið að hafa í huga að færa manninn til, hvað svo sem látið er í veðri vaka.

Fyrir mitt leyti vil ég ekki, að þetta sé lögleitt, að lögreglustjóri skuli vera lögfræðingur. Ég hygg það sé annað, sem starfið þarfnast meir. Ég hef því leyft mér að bera fram brtt. í þá átt, og aftan við hana hef ég hnýtt nokkurs konar bráðabirgðaatriði. Það fjallar um það, eð ef embættið er fyllt á ný, á meðan Rvík greiðir mestan kostnaðinn við lögreglustarfið, þá sé samþykkis hennar leitað um skipun manns í embættið. Það er sjálfsagt, þar sem þessi maður fer með bæjarins fé, — eins og nú standa sakir nemur þetta um hálfri annarri milljón kr. árlega, — en bæjarstjórn hefur nú ekkert að segja um það, hvernig því er varið. Og þó að skipunarvaldið sé hjá ríkisstjóra, þá á ekki að skipa menn í starfið nema með samþykki bæjarstjórnar. Ég tek það fram, að það er aðeins gert ráð fyrir, að þetta standi, á meðan kostnaðurinn við lögregluhaldið er greiddur úr bæjarsjóði, en það á hann ekki að vera, heldur af ríkinu, eins og lagt hefur verið til í frv., sem bráðlega mun koma fyrir hv. deild.