23.11.1943
Efri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Hv. þm. Barð. talaði hér um þann kostnað, er skipting lögmannsembættisins mundi hafa í för með sér, og benti á það samtímis, að skipting lögreglustjóraembættisins hefði kostað um ½ millj. kr. Þessi kostnaður, sem hann nefndi, mun nú að mestu stafa af því, að lögregluþjónum var samtímis fjölgað, og er þessu því ekki saman jafnandi. Ég gæti hugsað mér, að í þessu tilfelli þyrfti enga mannafjölgun, en laun annars fulltrúans kæmu upp í laun annars dómarans. Ekki þarf að auka við húsnæði, eftir því sem mér er sagt. Það mun nægja báðum. Nú, þá mundu verða sameiginlegar skrifstofustúlkur og gjaldkeri. Ég vona því, að þetta þyrfti ekki að hafa tilfinnanleg útgjöld í för með sér.

Ég skoða það sem gamanyrði hjá hv. þm. Barð., að ríkisstj. sú, er nú er í landinu í óþökk allra hv. þm., hafi komið fram með þetta frv. til að auka dýrtíðina, því að sambandið hér á milli er alls ekki til. Verkanir þessarar ráðstöfunar á dýrtíðina eru engar, eru = 0. En náttúrlega er það gaman fyrir þennan hv. þm. og ýmsa aðra að öðlast fullnægju við að segja þetta um ríkisstj. En það gæti verið, að landslýðurinn álíti, að sá 51 þm., sem er hér á þingi, ætti líka einhvern þátt í, að ekki hefur tekizt betur að vinna á dýrtíðinni en raun ber vitni.