04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja eina brtt., sem er 14. liður á þskj. 314. Þessi brtt. mín fer fram á það, að hæstv. Alþ. mætti þóknast að veita frú Halldóru Ólafsdóttur heiðurslaun fyrir trjárækt í skólagarðinum við Menntaskólann á Akureyri. Það er öllum kunnugt, sem komið hafa til Akureyrar og séð menntaskólagarðinn, að sá garður er hinn prýðilegasti. Og þeir, sem kunnugir eru, vita, að það er verk þessarar frúar. Hún hefur í tæpan aldarfjórðung verið þar við skólann og hefur varið öllum sínum tómstundum á sumrin til þess að fegra garðinn og prýða. Árangur þessa starfs hennar er mjög mikill. Nú hefur hún hins vegar aldrei fengið nein laun fyrir þetta mikla starf sitt, og henni hefur ekkert verið fyrir það greitt. Og þegar tillit er tekið til þess, að þau hjón eru efnalítil og eru nú væntanlega mjög bráðlega að hverfa frá þessu menningarstarfi sínu við skólann á Akureyri, þá virðist það einsætt, að hæstv. Alþ. geri það að sæma frúna heiðurslaunum fyrir þetta mikla starf. Mér er kunnugt um það, að fjölmargir af hv. alþm. hafa bundizt samtökum um það að stuðla að því, að Alþ. veiti þessi heiðurslaun, og er ég þess vegna viss um, að Alþ. lætur sér ekki annað sæma heldur en að samþ. þessa brtt.