05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Hlíðar:

Herra forseti. Á þskj. 331 leyfi ég mér að bera fram 2 brtt. Sú fyrri er við 3. gr. A-lið, um eignabreytingar landssímans, og er um framlag til póst- og símahúss á Akureyri. Í fjárl. þessa árs eru áætlaðar 200 þús. kr. til þessarar byggingar og í frv. því, sem hér liggur fyrir, áætlar ríkisstj. einnig 200 þús. kr. framlag á næsta ári, m. ö. o., það er játað, að þessi bygging sé nauðsynleg. Nú er þetta þannig á veg komið, að það er búið að steypa kjallara hússins og 1. hæð og komið nokkuð áleiðis með 2. hæð, og er nú búið að byggja fyrir 245 þús. kr. og auk þess kaupa efni fyrir 135 þús. kr., en það mun næstum nóg í húsið. Það er því alls búið að kosta til þess 380 þús. kr., en það er öll sú upphæð, sem veitt er í fjárl. yfirstandandi árs, og auk þess nær því öll sú fjárveiting, sem er áætluð í fjárl. fyrir næsta ár. Ef þessi liður verður því ekki hækkaður, þá er útlit fyrir, að vinna við bygginguna stöðvist þegar á næsta ári eða um næstu áramót, því að það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að haldið verði áfram að byggja svo stórt hús, nema heimild sé til þess í fjárl. Ég hef því hér farið bónarveg til Alþ. til þess að fá þessa fjárveitingu hækkaða upp í 300 þús. kr., því að það er afleitt að stöðva nú framkvæmdir við byggingu, sem er komin svo langt áleiðis. Það er ekki hægt að hafa nein not af henni eins og er, því að enn þá er ekki hægt að innrétta fyrstu hæð hússins, sem er ætlunin að nota fyrir póst. Ég vona, að hv. þm. sjái, hve brýn þörf er á þessu og að þeir samþ. því þessa hækkun. Till. mín er þó í raun og veru ófullnægjandi, en ef hún væri samþ., mætti þó halda áfram að byggja.

Hin brtt., sem ég á á sama þskj., er í raun og veru tekin upp af minni hl. fjvn., en ég var ekki búinn að sjá þá brtt., en ég lagði mínar brtt. fram, en þessi brtt. mín er í rauninni shlj. brtt. 7. b. á þskj. 316. Mín brtt. er við brtt. fjvn. á þskj. 296 um að á eftir 12. gr. X. b. komi nýr liður um framlag til sjúkrahússbyggingar á Akureyri. N. hefur lagt til, að þetta framlag verði 200 þús. kr., en minni hl. hefur lagt til, að það yrði 500 þús. kr., og er það sama upphæð og ég legg til í brtt. minni á þskj. 331.

Forsaga þessa sjúkrahúsmáls á Akureyri er löng, og hv. þm. mun það kunnugt, að ég hef farið fram á framlög til þess að gera viðbótarbyggingu við spítalann. Þessi bygging er nú komin upp, og bætti hún úr brýnni þörf, en það nær skammt. Aðsóknin hefur verið svo mikil, að húsrúmið hrekkur ekki nándar nærri til þess að fullnægja þörfinni. Spítalinn er líka svo gamall og af sér genginn, að fyrir nokkrum árum var það af heilbrigðisyfirvöldum landsins talið næstum óverjandi að nota hann í því ástandi, sem hann þá var, en síðan hafa verið gerðar nokkrar endurbætur á honum og reynt að baslast við hann þannig. Það er ekki einungis þörf Akureyrarbæjar, sem gerir þetta mál aðkallandi, heldur kallar héraðið allt og allur Norðlendingafjórðungur. Bæjarstjórnir Akureyrar og Siglufjarðar og sýslunefndir Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu hafa samþ. áskoranir til Alþ. um byggingu þessa spítala, sem er a. m. k. nokkurs konar fjórðungsspítali, ef ekki landsspítali. Það hefur líka komið fram krafa um það að gera þennan spítala að nokkurs konar ríkisspítala, sem sé rekinn á kostnað ríkisins, og bæjarstjórn Akureyrar hefur samþ. ályktun um að skora á ríkisstj. að bera fram nú á þessu þingi frv. um að gera hann að ríkisspítala. Ríkisstj. hefur ekki séð sér þetta fært, en bæjarstj. hefur lagt það til sem varatill., að veittur yrði ríflegur fjárstyrkur til byggingar þessa sjúkrahúss, og er það í samræmi við mína brtt. Aðsókn hefur verið svo mikil að þessari stofnun, sem hefur ekki nema 50 sjúkrarúm, að það er ekki hægt að segja, að það hafi verið nokkur skipan þar á. Í þessum þrengslum hefur einnig jafnvel orðið að hafa vitfirringa, sem ekki hefur verið hægt að koma á Klepp, og hefur það eðlilega verið mjög óþægilegt. Ef við athugum legudaga sjúklinga á spítalanum, þá voru þeir s. l. ár 19765. Þar af voru legudagar sjúklinga frá Akureyri aðeins rúmlega þriðjungur, eða 7962, og það má segja, að flestar sýslur hafi átt sjúklinga, sem hafa legið þarna lengri eða skemmri tíma. Þarna er t. d. Eyjafjörður með 5000 legudaga, S.-Þingeyjarsýsla með 2082, Reykjavík sjálf með 1392, N.-Ísafjarðarsýsla með 797, V.-Ísafjarðarsýsla með 246, Árnessýsla með 222, Strandasýsla með 218 og svo áfram allt til Hornafjarðar, og útlendingar hafa þarna 91 legudag. Af þessu má sjá, að þetta er ekki spítali fyrir Akureyringa eina, heldur er þetta í raun og veru landsspítali, þótt honum sé haldið uppi af Akureyrarbæ með aðeins lítils háttar styrk frá ríkinu.

Ég vona því, að þessi till. mín mæti skilningi hér á Alþ. og að menn sjái, hve brýn nauðsyn er hér á, enda liggja svo sterk rök fyrir því, að spítalinn þurfi að komast upp, að varla mun hægt að komast hjá því að veita ríflega fé til byggingar hans. Ef hins vegar Alþ. skilur ekki þessa nauðsyn, þá er til önnur leið fyrir Akureyringa, en það er að byggja sér lítinn spítala, sem aðeins mundi nægja þeim einum, og veita þá engum öðrum aðgang þar, en þannig mundi skapast svo mikið öngþveiti, að við mundum fæstir vilja bera ábyrgð á því. Ég vona því, að Alþ. líti með skilningi og velþóknun á þessa till. mína og samþ. að veita það fé, sem farið hefur verið fram á.