01.11.1943
Efri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

24. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Bjarni Benediktsson:

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þá velvild, sem hann sýndi með því að fresta þessu máli, þegar það var tekið til 3. umr., eins og ég bað hann um, vegna þess að fram þurfti að fara athugun á frv. í því skyni að ganga úr skugga um, hvort lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurbæjar gæti runnið inn í sjóðinn. Nú hefur mér skilizt, að ef starfsmenn Reykjavíkurbæjar eigi ekki að missa töluverðs í, þurfi að gera verulega breyt. á þessu frv. Það má segja, að þetta mundi verða óhagstæðara að sumu leyti en núverandi skipun þessara mála, en að sumu leyti aftur hagstæðara. Það hefur nú ekki verið talið fært að umbylta grundvelli frv. með því að bera fram brtt. En það er ljóst, að ef úr því á að verða, að starfsmenn bæjarfélagsins gangi inn í sjóðinn, þarf allvíðtæka samninga við sjóðsstj. og starfsmennina sjálfa. Heppilegast mun væntanlega vera að bíða, þangað til frv. sjálft er komið í gildi, og væri þá hægt síðar að bera fram sérbrtt. heldur en breyta frv., eins og nú háttar til. Ég hef því horfið frá því ráði að bera fram brtt. að þessu sinni, en vænti þess, að síðar megi takast samkomulag um þessa sameiningu sjóðanna.

Ég vil benda á það, að fyrirsögn frv. er villandi, þar sem talað er um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en það skiptir raunar ekki neinu máli í þessu sambandi. Hins vegar ætla ég að leyfa mér að bera fram tvær brtt. við þessi tvö frv., sem hér liggja fyrir. Sú fyrri er við frv. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að við 8. gr. bætist, á eftir orðinu „ríkisábyrgð“, orðin „skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga“. Síðari brtt. er við frv. um lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra, að sams konar breyt. verði gerð á 6. gr. þess frv. Í till. felst, að fé þessara sjóða skuli einnig mega varðveita í skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, jafnvel þó að þau hafi ekki ríkisábyrgð. Þetta ætti ekki að saka, því að sjóðsstjórnin hefur í hendi sér, hvort hún lánar út fé gegn slíkum skuldabréfum, ef hún telur þau ekki nægilega trygg. Nú er það svo, að bæjar- og sveitarfélög leggja fé til þessara sjóða, til dæmis fara þangað verulegar upphæðir frá Reykjavík, og sýnist þá ekki nema sanngjarnt, að sjóðirnir megi ávaxtast á þeirra skuldabréfum.

Ég vil biðja hæstv. forseta að taka við þessum skrifl. brtt. mínum og mælast til þess við hv. d., að hún samþ. þær.