11.12.1943
Neðri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

24. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) :

Herra forseti. Fjhn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, en ágreiningurinn er þannig vaxinn, að hann snertir ekki efni málsins. Um það er enginn ágreiningur. N. er sammála um, að rétt sé að lögfesta frv. og næsta frv. á dagskránni, um lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra. Ég þarf því ekki að hafa langa framsögu, enda er málið kunnugt þm., þar sem það hefur legið fyrir tveimur þingum. Því fylgdi upphaflega ýtarleg grg. frá mþn., sem undirbjó það, og frv. með þeirri grg. lá fyrir á síðasta reglulega þ.

Breyt. sú, sem felst í frv. á gildandi l., er allveruleg. Í stað þess að lífeyrissjóður var áður aðeins fyrir starfsmenn ríkisins í þrengri merkingu, þ. e. þá, sem laun taka eftir launal., er nú svo til ætlazt, að aðgang að lífeyrissjóði geti átt allir starfsmenn í þjónustu ríkisins. Starfsvið sjóðsins er þar með víkkað mjög mikið og gert ráð fyrir, að aðgang að honum geti átt starfsmenn bæjar- og sveitarfél. og sjálfseignarstofnana í þágu almennings, héraðsskólakennarar o. fl., og svo er gert ráð fyrir þeirri breyt., að ríkissjóður greiði fyrst um sinn nokkru meira en til var tekið í fyrra frv., helming iðgjalda, því að nokkuð brestur á, að stofnsjóðirnir nægi til að öruggt sé, að sjóðurinn standi undir öllum skuldbindingum sínum. Í stað þess að iðgjöld séu greidd af grunnlaunaupphæð og ekki hærri en 5000 kr., gerir þetta frv. ráð fyrir, að borguð séu iðgjöld af grunnlaunaupphæð á hverjum tíma að viðlagðri verðlagsuppbót. Hámark lífeyris er 60% af meðallagslaunum síðustu 10 starfsára með uppbót, en var áður 75% af hámarksgrunnlaunum án uppbótar. Gert er ráð fyrir örorku og að lífeyrir ekkna og barna geti farið hækkandi.

Í grg., sem frv. fylgdi frá n., var því nokkuð lýst, hvaða kostnað mundi leiða af þessu fyrir ríkissjóð, og var gert ráð fyrir, að í ríkissjóðs hlut kæmi að greiða 6% af 6 millj. eða 369 þús. kr. á ári að grunnlaunum til, en miðað við vísitölu 250 tæpa l millj. Mér skilst, að minni hl. geri ráð fyrir allmiklu hærri upphæð, eða allt að 2 millj., með það fyrir augum, að með séu taldar þær stofnanir, sem veittur er aðgangur að sjóðnum, auk fastra embættismanna. En ég hygg ekki, að iðgjaldagreiðslur ríkisstofnana, þó að allt sé með talið, yrðu svo miklar. Í undirbúningi hefur verið samning nýrra launal. og í því sambandi er talið, að núverandi grunnlaun allra starfsmanna ríkisstofnana nemi ekki 10 millj. eða með vísitölu 250 tæpum 25 millj., og er þá greitt af hálfu ríkissjóðs og stofnananna 1½ millj.

Þess ber að gæta, að samkv. núverandi fyrirkomulagi greiðir ríkissjóður töluvert til þessara hluta, því að eins og er, mun ríkissjóður greiða verðlagsuppbót á allan lífeyri, sem greiddur er, auk þess sem ríkissjóður greiðir eftirlaun ýmsum starfsmönnum við stofnanir á vegum ríkisins, sem hafa ekki haft aðgang að lífeyrissjóði, svo að það er fjarri því, að hér sé um ný útgjöld að ræða. Auk þess er það svo, að ef það kemur í ljós, að iðgjaldagreiðslur eru meiri en nauðsyn krefur til að tryggja sjóðinn, skulu iðgjöld, sem ríkisstofnanir greiða, lækkuð á undan greiðslum starfsmanna.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa lengri framsögn. Þm. þekkja málið, ágreiningur er raunverulega enginn í n., og Ed. afgreiddi málið ágreiningslaust. En þegar hv. minni hl. hefur gert grein fyrir till. sínum, mun ég víkja að þeim.