16.12.1943
Neðri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

24. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. ( Skúli Guðmundsson) :

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði um þetta, vil ég benda á, að það ætti að vera hægðarleikur, jafnvel þótt þessi d. gerði við þessa síðustu umr. þessa breyt. á frv., að koma því gegnum þingið. Það mun verða fundur eða jafnvel fundir í Ed. í dag, og það ætti að vera hægt að ljúka málinu, þó að löguð væru augljós vansmíði, sem á því eru. Þm. sagði, að hægt væri að gera lagfæringar á því á næsta þingi, en það er ekki vitað, á hvern hátt þinghald verður á fyrri hl. næsta árs. Það er talað um, að þing komi saman í næsta mánuði, en það er allt í óvissu um, hve lengi það stendur, og það kostar alveg eins mikla fyrirhöfn að koma fram breyt. á þessum l. og nýju frv. Breyt. þarf alveg eins að fara gegnum 6 umr. Mér finnst það ekki skynsamleg vinnuaðferð að afgr. frv. þannig, að það sé með augljósum smíðagalla, svo að það þurfi að fara að koma með breyt við það þegar á næsta þingi. Viðvíkjandi því, sem þm. sagði, að það gæti komið til mála að hafa þetta 60%, eins og er í frv. að öðru leyti, en þá er þess að gæta, að þeir, sem þetta ákvæði snertir, kunna í mörgum tilfellum að hafa greitt iðgjald af hærri launagreiðslum en aðrir, og því er sanngjarnt, að hámarkið hjá þeim sé lítið eitt hærra.