30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr., enda hefur utanrrh. gefið svo glöggar upplýsingar um þetta mál. En eitt atriði vil ég taka fram. Ég hef lýst yfir, að ég muni greiða atkv. með þessu máli. Ég held að vísu, að það fyrirkomulag að hafa samvinnuverzlun og samlagaverzlun sé að jafnaði bezta fyrirkomulagið, og það væri æskilegt, að svo reyndist hér. En ég er í nokkrum vafa um það, að svo verði undir þeim kringumstæðum, sem hér eru til staðar. Og ég er hræddur um, að það sama komi í ljós, þegar þetta fyrirkomulag verður tekið upp, og átti sér stað í viðskiptum verðlagsn. og olíufélaganna. Þó að ég greiði atkv. með frv., þá er ég í raun og veru þeirrar skoðunar, að það sé mikið vafamál, hvort hér dugi nokkuð annað en einkasala til þess að eiga í fullu tré við þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli. Þetta vil ég taka fram, um leið og ég greiði atkv. með málinu. Og það er ómögulegt að loka augunum fyrir því, að þó að við stígum þetta skref nú og séum sannfærðir um það, að þetta verzlunarfyrirkomulag, sem hér í frv. er lagt til, að verði, sé undir venjulegum kringumstæðum bezta fyrirkomulagið, þá getum við átt von á því að þurfa að gera ráðstafanir á nýjan leik í þessu máli síðar.