17.09.1943
Neðri deild: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

48. mál, verðlag

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þó að ég ekki á þessu stigi þessa máls ætli að taka neina afstöðu til þess, þá get ég ekki komizt undan því að segja nokkur orð til að mótmæla nokkru af þeim staðleysum, sem hv. þm. Siglf. sagði í sinni framsögu. Hann hélt því fram, að mjólkurverðlagsn. hefði brotið samkomulag það, sem orðið hefði í sex manna n., með því að ákveða mjólkurverð og með því að ákveða það hærra en álit sex manna n. gefur ástæðu til. Hvort tveggja þetta er ósannindi. Hann upplýsir, að sex manna n. hafi talið kostnaðinn við vinnslu og dreifingu mjólkurinnar 30 aura, og heldur, að mjólkurverðið hefði ekki þurft að vera nema kr. 1,53. Þetta er líka alrangt, og skal ég nú sanna þm. Siglf. hvort tveggja. Það er rangt, að fyrir sex manna n. lægju upplýsingar um, að dreifingarkostnaðurinn 1942 hefði verið 30 aurar á lítra. N. mun hins vegar hafa verið með þessa tölu og hafa fundið hana þannig að draga meðalverð útborgað til bænda, en það var 1942 87 aurar á lítra, frá 117, en það var sem næst því meðalútsöluverð á mjólk í bænum. En 87 aurar voru greiddir sem meðalverð til bænda fyrir alla þá mjólk, er þeir höfðu sent búunum, en einungis liðugur helmingur af henni var seldur sem neyzlumjólk á 117 aura að meðaltali; úr hinu var unnið, og það gaf miklu minna en 117 aura á lítra.

Þm. Siglf. finnst, að við í mjólkurverðlagsn. hefðum ekkert verð átt að setja á mjólk nú, heldur hefði verðlagseftirl. átt að gera það. Þessu til áréttingar les hann kafla úr skýrslu sex manna n., þar sem tekið er fram, að verð mjólkur og mjólkurvara verði „ákveðið af þeim aðilum, sem lög mæla fyrir um“, og telur æskilegt, að það verði háð eftirliti eða yfirstjórn verðlagsstjóra. Hefur nú lögum verið breytt, svo að verðlagsn, séu ekki hinir „réttu aðilar“? Ég veit ekki til þess. Og ég held, að þm. Siglf. geti ekki bent á, að svo hafi verið gert. Og þangað til það hefur verið gert, var það skylda nefndanna að ákveða verðið. Það er því hrein fjarstæða og líklega sögð mót betri vitund, að n. hafi með því að ákveða útsöluverð á mjólk og mjólkurvörum á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar brotið samkomulag sex manna n. Og þingmaðurinn sannar þetta sjálfur með því nú að flytja frv. um, að nefndirnar skuli ekki hér eftir ákveða verðið, heldur verðlagseftirlit ríkisins. Þess hefði lítil þörf verið, ef það þegar væri gert.

En þá er hitt, hvort nefndin hafi brotið samkomulagið með því að ákveða of hátt verðlag á mjólk og mjólkurvörum, þegar það var ákveðið nú síðast. Ég skal nú sanna hv. þm., að verðið, kr. 1,70 á nýmjólk, og svo það verð á mjólkurvörum, er n. ákvað nú þann 14. þ. m., er fullkomlega í samræmi við samkomulagið í sex manna n. og gefur bændum kr. 1,23 fyrir lítrann að meðaltali.

1942 sendu bændur búunum á verðjöfnunarsvæðinu 14,858,932½ lítra af mjólk til að selja og vinna úr (Hafnarfjarðarbúið ekki með). Þegar á að reyna að finna, hvað bændur eiga að fá fyrir mjólk sína næsta ár, verður fyrst að reyna að vita, hvað hún muni verða mikil, og ég áætla, að hún muni verða álíka mikil og 1942 (1940, 41 og 42 var mjólkin svipuð). Enn fremur verður að áætla, hvernig mjólkin selst, og ætla ég, að hún skiptist svipað í vinnslumjólk og neyzlumjólk og að unnar verði svipaðar afurðir og 1942. Ég veit vel, að um þetta má deila. En ég finn ekkert, sem réttlæti að byggja áætlun á öðru. 1942 seldist sem sagt 7,702,235 lítrar af 14,858,932 lítrum sem nýmjólk. Úr vinnslumjólkinni var unnið yfir 13 þús. kassar af Baulumjólk, 84 tonn af smjöri, 560 tonn af skyri, 350 tonn af rjóma, 26 tonn af mysuost og 145 tonn af ýmis konar ostum. Eftir því verði, er mjólkurverðlagsn. setti á þessar vörur um síðast liðin áramót, þá hefði fengizt fyrir þær allar nærri 24 millj. kr. eða kr. 1,61 á lítra brúttó.

Menn gleyma því stundum, að það eru unnar vörur úr meiri eða minni hluta mjólkurinnar, sem seljast alltaf og alls staðar lægra en nýmjólkin óunnin, og því gefur öll mjólkin ekki verð neyzlumjólkurinnar, heldur það, sem út kemur, þegar þunga allrar innveginnar mjólkur er deilt inn í það, sem fæst fyrir allt, sem inn kemur fyrir selda nýmjólk og vörur unnar úr mjólkinni. En hver er þá allur kostnaður við vinnslu og dreifingu mjólkurinnar? Rekstur Borgarnesbúsins, flutningur þaðan til Reykjavíkur, rekstur Mjólkurstöðvarinnar, Samsölunnar og búðanna, rekstur Flóabúsins og flutningur þaðan til Reykjavíkur kostaði 1942 um 21 eyri á innveginn mjólkurlítra, og er þá ekki talið með í því það, sem lagt var til hliðar til byggingar nýrrar mjólkurstöðvar eða varið var til sérstakra aðgerða, sem teljast vera fram yfir eðlilega fyrningu.

Allt árið 1942 fór rekstrarkostnaðurinn stöðugt hækkandi. Meðalrekstrarkostnaður þess árs sýndi því ekki, hver kostnaðurinn væri nú. Þess vegna var líka rannsakað, hver hann hefði orðið fyrstu sex mánuði þessa árs. Þá reyndist hann vera 34 aurar á innveginn mjólkurlítra. Nú liggur fyrir, að bændur eigi að fá kr. 1,23 fyrir lítrann að meðaltali. Hverjum manni má því ljóst vera, að þegar kostnaðurinn er 34 aurar og bændur eiga að fá kr. 1,23, þá þarf að fá kr. 1,57 fyrir hvern innveginn mjólkurlítra brúttó. Áður sýndi ég, hvernig það mundi hafa fengizt kr. 1,61 fyrir innveginn mjólkurlítra 1942 með verðinu 1943. Nú er ljóst, að ekki þarf að fá nema kr. 1,57 eða 4 aura minna á lítra, til þess að bændur geti fengið kr. 1,23 að meðaltali. Bæði mjólkurverðið og verð mjólkurvaranna var því lækkað um 2,5%, og með því fæst nákvæmlega kr. 1,57 brúttó fyrir innveginn mjólkurlítra, þegar gert er ráð yrir jafnmiklu mjólkurmagni og kom 1942 og eins skipt í söluvörur, en þær seldar 2,5% lægra en verðlag þeirra var, áður en ríkið fór að greiða nokkurn hluta af verðinu fyrir neytendur.

Af þessu hljóta allir að sjá, hvílík fjarstæða það er að halda því fram, að mjólkurverðlagsn. hafi sett verð mjólkurinnar og mjólkurvaranna svo hátt, að hún með því hafi brotið eitthvert samkomulag sex manna n. og lagt einhvern mjólkurskatt á „alþýðu manna“ fram yfir það, sem eðlilegt er, eins og ástandið í landinu raunverulega er.

Þm. Siglf. vildi láta líta svo út sem verulegur ágreiningur hefði verið milli meiri og minni hl. mjólkurverðlagsn. Þetta er tæplega rétt. Ágreiningurinn kom ekki fram í öðru en því, að meðan meiri hlutinn miðaði við ársáætlun um verð og annað, þá vildi minni hlutinn breyta oft um mjólkurverð og taldi, að nú, meðan mjólkurmagnið er minnst, svo að meginið er selt sem neyzlumjólk, þyrfti ekki að hafa verðið eins hátt og ef miðað væri við ár, og vildi hafa það kr.

1,62 á lítra í útsölu í stað kr. 1,70. Þetta sjónarmið kemur mjög til athugunar. En eins og málið lá þarna fyrir, kom ekki til mála að samþykkja það, því að ekki hafði neitt verið rannsakað, hvort talan 1,62 byggðist á líkum eða ekki. Sé horfið að því ráði, að verðleggja mjólkina oft, láta verðið breytast mánaðarlega eða svo, þá verða menn að gera sér ljóst, að tvö atriði, sem hafa mjög áhrif á mjólkurverðið, eru mjög breytileg. Það mætti reyndar segja, að atriðið væri bara eitt, sem sé mjög breytilegt mjólkurmagn eftir árstíðum, en það verkar á tvo ólíka vegu á mjólkurverðið. Þegar mjólkurmagnið verður lítið, þá minnkar vinnslumjólkin, og um leið hækkar það, sem fæst fyrir hvern lítra brúttó og getur komizt upp í útsöluverð nýmjólkur, ef innvegið mjólkurmagn er ekki meira en það, sem daglega selst sem nýmjólk. Öfugt verður það, sem fæst brúttó fyrir innvegnu mjólkina, því minna á lítra sem meira er af vinnslumjólk, þ. e. sem mjólkurmagnið til búsins vex. Þegar það nú er athugað, að mjólkurmagnið er meira en helmingi meira, þegar það er mest en þegar það er minnst, er augljóst, að það, sem fæst brúttó upp úr mjólkurlítranum, er mjög misjafnt eftir mánuðum. En svo verður kostnaðurinn líka misjafn. Hann er nokkuð jafnhár alla mánuði ársins, þó að magn flutninga frá búunum til Reykjavíkur og erfiðleikar að vetrinum geti breytt kostnaðinum nokkuð eftir mánuðum, án tillits til mjólkurmagns. Eigi því mjólk hvers mánaðar að bera uppi kostnað mánaðarins, þá verður kostnaðurinn á innveginn lítra langmestur þá mánuðina, sem mjólkurmagnið er minnst og brúttó verðið kemur bezt út. Ég er því ekki viss um, hvort það yrði mikil breyting, sem fram kæmi, þó að farið yrði að breyta verðinu oft. En málið er þess vert, að það sé athugað, en það hefur alls ekki verið gert enn.

Ég vænti nú, að hv. alþm. sjái, að það var tekið fullt tillit til álits sex manna n. og verðlagið hnitmiðað við það, að bændur fengju að meðaltali kr. 1.23 fyrir innveginn mjólkurlítra næsta ár. Og allir vita og engir betur en flm. að frv. því, er hér liggur fyrir, að verðlagsnefndunum bar skylda til að ákveða afurðaverðið. Það er því alrangt að tala um, að mjólkurverðlagsn. hafi brotið skyldur sínar með því að ákveða verðið og brotið samkomulag sex manna n. með því að ákveða það of hátt. N. hefur einmitt farið eftir því nákvæmlega, og verði horfið að því ráði að láta verðlagseftirlit ríkisins hafa einhvers konar yfireftirlit með verðákvörðun nefndanna, þá mun ég, á meðan ég er formaður mjólkurverðlagsn., hlíta því. Til hins má þm. Siglf. ekki ætlazt, að ég hlíti því, meðan það er ekki til.

Minni hluti mjólkurverðlagsnefndar kom með varatill. um að fela ríkisstj. að ákveða mjólkurverðið. Mér datt aldrei eitt andartak í hug að vera með þeirri fjarstæðu. Mjólkurverðlagsn. bar að ákveða verðlagið og hefði hún ekki gert það, hefði hún svikizt undan skyldum sínum. Hitt var svo ríkisstj. að ákveða, hve mikinn þátt hún vildi láta ríkið taka í því að borga mjólkurverðið niður. Það hefur hún nú gert. Hún hefur ákveðið, að ríkið greiddi 25 aura af verði hvers lítra, en neytandinn kr. 1.45. Við þetta hef ég ekkert að athuga. Og þó að það verði síðar rétt af, ef það hefur sýnt sig, að t. d. tilkostnaður vex, svo 25 aurarnir nægja ekki, eða að meira selst sem neyzlumjólk en 1942, svo að 25 aurana þurfi ekki alla til þess að bændur geti fengið kr. 1.23, þá hef ég ekki nema gott um það að segja, því að ýmislegt bendir til þess, að þeim, sem mest vinna að því að hækka allan rekstrarkostnað við alla framleiðslu, muni kannske takast að hækka enn rekstrarkostnað við vinnslu og dreifingu mjólkurinnar. Og þá þykir mér gott að vita, að meira verður látið en 25 aurarnir, ef á þarf að halda og að bændum verður alltaf tryggt sitt.