08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef því miður ekki heyrt þær umr. allar, sem hér hafa farið fram, en þó nóg til þess, að ég tel mér ekki fært að sitja hjá með öllu við þessar umr., sérstaklega þar sem hæstv. ráðh. eru ekki viðstaddir, en til stj. hafa ýmis orð fallið.

Hv. 2. þm. N.-M. innti eftir því, hvað verða ætti af þeim frv., sem nú bíða úrlausnar: Skattal., launal. og fleiri l., sem hann nefndi. Þetta frv. segir ekkert um það. Það er alveg sama, hvort samkomudagur Alþ. er ákveðinn 1. maí, 1. sept. eða 1. okt. Það eru alveg sömu möguleikar á því að afgr. þessi frv., hvað sem samkomudeginum líður. Næsti samkomudagur Alþ. hefur lítil eða engin áhrif á það, hvort þessi mál verða afgr. (PZ: Hæstv. ráðh. segir sjálfur, að lokið sé að afgr. öll aðkallandi mál, og ég spurði, hvort búið væri að afgr. þau.) Það má vænta þess, að þau mál verði afgr. á þessu þ., hvort sem samkomudagur Alþ. verður ákveðinn 1. maí, 1. sept. eða 1. okt. Það breytir engu um afgr. þessara l., hvenær samkomudagur Alþ. verður ákveðinn. Hv. þm. sagði einnig, að hér væri blandað saman persónulegum óskum þm. og skyldum þeirra, og hann fullyrti einnig, að hæstv. forsrh. gerði sér ekki grein fyrir þeim mismun, sem þar er á milli. Ég held, að þetta sé alveg ómaklega mælt hjá hv. þm. Ég sé ekki, að í þessu frv. sé á neinn hátt blandað saman persónulegum óskum og þeim skyldum, sem þm. gera sér ljóst, að þeim ber. að inna af hendi. Það, sem vakti fyrir ríkisstj., þegar hún bar fram frv. þetta, var það, að frestað yrði fram eftir árinu þeim þingstörfum, sem sýnilega yrði erfitt að ljúka, ef þ. kæmi saman 15. febr.

Það hefur verið svo undanfarið, að fjárl. hafa verið afgr. og gengið frá þeim síðari hluta ársins og um áramót. Það er því ekki í fyrsta skipti nú, að ætlazt sé til að afgr. þau í nóv. eða des., heldur hefur það verið gert á fjöldamörgum undanförnum þ., án tillits til þess, hvort horfur væru á samkomulagi um þau eða ekki. Ég sé ekki, að það sé nein ástæða til að óttast, að afgr. fjárl. fyrir 1946 þurfi að fara frekar úrhendis en verið hefur á mörgum undanförnum þ. Ég held þvert á móti, að meiri líkur bendi til þess að takast megi að afgr. fjárl. næsta haust en verið hefur áður. S.l. tvö ár hefur setið hér stj. að völdum, sem ekki hefur haft þingmeirihluta að baki sér, en þrátt fyrir það hefur þó tekizt að afgr. fjárl. undir lok ársins, án þess að til kosninga hafi þurft að koma, og ég vildi ætla, að meiri ástæða væri til þess, að nú tækist að afgr. þau, þegar fyrir liggur ákveðinn þingmeirihluti, sem stendur á bak við núv. stj. Ég veit ekki, hvort fyrir hv. þm., sem andmælti þessu frv., vakti, að það ósamkomulag kunni að koma upp hjá þeim, sem að stj. standa, að það leiði til þess, að samkomulag takist ekki um afgr. fjárl., en eitthvað slíkt hlýtur það þó að vera. Ég sé ekki, að líkindin, eins og nú stendur, séu minni, heldur meiri fyrir því, að samkomulag náist um afgr. fjárl. nú heldur en oft áður, og það er náttúrlega aðalatriði málsins, því að ef líkur eru til þess, að afgr. fjárl. takist í árslok, er engin ástæða til að flýta samkomudegi þ.

Þá vil ég loks benda á, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er samkomudegi Alþ. ekki slegið föstum, heldur ákveðið, að hann skuli verða ekki síðar en 1. okt., en það er að verulegu leyti annað en að segja, að hann skuli verða þennan ákveðna dag, því að eins og hv. þm. væntanlega hafa séð og lesið í frv., þá stendur þar, að Alþ. skuli koma saman eigi síðar en þennan dag og þá, nema forseti Íslands hafi ákveðið annað. Ef málin hins vegar skipast þannig, að nauðsynlegt verði að kalla þ. saman fyrr en þá, verður það vitanlega gert. Ég tel þess vegna, að það sé engu sleppt og engu tapað, þótt frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir. Möguleikar til þinghalds fyrr á árinu eru fyrir hendi. Hægt er að kalla þ. saman bæði 1. maí og 1. sept., ef ástæður þykja til, svo að allt tal um, að hér sé verið að stofna einhverju í voða með þessu ákvæði, er alveg út í hött. Hins vegar eru mikil líkindi til þess, að það verði miklu hægara, þegar líður á árið, að semja skynsamleg fjárl. og því heppilegra að fresta samkomudegi þ. eins lengi og fært þykir.

Ég held, að í þessum tveimur síðustu ræðum, sem ég hef heyrt og voru hvassyrtar, má ég segja hafi ekki verið fleira, sem gefi mér tilefni til frekari andsvara.